Tómas Þórður átti flotta innkomu í leikinn, en hann spilaði tólf mínútur, skoraði fimm stig, tók þrjú fráköst og varði tvö skot. Hann nýtti eina skotið sitt í teignum og eina skotið sitt fyrir utan þriggja stiga línuna.
Frammistaða Tómasar er áhugaverð í ljósi þess að hann spilaði með nokkur glerbrot föst í hælnum og hafði lítið æft í aðdraganda leiksins.
„Tveimur vikum fyrir leikinn var ég í afmæli hjá Jóhanni Laxdal [Leikmanni karlaliðs Stjörnunnar í fótbolta, innsk.blm] þar sem ég steig á flöskubotn,“ segir Tómas Þórður í samtali við Vísi.
„Það brotnaði flaska og ég steig aftur fyrir mig og fæ glerbrot í gegnum skóinn og upp í hælinn. Ég fór beint á slysó þar sem stærsta stykkið var tekið úr mér, en ég æfði ekkert í heila viku eftir það. Þegar ég spilaði Fjölnisleikinn á mánudaginn í síðustu viku var það í fyrsta sinn í viku sem ég hreyfði mig.“

„Ég keypti mér deyfikrem og bar það á mig auk þess sem ég tók verkjalyf. Ég hætti bara að væla í viku,“ segir hann léttur.
Á mánudaginn eftir bikarúrslitaleikinn var hann hættur að geta stigið í hælinn og var augljóst að eitthvað meira væri að.
„Ég fór aftur upp á slysó þar sem tekin var mynd og þá kom í ljós að það voru enn glerbrot í hælnum. Læknarnir opnuðu þetta aftur og tóku vonandi restina úr hælnum að þessu sinni,“ segir Tómas Þórður, en næsti leikur Stjörnunnar er á föstudaginn gegn Þór í Þorlákshöfn.
„Ég veit ekki hvort ég verði klár. Læknirinn sagði mér að hlusta á hælinn. Ég mun örugglega prófa en frekar vil ég missa af einum leik en vera að drepast langt fram í úrslitakeppnina.“

Sigur Stjörnunnar var ótrúlegur, en hvernig upplifði Tómas Þórður spennuna og dramatíkina undir lokin?
„Ég trúði ekki að Helgi Már klúðraði tveimur galopnum skotum. Ég minntist bara undanúrslitanna í fyrra þegar hann kláraði okkur með svipuðu skoti. Ég sá boltann ofan í en þegar þeta var í höfn missti maður sig alveg,“ segir Tómas Þórður Hilmarsson.