Handbolti

Fimmtán marka sigur í fyrsta leiknum undir stjórn Kristjáns | Öruggt hjá Frökkum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristján fer vel af stað með sænska landsliðið.
Kristján fer vel af stað með sænska landsliðið. mynd/guif
Kristján Andrésson stýrði Svíum í fyrsta sinn í kvöld er liðið vann 15 marka sigur, 36-21, á Svartfellingum í Lundi í undankeppni EM 2018.

Fimm mörkum munaði á liðunum í hálfleik, 14-9, en í seinni hálfleik keyrðu Svíar yfir gestina og unnu að lokum stórsigur.

Þrettán leikmenn Svíþjóðar komust á blað í leiknum í kvöld. Jim Gottfridsson var þeirra markahæstur með sex mörk.

Svíar eru með tvö stig í riðli 6. Næsti leikur Kristjáns og lærisveina hans er gegn Slóvakíu á laugardaginn.

Frakkar áttu ekki í neinum vandræðum með að leggja Litháa að velli í riðli 7. Lokatölur 37-20, heimsmeisturunum í vil.

Þetta var fyrsti leikur Frakka undir stjórn Didier Dinart en það er óhætt að segja að gamli varnarjaxlinn fari vel af stað í starfi.

Kentin Mahe var markahæstur í franska liðinu með sjö mörk. Timothey N'guessan kom næstur með fimm mörk.

Giedrius Morkunas, markvörður Hauka, lék með litháíska liðinu sem og Karolis Stropus, leikmaður Akureyrar. Sá síðarnefndi skoraði eitt mark í leiknum.


Tengdar fréttir

Strákarnir hans Patreks misstigu sig gegn Finnum

Austurríska handboltalandsliðið, sem Patrekur Jóhannesson þjálfar, tapaði óvænt fyrir Finnum í undankeppni EM 2018 í kvöld. Lokatölur 27-31, Finnlandi í vil.

Lazarov skaut Úkraínumenn í kaf

Makedónía bar sigurorð af Úkraínu, 27-21, í fyrsta leik D-riðils í undankeppni EM 2018 í handbolta í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×