Sport

Sá fljótasti í körfunni

Páll Kristinsson hjá Njarðvík hefur byrjað körfuboltaveturinn frábærlega og þjálfari hans, Einar Árni Jóhannsson, er ánægður með sinn mann. "Palli æfði með landsliðinu í allt sumar og er þar af leiðandi í mjög góðu formi. Hungrið í það að fá að spila er líka gríðarlega mikið," sagði Einar Árni en landsliðsþjálfarinn, Sigurður Ingimundarson, hafði lítil sem engin not fyrir Pál í leikjum landsliðsins í sumar. "Hann hefur verið virkilega ferskur í allt haust. Hann var mjög góður á æfingamótinu í Danmörku og hefur fylgt því frábærlega eftir það sem af er tímabilinu. Palli er einn allra fljótasti tveggja metra maðurinn í bransanum og hann er á heimavelli þegar við keyrum hraðaupphlaupin. Það er heldur ekki verra fyrir hann að hafa mann eins og Matt Sayman til að spila upp því þeir ná mjög vel saman. Palli er að njóta góðs af frábærri liðsheild og hann hefur verið að spila frábærlega fyrir okkur, " sagði Einar Árni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×