

Samtök stuðningsmanna Manchester United hafa miklar áhyggjur af rekstri félagsins um þessar mundir, en skuldir eigenda þess vegna yfirtökunnar á sínum tíma nema um 660 milljónum punda. Eigendur United segja áhyggjur þessar óþarfar.
Wigan gekk í dag frá kaupum á hollenska landsliðsmanninum Denny Landzaat frá AZ Alkmaar í Hollandi. Landzaat hefur skrifað undir þriggja ára samning við Wigan og er kaupverðið sagt vera um 2,5 milljónir punda. Landzaat er þrítugur miðjumaður og var í liði Hollendinga á HM.
Forseti spænska félagsins Atletico Madrid segir að sér hafi engin tilboð borist í framherjann sterka Fernando Torres, þrátt fyrir þrálátan orðróm um að félög á borð við Manchester United séu á höttunum eftir honum. Hinn 22 ára gamli Torres hefur verið talinn einn besti og efnilegasti framherji í Evrópu um árabil og er reglulega orðaður hvert stórliðið á fætur öðru.
Franski bakvörðurinn Franck Quedrue hjá Middlesbrough á nú í viðræðum við Chris Coleman og félaga í Fulham, en hann hefur gefið það upp að hann vilji fara frá Boro. Nokkur lið í Frakklandi hafa einnig sett sig í samband við leikmanninn, en sem stendur er Fulham hvað líklegast til að landa honum. Quedrue hefur leikið með Boro í fjögur ár og var áður hjá franska liðinu Lens.
Arsene Wenger gefur lítið út á þann orðróm að Arsenal sé á höttunum eftir einhverjum af stórstjörnum Juventus sem væntanlega munu yfirgefa ítalska félagið á næstu mánuðum, því hann segir að Arsenal hafi einfaldlega ekki efni á að borga þeim laun.
Sir Alex Ferguson segir að Manchester United hafi enn ekki fengið formlegt tilboð í sóknarmanninn Ruud Van Nistelrooy, en bendir á að hann muni ekki fara á neinu útsöluverði þó hann hafi farið fram á að verða seldur frá félaginu.
Forseti franska knattspyrnufélagsins Marseille segir að vængmaðurinn Franck Ribery verði alls ekki seldur í sumar, sama hve hátt verði boðið. Ribery er samningsbundinn félaginu næstu fjögur ár og vill forsetinn byggja upp sterkt lið í kring um landsliðsmennina Ribery og Djibril Cisse, sem nýverið kom til heimalandsins sem lánsmaður frá Liverpool. Lið eins og Arsenal, Manchester United og Lyon höfðu sýnt leikmanninum áhuga að undanförnu.
Eins og búast mátti við í kjölfar ófara Juventus á síðustu dögum, hafa stórlið Evrópu nú rennt hýru auga til bestu leikmanna félagsins. Hinn fjölhæfi Gianluca Zambrotta er þar engin undantekning, en Sky-sjónvarpsstöðin heldur því fram að AC Milan sé líklegasta félagið til að landa honum.
Nokkur skörð hafa verið höggvin í bandaríska landsliðshópinn í körfubolta sem undirbýr sig nú fyrir heimsmeistaramótið í Japan sem hefst í lok næsta mánaðar. Kobe Bryant mun að öllum líkindum missa af keppninni eftir að hafa þurft að gangast undir minniháttar aðgerð á hné, en áður höfðu þeir JJ Redick (bakmeiðsli), Lamar Odom (persónulegar ástæður) og Paul Pierce (uppskurður á öxl) dregið sig úr hópnum.
Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir ekki ólíklegt að félagið muni gera tilboð í einn eða tvo af leikmönnum Juventus í kjölfar þess að liðið var dæmt til að leika í annari deild á næstu leiktíð.
Enska 1. deildarliðið West Brom hafnaði í dag öðru tilboði Manchester United í pólska landsliðsmarkvörðinn Tomasz Kuszczak. Talið er að West Brom vilji fá tvo leikmenn í staðinn fyrir markvörðinn unga, auk peninga, en viðræður félaganna virðast nú vera komnar í strand í bili.
