Erlent

Enn framin mannréttindabrot í Téténíu

Mannréttindaráðherra Evrópuráðsins sakar yfirvöld í Téténíu um að hafa með skipulögðum hætti notað pyntingar til að fá fram játningar við rannsókn glæpa. Ráðherrann, Thomas Hammarberg, er í þriggja daga heimsókn í héraðinu og þar segist hann þegar hafa orðið vitni að merkjum um alvarleg mannréttindabrot.

Erlent

Rífa húsið strax í dag

Lögregla ætlar að rífa Ungdomshuset strax í dag og þegar hefur sprengiefni verið flutt inn í húsið. Aðstandendur hússins hafa boðað frekari fjöldamótmæli í kvöld og búist er við miklum fjölda. Á áttunda tug hafa verið handteknir í mótmælunum.

Erlent

Lögregla eykur viðbúnað vegna mótmæla

Lögregla eykur enn viðbúnað við Ungdomshuset í Kaupmannahöfn. Fjölmörgum leikskólum og skólum í Nörrebro-hverfinu hefur verið lokað. Þá er lögregla með sérstaka vakt við Stórabeltis-brúnna þar sem búist er við því að ungmenni víðsvegar að í landinu ætli að flykkjast til Kaupmannahafnar til að taka þátt í að mótmæla aðgerðum lögreglunnar við Ungdomshuset. Mótmælendum hefur þegar fjölgað mikið og hefur lögregla að sama skapi aukið viðbúnað sinn. Nokkrir götueldar loga nú í götunum í kringum Jagtvej, þar sem Ungdomshuset stendur en lögregla hefur lokað Jagtvej í báða enda.

Erlent

Óeirðir við Kristjaníu

Óeirðir eru að brjótast út við Kristjaníu í Kaupmannahöfn en þar hafa ungmenni reist vegatálma og fleygt bensínsprengjum. Slökkvilið er á staðnum og reynir að slökkva eldana.Talið er að ungmennin séu að reyna að draga athygli lögreglunnar frá Ungdomshuset á Norrebro. Þar hafa einnig verið kveiktir götueldar og þar er lögregla með mikinn viðbúnað.

Erlent

Ætlar borgin að rífa húsið strax í dag?

Ungmenni sem haft hafa aðstöðu í Ungdomshuset hafa kveikt elda á Nörrebrogade og henda nú grjóti og flöskum í átt að lögreglu sem stendur vakt um Ungdomshuset í Kaupmannahöfn. Samkvæmt heimildum Vísir ætlar lögregla að standa vörð um húsið í dag á meðan stórvirkar vinnuvélar koma og rífa það niður, þetta er þó ekki staðfest. Þá munu ungmenni vera að skipuleggja tilraun til að komast aftur inn í húsið.

Erlent

Lögregla rýmdi Ungdomshuset

Lögreglan í Kaupmannahöfn gerði áhlaup og rýmdi Ungdomshuset á Norrebro á svipstundu í morgun. Þegar hefur fjöldi mótmælanda safnast saman og búist er við hörðum átökum. Lögregla hefur handtekið um 20 mótmælendur, þ.á.m. hóp sem reyndi að komast framhjá vegtálmum.

Erlent

Sprengjuhótun í sendiráði í Jakarta

Sendiráði Bandaríkjanna í Jakarta höfuðborg Indónesíu barst sprengjuhótun í morgun þar sem sagði í SMS-skilaboðum að Al Kaída ætlaði að sprengja sendiráðið í loft upp. Leitað var hátt og lágt í þessari rammgerðu byggingu en hvorki fannst tangur né tetur af meintri sprengju. Ekki var einu sinni gengið svo langt að rýma bygginguna en gerðar ráðstafanir til að það gæti gengið fljótt fyrir sig.

Erlent

Leystu upp dóphring

Fíkniefnalögregla í Bandaríkjunum segist hafa handtekið meira en 400 manns og lagt hald á yfir 18 tonn af fíkniefnum í árás á mexíkóskan smyglhring á síðustu mánuðum. Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna Alberto Gonzales sagði í gær þessa aðgerð hafa tekið nær tvö ár og gengið vonum framar.

Erlent

McCain vill verða forseti

John McCain öldungardeilarþingmaður mun lýsa því yfir formlega að hann sækist eftir útnefningu repúblíkana til forsetaembættis í Bandaríkjunum. Þessu sagði hann frá í þætti David Letterman í gærkvöldi.

