Skoðun

Hvað vakir fyrir Helga?

Fátt vakti meiri athygli um helgina en yfirlýsingar Helga Hjörvar í viðtali við Fréttablaðið þar sem hann sagðist hafa áhyggjur af því að Reykjavíkurlistinn væri að verða lítil pólitísk klíka í Ráðhúsinu og að sárlega skorti pólitíska forystu í borginni. Ummæli Helga voru vitaskuld skilin á þann veg að hann væri að lýsa eftir pólitískum forystumanni sem gæti leitt R-listann í næstu kosningum. Ein samsæriskenningin sem fór á kreik í kjölfar viðtalsins var sú að Helgi væri í raun að lýsa eftir sjálfum sér pólitískum forystumanni, að hann ætti sjálfur að taka að sér forystuhlutverk í borginni. Það sem rennir stoðum undir þessa kenningu er að Helgi er einn af guðfeðrum R-listans og hugmyndafræðingur Röskvukynslóðarinnar svokölluðu. Helgi mun varla koma til greina í ráðherraembætti þótt Samfylkingin kæmist í stjórn eftir næstu kosningar og því kann borgin að verða á ný spennandi vettvangur fyrir hann. Rís nýr Dagur? Hins vegar hefur lengi verið horft til Dags B. Eggertssonar um að taka við sem pólitískt sameiningartákn Reykjavíkurlistans. Dagur er ekki rígbundinn neinum af flokkunum sem standa að listanum, þótt hann hafi fylgt Jóhönnu Sigurðardóttur að málum í Þjóðvaka á sínum tíma. Þá er Dagur sá útvaldi í þeim skilningi að guðmóðir R-listans, sjálf Ingibjörg Sólrun Gísladóttir, handvaldi Dag í hið lausa 7. sæti sem hún fékk að velja í sjálf fyrir síðustu kosningar. Það þótti ýmsum vera í raun krýning arftakans. En hvort sem það verður Helgi eða Dagur er líklegt að það verði helgidagur hjá R-listanum þegar málin leysast.



Skoðun

Sjá meira


×