Bandaríkjamenn ætla að ræða við Jurgen Klinsmann um að taka að sér að þjálfa landslið þeirra. Bruce Arena er hættur með liðið og er hafin leit af nýjum þjálfara. Klinsmann er án efa stærsta nafnið sem kemur til greina sem býr í Bandaríkjunum, en hann er búsettur í Kaliforníu.
Ítalska stórliðið Juventus hefur verið dæmt niður í B-deildina þar í landi og verður svipt meistaratitlunum tveimur sem liðið vann í ár og í fyrra. Þá hafa lið Lazio og Fiorentina einnig verið dæmd niður um deild. Fjórða liðið sem lá undir grun í málinu, AC Milan, heldur sæti sínu í A-deildinni en dregin verða 15 stig af liðinu í byrjun tímabils.
Leikmenn ensks úrvalsdeildarliðsins Aston Villa hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir gagnrýna metnaðarleysi stjórnarformannsins Doug Ellis, en hann tilkynnti ráðandi hlut sinn í félaginu til sölu síðasta haust.
Bandaríska knattspyrnusambandið hefur tilkynnt að það muni ekki framlengja samning landsliðsþjálfarans Bruce Arena sem stýrt hefur liðinu í átta ár. Arena er lang sigursælasti þjálfarinn í sögu landsliðsins og stýrði því til sigurs í 71 af 130 leikjum. Leitin að eftirmanni hans er þegar hafin, en frétta er að vænta af því fljótlega.
Rafa Benitez er í skýjunum yfir því að vera búinn að landa framherjanum Craig Bellamy á Anfield og segist ekki hafa áhyggjur af vafasamri fortíð leikmannsins, sem hefur verið duglegur við að koma sér í vandræði á ferlinum.
Hollenski framherjinn Ruud Van Nistelrooy hefur farið fram á að verða seldur frá Manchester United. Þetta staðfesti Sir Alex Ferguson nú fyrir stundu. Ferguson segist vita af áhuga Bayern Munchen og Real Madrid á að kaupa leikmanninn, en segist ekki vita neitt um stöðu mála annað en það að sá hollenski hafi farið þess á leit við stjórnarformann United í dag að fá að fara frá félaginu.
Enska úrvalsdeildarfélagið Wigan hefur fengið kauptilboð sitt í hollenska landsliðsmanninn Denny Landzaat hjá AZ Alkmaar samþykkt, en á eftir að fá mikla samkeppni frá spænsku bikarmeisturunum Espanyol við að landa honum. Wigan er að leita sér að miðjumanni til að fylla skarð Jimmy Bullard og telur stjóri Wigan að hinn þrítugi Landzaat sé einmitt maðurinn til þess. Landzaat á að baki 21 landsleik fyrir Hollendinga.
Íslenska körfuboltalandsliðið skipað leikmönnum 20 ára og yngri fékk þungan skell gegn Hollendingum á Evrópumótinu í Portúgal í dag 99-58. Jóhann Árni Ólafsson átti ágætan leik í íslenska liðinu og skoraði 18 stig og hirti 12 fráköst og félagi hans Kristján Sigurðsson úr Njarðvík skoraði 16 stig.
Spænska stórliðið Valencia hefur nú bæst í hóp þeirra liða sem renna hýru auga til portúgalska miðjumannsins Cristiano Ronaldo hjá Manchester United. Pilturinn er ekki talinn eiga von á fallegri heimkomu þegar hann snýr aftur til Manchester eftir HM og framtíð hans er stórt spurningamerki þessa dagana.
Vináttulandsleik Íslendinga og Spánverja í knattspyrnu hefur verið flýtt um einn dag vegna leiks Barcelona og Espanyol í meistarakeppninni þar í landi. Leikurinn var upphaflega settur á 16. ágúst en verður háður þann 15. ágúst vegna meistarakeppninnar á Spáni, þar sem Eiður Smári og félagar í Barcelona mæta Espanyol þann 17. ágúst. Frá þessu var greint á Vísi í gær.