Erlent

Pólár Sameinuðu þjóðanna hefst á morgun

Fleiri en 60 þjóðir taka þátt í umfangsmestu vísindarannsókn á heimsskautasvæðunum en hún hefst á morgun. Hún á meðal annars að kortleggja svæðin sem að eru í hættu að bráðni vegna loftslagsbreytinga. 3.000 börn í Osló munu búa til snjókarla, virtir vísindamenn munu funda í París og hópur rannsóknarmanna leggur af stað frá Höfðaborg í Suður-Afríku áleiðis til Suður-Heimsskautsins.

Erlent

Vínið lengir lífið

Að drekka lítið magn af víni á hverjum degi - minna en eitt glas á dag - eykur lífslíkur karlmanna um nokkur ár. Þetta kom fram í rannsókn hollenskra rannsóknarmanna sem var kunngjörð í hófi bandarískra hjartalækna í Flórídaríki í Bandaríkjunum í kvöld.

Erlent

Anna Nicole verður jörðuð á Bahamas-eyjum

Áfrýjunardómstóll í Flórídaríki í Bandaríkjunum hefur hafnað því að móðir Önnu Nicole Smith fái lík hennar afhent. Því er nú ljóst að Anna Nicole verður brátt lögð til hinstu hvílu á Bahamas-eyjunum. Fylkisdómstóll hafði áður hafnað kröfu móður Önnu, Virgie Arthur, en hún var að reyna að fá að grafa dóttur sína í Texasríki þar sem hún var fædd. Sérstakur umsjónarmaður var skipaður til þess að sjá um útför Önnu Nicole og hefur hann þegar hafið undirbúning að jarðarför hennar.

Erlent

Íranar ætla að taka þátt í ráðstefnunni í Írak

Íranar hafa sagt að þeir ætli sér að taka þátt í ráðstefnu í Írak þann 10. mars næstkomandi. Ali Larijani, æðsti samningamaður Írana í kjarnorkumálum, sagði að Íranar séu tilbúnir til þess að beita hvaða ráðum sem er til þess að leysa vandamál Íraks.

Erlent

Prodi fær stuðning þingsins

Forsætisráðherra Ítalíu, Romano Prodi, vann stuðningsyfirlýsingu í öldungadeild ítalska þingsins í kvöld. Yfirlýsingin bindur endi á þá krísu sem hefur verið í ítölskum stjórnmálum undanfarna viku. Prodi bauðst þá til þess að segja af sér eftir að frumvarp sem hann hafði lagt fram varðandi utanríkisstefnu Ítalíu var fellt.

Erlent

Myrti börnin sín fimm

Belgísk kona myrti fimm börn sín og reyndi svo að taka eigið líf. Lögregla í bænum Nivelles, sem er um 30 kílómetra fyrir sunnan Brussel, skýrði frá þessu í dag. Lögreglan sagði að hún hefði fundið lík barnanna fimm sem voru á aldrinum þriggja til 14 ára.

Erlent

Viggó viðutan er fimmtugur

Viggó Viðutan er fimmtugur í dag en þessi klaufi hefur komið mörgum til að hlæja með eindæma bögglulegri framgöngu sinni.

Erlent

Lögreglumenn sprautuðu á slökkviliðsmenn

Slökkviliðsmönnum og lögreglumönnum laust saman í Belgíu dag þegar þeir fyrrnefndu þustu út á götur borgarinnar til að mótmæla kjörum sínum. Lögreglan brást við með því að sprauta bókstaflega slökkviliðsmönnunum af götum Brusselborgar með vatnsslöngum.Talið er að um þrettán hundruð slökkviliðsmenn hafi verið samankomnir í miðborg Brussel og var andrúmsloftið afar eldfimt. Þrír lögreglumenn og tveir slökkviliðsmenn særðust. Ástæðan fyrir andófi belgísku slökkviliðsmannanna er sú að þeir vilja fá meiri menntun og fulla viðurkenningu á því að starf þeirra sé áhættusamt.

Erlent

10 þúsund manns sagt upp hjá Airbus

Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hefur tilkynnt að tíu þúsund starfsmönnum verði sagt upp störfum víðsvegar um Evrópu á næstu fjórum árum. Flestum verður sagt upp í Frakklandi og Þýskalandi.

