Viðskipti innlent

Arion banki stefnir Björgólfi Thor

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Arion banki hefur nú höfðað mál gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni vegna persónulegra ábyrgða sem hann og faðir hans tókust á hendur þegar Samson fékk lán hjá Búnaðarbankanum vorið 2003 til að kaupa Landsbankann. Skuld feðganna stendur í tæpum sex milljörðum króna í dag.

Þegar Landsbankinn var einkavæddur vorið 2003 var þriðjungur kaupverðsins sem Samson greiddi fyrir bankann fjármagnaður með láni hjá Búnaðarbanka Íslands. Halldór J. Kristjánsson, þáverandi bankastjóri Landsbankans, var gerður út af örkinni til að óska eftir láni upp á 3,4 milljarða króna fyrir væntanlega eigendur, en á þessum tímapunkti höfðu Björgólfsfeðgar og Magnús Þorsteinsson ekki fengið lyklavöld í bankanum og var hann því enn að forminu til ríkisbanki þegar þetta átti sér stað.

Lánið til Samsonar var formlega afgreitt hinn 25. apríl 2003 en í nokkrar vikur þar á undan hafði verið unnið að lánasamningnum. Elín Sigfúsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Búnaðarbankans, undirbjó lánveitinguna, en hún var sem kunnugt er einn fjölmargra starfsmanna Búnaðarbankans sem ráðnir voru yfir til Landsbankans í apríl 2003.

Lánið stendur nú í 6 milljörðum króna með dráttarvöxtum og er hjá Arion banka. Þegar lánið var veitt á sínum tíma gerði Sólon Sigurðsson, þáverandi bankastjóri Búnaðarbankans, þá kröfu að feðgarnir tækjust á hendur persónulega ábyrgð samfara láninu. Á síðasta ári þegar tilraunir Nýja Kaupþings við innheimtu kröfunnar hófust fyrir alvöru voru feðgarnir reiðubúnir að greiða helming skuldarinnar gegn niðurfellingu á hinum helmingnum. Á þetta var ekki fallist af hálfu bankans. Nú er svo komið að bankinn hefur stefnt Björgólfi Thor til innheimtu skuldarinnar á grundvelli hinnar persónulegu ábyrgðar, en bankinn stefnir honum einum þar sem Björgólfur Guðmundsson er gjaldþrota.

Ef dómur gengur í málinu getur bankinn gengið að eignum Björgólfs Thors, en hann á bæði fasteignir og hluti í fyrirtækjum á Íslandi. Þar má til dæmis nefna Vern Holdings, tölvuleikjafyrirtækið CCP, fjarskiptafyrirtækið Nova og lyfjasamsteypuna Actavis. Talsmaður Björgólfs Thors sagði í samtali við fréttastofu að Björgólfi væri ekki kunnugt um málshöfðunina og hefði til þessa litið svo á að hann væri enn í samningaviðræðum við Arion banka.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×