Umboðsmaður spænska miðjumannsins Cesc Fabregas hjá Arsenal segir að Real Madrid hafi gert eitt gott tilboð í leikmanninn unga, en segir hann hafa gert upp hug sinn - hann ætli að vera áfram í herbúðum Arsenal. Þá hefur Arsenal gefið það út að táningurinn Theo Walcott verði ekki lánaður frá félaginu á næstu misserum til að fá reynslu af að spila með aðalliði.
Abdoulaye Meite, landsliðsmaður Fílabeinsstrandarinnar, hefur samþykkt að ganga í raðir Bolton og mun skrifa undir fjögurra ára samning fljótlega eftir að gengið hefur verið frá lausum endum og læknisskoðun. Meite er 25 ára gamall varnarmaður og hefur lengi verið undir smásjánni hjá Sam Allardyce, stjóra Bolton.
Enska úrvaldeildarfélagið Manchester United hefur staðfest að það sé nálægt því að ganga frá kaupum á pólska varamarkverðinum Tomasz Kuszczak frá West Brom. Kuszczak er 26 ára gamall og fór til West Brom á frjálsri sölu frá Hertha Berlín á sínum tíma.
Búið er að tilkynna hvar riðlarnir á HM í Þýskalandi á næsta ári verða spilaðir og í ljós kom að íslenska landsliðið mun spila fyrstu þrjá leiki sína í Magdeburg. Það verður að teljast íslenska liðinu til tekna, því eins og flestir vita eru nokkrir af landsliðsmönnunum öllum hnútum kunnugir þar á bæ. Alfreð Gíslason stýrði liði Magdeburg við frábæran orðstír í mörg ár og þá hafa leikmenn eins og Ólafur Stefánsson, Sigfús Sigurðsson og Arnór Atlason gert fína hluti með liðinu.
Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari í handknattleik, segist mjög ánægður með mótherja íslenska liðsins í B-riðlinum á HM í handbolta sem hefst í Þýskalandi í janúar næstkomandi. Í samtali við NFS sagði Alfreð að Evrópumeistarar Frakka væru ekkert verri mótherji en hinar þjóðirnar í efsta styrkleikaflokki á mótinu, en benti á að þó vissulega væri lið Úkraínu sýnd veiði en ekki gefin, væri íslenska liðið heldur ekki skipað neinum aukvisum.
Hið fornfræga NBA lið Boston Celtics hefur náð samkomulagi við stórstjörnuna Paul Pierce um að framlengja samning sinn við félagið til þriggja ára. Talið er að samningur þessi sem gildir út árið 2008 muni tryggja Pierce tæpar 60 milljónir dollara á samningstímanum, en deildin á þó enn eftir að samþykkja þessa ráðstöfun.
Suður-Afríski miðjumaðurinn Quinton Fortune er nú sagður nálægt því að landa samningi við úrvalsdeildarlið Bolton, en hann hefur verið í æfingabúðum með liðinu undanfarið. Fortune er samningslaus eftir að hann var látinn fara frá Manchester United í vor, en Sam Allardyce, stjóri Bolton, segir ekkert því til fyrirstöðu að Fortune fái samning ef hann nær að halda heilsu, en það voru helst þrálát meiðsli hans sem urðu þess valdandi að hann var látinn fara frá Manchester United.
Sá orðrómur gerist nú æ háværari að hollenski framherjinn Ruud Van Nistelrooy hjá Manchester United sé á leið til spænska liðsins Real Madrid. Hollenskir fjölmiðlar halda því fram að Nistelrooy hafi þegar samþykkt félagaskiptin og að aðeins eigi eftir að semja um kaupverðið. Sir Alex Ferguson heldur blaðamannafund á morgun og þar er talið líklegt að svör fáist um framtíð Hollendingsins.
Nú styttist í að dómur falli í stóra spillingarmálinu sem riðið hefur yfir ítalska knattspyrnu á síðustu vikum og seinnipartinn í dag kemur í ljóst hvort stórliðin Juventus, AC Milan, Lazio og Fiorentina verða dæmd niður um deild í refsingarskyni.