Erlent

Enginn snjór féll í Tókíó í vetur

Engin snjór féll á þessum vetri í japönsku borginni Tókíó og er það í fyrsta sinn síðan árið 1876 sem það gerist. Veðurstofan í Japan skilgreinir tímabilið frá desember út febrúar sem vetur.

Erlent

Bandaríkin og Norður Kórea funda

Norður Kóreumenn munu funda með Bandaríkjamönnum í New york 5.-6. mars og ræða hvernig hægt er að koma samskiptum landanna í eðlilegt horf. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjamanna er ekki búist við byltingu í samskiptum landanna eftir þennan fyrsta fund. Sean McCormack talsmaður ráðuneytisins sagði: "Enginn mun veifa skjali um samkomulag eftir fundinn í næstu viku."

Erlent

Slökkviliðsmenn og lögregla slógust

Sex slösuðust í mótmælagöngu tvö þúsund slökkviliðsmanna sem leystist upp í átök við lögreglu í Belgíu í dag. Átökin brutust út þegar þrjú hundruð lögreglumenn reyndu að koma í veg fyrir að slökkviliðsmönnunum tækist að brjótast inn á öryggissvæði við belgíska þingið. Slökkviliðsmennirnir mótmæla vinnuaðstæðum, fara fram á að fara fyrr á eftirlaun og fá betri bætur ef þeir slasast.

Erlent

Fjórir létust þegar lest fauk af sporinu

Að minnsta kosti fjórir létust og 30 slösuðust þegar hluti kínverskrar farþegalestar fauk af sporinu í mjög öflugum vindhviðum í Kína í dag. Ellefu vagnar lestarinnar fuku af sporinu og gluggarúður brustu þegar fárviðri skall á í norðvesturhluta landsins. Haft er eftir embættismönnum að veðrið hafi skollið á stuttu eftir að lestin fór frá Turpan stöð í Xinjiang héraði.

Erlent

61 árs kona ól barn í Danmörku

61 árs gömul kona fæddi stúlkubarn á Ríkisspítalunum í Kaupmannahöfn fyrir rúmri viku, að sögn Ekstra blaðsins. Konan er elsta kona sem fætt hefur barn í Danmörku og sú níunda elsta í heimi. Hún er á eftirlaunum og hafði farið í tæknifrjóvgun í Englandi vegna 45 ára efra aldurstakmarks kvenna í tæknifrjóvgunum í Danmörku. Barnið vóg 12 merkur.

Erlent

Óttast minniháttar flóðbylgju

Yfirvöld á Ítalíu óttast að eldgosið á Stromboli eyju geti skapað minniháttar flóðbylgju. Árið 2002 voru nær allir íbúar fluttir af eynni þegar skriðufall orsakaði bylgju og nokkrir slösuðust. Yfirvöld óttast að eldgosið nú gæti komið jarðfalli af stað en telja íbúana á eynni aðeins í lítilli hættu. Stromboli er 60 kílómetra norður af Sikiley og er þekkt fyrir minniháttar eldsumbrot.

Erlent

Áframhaldandi lækkun á hlutabréfum

Hlutabréf héldu áfram að lækka í Asíu og Evrópu í morgun annan daginn í röð í kjölfar mikillar lækkunar á kínverska hlutabréfamarkaðnum í fyrradag. Hlutabréfavísitölur á Norðurlöndunum lækkuðu töluvert og áhrif þessarar lækkunar mátti merkja hér á Íslandi annan daginn í röð.

Erlent

Íraskir bræður stjórnmálamanns myrtir

Byssumenn drápu tvo bræður mikilsmetins súnní stjórnmálamans í hverfi uppreisnarmanna í norður Baghdad í dag. Mennirnir voru bræður hófsama stjórnmálamannsins Saleem al-Jubouri, talsmanns stærsta súnní flokksins á íraska þinginu. Hann sagði fréttamönnum Reuters að bræður hans, Fuad og Ahmed, hafi látist samstundis þegar uppreisnarmenn skutu á þá í Diyala.

Erlent

Picasso-málverkum stolið

Tveimur málverkum eftir Pablo Picasso hefur verið stolið af heimili barnabarns málarans í París. Verðmæti myndanna er rúmlega fjögur hundruð milljónir íslenskra króna. Sky fréttastofan hefur þetta eftir lögreglu á staðnum en hún vinnur nú að rannsókn málsins.

Erlent