Fleiri fréttir

BBC og YouTube í eina sæng

BBC og YouTube hafa gert með sér samstarfssamning sem felur í sér að YouTube býður nú myndskeið frá þremur sjónvarpsrásum BBC. Þá verður hægt að sjá viðtöl BBC við „fræga fólkið“, fréttir og eitthvað skemmtiefni. BBC mun að líkindum sjálft sjá um að hýsa myndskeiðin, en þeim verður veitt á síðu YouTube eins og öðrum myndskeiðum sem þar má sjá.

SPV og SH heita nú Byr - sparisjóður

Sparisjóður vélstjóra og Sparisjóður Hafnarfjarðar hafa nú tekið sameiginlegt nafn; Byr - sparisjóður. Sparisjóðirnir sameinuðust formlega um áramót. Starfsmenn og fjölskyldur þeirra komu saman í Smárabíó í dag til að fagna nýja nafninu. Heildareignir hins nýja sparisjóðs nema rúmum 100 milljörðum króna og eiga um 50 þúsund einstaklingar í viðskiptum við hann.

Langt undir spám

Fjölmiðla- og afþreyingarfélagið 365 hf. tapaði 6,9 milljörðum króna á síðasta ári. Sé einungis horft á áframhaldandi starfsemi nemur tapið 1,2 milljörðum. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta nam 1.552 milljónum króna. „Ljóst er að rekstrarniðurstaða félagsins er óásættanleg,“ segir forstjóri fyrirtækisins.

Straumur-Burðarás tekur 35,3 milljarða sambankalán

Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. hefur skrifað undir 400 milljóna evra sambankaláni. Þetta svarar til 35,3 milljarða íslenskra króna. Lánið er í tveimur hlutum með breytilegum vöxtum og til þriggja ára. Tuttugu og níu bankar í 13 löndum tóku þátt í láninu.

Gengi bréfa í EADS á niðurleið

Gengi hlutabréfa í EADS, móðurfélagi evrópska flugvélaframleiðandans Airbus, hefur farið niður um 3,9 prósent eftir að fyrirtækið greindi frá því í gær að það hyggðist fresta þróun og framleiðslu á fraktflugvél af gerðinni A380. Fyrirtækið mun eftirleiðis einbeita sér að framleiðslu á farþegaþotu af sömu gerð sem stefnt er að komi á markað í haust.

FME varar við erlendum hlutabréfaviðskiptum

Fjármálaeftirlitið (FME) varar við tilboðum erlendra aðila, sem hafi milligöngu um hlutabréfaviðskipti í erlendum fyrirtækjum. Eftirlitið segir að erlendir aðilar hafi haft samband við einstaklinga hér á landi og boðist til að hafa milligöngu um viðskiptin. Beri að vara fólk við tilboðum óþekktra aðila, að sögn Fjármálaeftirlitisins.

Landsbankinn selur Landsafl

Landsbanki Íslands hefur samið við Fasteignafélagið Stoðir hf. um sölu á öllum hlutum bankans í fasteignafélaginu Landsafli hf. Bankinn á 80 prósent hlutafjár í Landsafli á móti Burðarási hf.

Forstjóraskipti hjá Plastprenti

Stjórn Plastprents hf hefur ráðið Ólaf Steinarsson sem forstjóra félagsins frá og með gærdeginum, 1. mars. Á sama tíma lét Sigurður Bragi Guðmundsson, fráfarandi forstjóri, af störfum hjá fyrirtækiinu.

Lenovo innkallar rafhlöður

Kínverski tölvuframleiðandinn Lenovo hefur ákveðið að innkalla um 205.000 rafhlöður sem fylgja IBM Thinkpad-fartölvum fyrirtækisins. Japanska tæknifyrirtækið Sanyo framleiddi rafhlöðurnar fyrir fyrirtækið. Innköllunin kemur til viðbótar þeirri rúmlega hálfri milljón rafhlaða undir merkjum Sony sem fyrirtækið innkallaði í fyrra.

FlyMe í Svíþjóð gjaldþrota

Sænska lággjaldaflugfélagið FlyMe ætlar að óska eftir gjaldþrotaskiptum. Öllu flugi félagsins hefur verið aflýst. Íslenska eignarhaldsfélagið Fons átti um skeið um tuttugu prósent hlut í félaginu.

Minna tap hjá Icelandic Group

Icelandic Group tapaði 1.078 milljónum króna, 11,4 milljónum evra, á síðasta ári. Árið á undan tapaði félagið hins vegar rétt rúmlega 1,3 milljörðum króna. Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandic Group, segir mikið hafa verið gert til að bæta reksturinn en margt hafi verið dýrara og tekið lengri tíma en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Hlutabréfaverð í Kína að rétta úr kútnum

Hlutabréfaverð á kínverskum mörkuðum virðist vera að rétta úr kútnum eftir mikið hrun síðustu daga. Nú þegar líður að lokum kauphallarinnar í Shanghai fyrir helgina hefur vísitala hækkað um hálft annað prósent frá opnun í morgun. Nikkei-vísitala kauphallarinnar í Tokyo heldur að vísu áfram að lækka og hefur lækkað um 1,3 prósent frá opnun í morgun og samtals um nær sex prósent í þessari viku.

