Sport

Gylfi með tilboð frá tveimur liðum

Landsliðsmaðurinn Gylfi Einarsson liggur nú undir feldi og íhugar tilboð frá ensku 1. deildarliðunum Cardiff og Leeds. Gylfi sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að málið væri nokkuð flókið þar sem hann væri með tvo umboðsmenn í málinu, einn að semja við hvort lið en að málin myndu skýrast í næstu viku. "Bæði þessi félög eru mjög spennandi. Ég ræddi við báða knattspyrnustjórana og leist vel á það sem þeir höfðu fram að færa. Leeds er með frábæra æfingaaðstöðu, aðstöðu eins og hún gerist best í Englandi og er risastórt félag. Cardiff er líka mjög spennandi, félag á uppleið og það verður ekkert auðvelt verk að velja á milli liðanna." Gylfi sagði aðspurður að peningar myndu ekki skipta öllum máli varðandi val á liði. "Það skiptir mig meira máli að ég geti þróað mig sem knattspyrnumaður - það mun ráða úrslitum," sagði Gylfi sem hefur einnig vakið áhuga liða í Þýskalandi og Belgíu. Eins og áður sagði er Gylfi með tvo umboðsmenn, nokkuð sem er mjög óvenjulegt en hann sagði það ganga ágætlega upp. "Það getur verið ruglingslegt á köflum en á móti kemur að þeir eru aldrei öruggir og vinna því vonandi betur fyrir mig. Það er allt í lagi að láta þá svitna aðeins," sagði Gylfi að lokum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×