Innlent

Íslendingar í Danmörku flæktir í risavaxið fíkniefnamál

Andri Ólafsson skrifar
Amfetamín og e-pillur.
Amfetamín og e-pillur.
Mál Íslendinganna sem voru handteknir í Danmörku í síðustu viku er risavaxið. Tugir kílóa af amfetamíni voru haldlagðir en málið teygir anga sína víða um Evrópu.

DV greindi fyrst frá því í síðustu viku að hópur Íslendinga hefði verið handtekinn í Danmörku í tengslum við fíkniefnamál sem var sagt teygja anga sína víða um Evrópu. Fréttastofa RÚV greindi svo frá því að málið varðaði smygl á amfetamíni en öðru leyti hafa fréttir eða upplýsingar um þetta mál verið af skornum skammti, enda lögreglan bæði á Íslandi og Danmörku þögul sem gröfin um málavexti.

Fréttastofa Stöðvar 2 hefur nú heimildir fyrir því að málið sé risavaxið, með stærri málum sem fíkniefnalögreglan hér á landi hefur fengist við. Til marks um það, segja heimildir fréttastofu að eitthvað í kringum 35 kíló af amfetamíni hafi verið haldlögð í aðgerðum lögreglu. Það þýðir að málið er ekki aðeins risastórt á íslenskan mælikvarða, heldur sé þetta umfangsmikið mál á evrópskan mælikvarða.

Söluandvirði á 35 kílóum af amfetamíni, sé miðað við að grammið kosti fimm þúsund krónur, eru 175 milljónir. Og ef efnið er hreint, sem það er venjulega í smyglmálum, má drýgja efnið þannig að virðið margfaldast.

Einn þeirra sem er í haldi lögreglunnar í Danmörku og er grunaður um smyglið, er samkvæmt heimildum fréttastofu, Guðmundur Ingi Þóroddsson. En hann var umsvifamikill í fíkniefnaheiminum í kring um aldamótin og fékk þá þunga dóma fyrir innflutning á E-pillum.

Hann blandaðist líka inn í mál smyglarans Kio Briggs sem vakti mikla athygli hérlendis en Guðmundur átti að hafa komið upp um Briggs gegn því að fá vægari meðferð á sínum málum.

Eftir að Guðmundur afplánaði sína dóma hefur hann samkvæmt upplýsingum fréttastofu verið búsettur erlendis.

Lögreglan vill, sem fyrr segir, engar upplýsingar veita um þetta mál. En samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur rannsókn þess staðið yfir síðan í júní á síðasta ári. Grunsemdir eru um að smyglið teygi anga sína frá Spáni til Amsterdam, Kaupmannahafnar og Osló og Reykjavíkur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×