Peningaskápurinn ...

Síminn og Hans Petersen hafa skrifað undir samning um stafræna framköllun í kjölfar þess að Síminn markaðssetti þjónustuna Safnið í fyrra. Safnið er örugg geymsla fyrir ýmis rafræn gögn, en ljósmyndirnar þar er hægt að skoða bæði í tölvu og á sjónvarpsskjá auk fleiri möguleika.

M&S fylgist grannt með Sainsbury

Stuart Rose, forstjóri Marks & Spencer, segir að fyrirtækið íhugi að leggja fram tilboð í Sainsbury, þriðju stærstu stórmarkaðakeðju Bretlands. „Eignir sem þessar koma ekki oft inn á markaðinn,“ sagði hann á miðvikudaginn og bætti við að eigendur M&S myndu álíta hann vera fífl ef hann skoðaði ekki málið.

Sparisjóður Vestfirðinga hagnaðist um 800 milljónir.

Sparisjóður Vestfirðinga skilaði 801 milljón króna í hagnað í fyrra sem er 276,6 prósenta aukning á milli ára. Þar af var tekjufærsla skatta upp á 193 milljónir. Arðsemi eigin fjár var 80 prósent.

Á pari við spár

Hagnaður Actavis árið 2006 nam níu milljörðum króna. Vöxtur félagsins á síðasta ársfjórðungi var mestur í Mið- og Austur-Evrópu og Bandaríkjunum.

Kaupþing hækkar verðmat á Bakkavör

Greiningardeild Kaupþings hefur uppfært verðmat sitt á Bakkvör í kjölfar birtingar á ársuppgjöri fyrirtækisins og mælir með því að fjárfestar kaupi bréf í félaginu. Kaupþing segir sjóðstreymi Bakkaverar í fyrra hafa verið mjög sterkt og hafi það verið notað til að vinna á langtímaskuldum. Við það hafi lánastofnanir lækkað lánaálag félagsins.

Markaðir enn á niðurleið

Gengi hlutabréfa á helstu fjármálamörkuðum í Asíu og Evrópu hélt áfram að lækka í dag, þriðja daginn í röð eftir að SCI-vísitalan féll snarlega í Kína á þriðjudag eftir nokkrar hækkanir dagana á undan. Greinendur eru ekki á einu máli um það hvenær vísitölurnar rétta úr kútnum og telja að markaðurinn nái sinni fyrri stöðu ekki fyrr en um miðjan mánuðinn.

Tölvuþrjótar skrefi á undan

Ný tegund glæpamanna ryður sér til rúms. Þeir gera skipulagðar, fágaðar og arðbærar árásir á netnotendur. Þeir nota tegund hugbúnaðar sem kallast „malware" eða spilliforrit. Þannig plata þeir fólk til gefa sér upplýsingar eða stela þeim án þess að tekið sé eftir.

Gengi Mosaic Fashions hækkar eftir verðmat

Mosaic Fashions, móðurfélag nokkurra tískuverslanakeðja, hefur hækkað um tæp sex prósent í Kauphöll Íslands í dag. Helsta ástæðan er nýtt verðmat Landsbankans, sem birt var fyrr í dag.

Hagnaður Mörthu Stewart sexfaldast

Fyrirtæki bandarísku sjónvarps- og lífsstílskonunnar Mörthu Stewart skilaði 16,2 milljóna dala hagnaði á síðasta ársfjórðungi í fyrra. Þetta jafngildir tæplega 1,1 milljarði íslenskra króna sem er tæplega sex sinnum meira en fyrirtækið skilaði á sama fjórðungi árið 2005.

Hagnaður Sparisjóðs Vestfirðinga næstum fjórfaldast

Sparisjóður Vestfirðinga skilaði 800,6 milljóna króna hagnaði í fyrra samanborið við 212,6 milljóna króna hagnað árið áður. Það jafngildir því að hagnaðurinn hafi tæplega fjórfaldast á árinu.

Enn lækka hlutabréf í Asíu

Hlutabréf í Asíu halda áfram að lækka við upphaf viðskipta í dag og þannig hefur Hang Seng vísitalan í Hong Kong lækkað um 174 stig frá opnun í morgun sem jafngildir tæpu einu prósentustigi. Þá hefur Nikkei-vísitala kauphallarinnar í Tokyo lækkað um rúm 150 stig frá opnun eða um svipað hlutfall.

Peningaskápurinn ...

Það eru fleiri sjóðir en íslensku lífeyrissjóðirnir sem vaxa hratt. Norski ríkislífeyrissjóðurinn, sem áður kallaðist norski olíusjóðurinn, skilaði 7,9 prósenta ávöxtun í fyrra samanborið við 11,1 prósents hækkun árið 2005.

Sjá næstu 50 fréttir