Innlent

Býður sig fram gegn Geir Haarde

Breki Logason skrifa
Snorri Ásmundsson
Snorri Ásmundsson

Listamaðurinn Snorri Ásmundsson er búinn að taka ákvörðun um að bjóða sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi í lok mánaðarins. Snorri segist ekki vera neitt sérstakur pólitíkus en telur sig geta tekið til hendinni. Hann finnur fyrir gríðarlegum stuðningi innan flokksins og segist hafa talað við stjórnmálafræðinga sem styðji við bakið á sér.

„Já ég ætla í formannsframboð gegn Geir H. Haarde," segir Snorri í samtali við fréttastofu. „Það eru nokkrir dagar í mesta lagi vika síðan ég tók þessa ákvörðun, en hef fram að því verið að skoða þessi mál."

Snorri er flokksbundinn sjálfstæðismaður og hefur verið lengi. „Ég finn fyrir miklum stuðningi og er eiginlega að drukkna úr hvatningu. Það eru margir sem vilja Geir í burtu, það getur ýmislegt gerst á svona tímum. Ég held að ég sé ekkert sérstakur pólitíkus en ég held að ég geti kannski gert eitthvað núna," segir Snorri.

Eins og hvað? „Bara tekið til hendinni, ekki veitir af því."

Snorri segist þegar byrjaður að vinna að framboðinu og hefur fengið ýmsa aðila til liðs við sig. Meðal annars stjórnmálafræðinga og fólk sem hefur áhuga að styðja við bakið á sér.

Snorri er ekki óvanur framboðum sem þessum en hann er hvað þekktastur fyrir að hafa boðið sig fram til forseta lýðveldisins. „Ég bauð mig reyndar fyrst fram í borgarstjórnarkosningunum árið 2002. Þá vildi ég verða borgarstjórnarefni Sjálfstæðisflokksins en það voru svo margir sem þá tóku ekki mark á mér. Þá viku allir fyrir Birni Bjarnasyni nema ég og hætt var við leiðtogakjörið. Í kjölfarið stofnaði ég svo Vinstri-hægri-snú," segir Snorri.

Sú saga gengur nú að Snorri hafi um tíma verið kominn inn í innsta hring í Sjálfstæðisflokknum og meðal annars verið með skrifstofu í Valhöll, höfuðvígi flokksins. „Þetta er skemmtileg saga, en ég hef ekki starfað opinberlega fyrir flokkinn," segir Snorri sem vill lítið ræða þessa sögu.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst þann 29.janúar.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.