Viðskipti innlent

Á pari við spár

Hagnaður Actavis árið 2006 nam níu milljörðum króna. Vöxtur félagsins á síðasta ársfjórðungi var mestur í Mið- og Austur-Evrópu og Bandaríkjunum.

Actavis skilaði tæplega 102,7 milljóna evra hagnaði á árinu 2006 sem nemur rúmlega níu milljörðum króna. Hagnaðurinn á fjórða ársfjórðungi nam 32,5 milljónum evra, um 2,9 milljörðum íslenskra króna.

Tekjur félagsins rúmlega tvöfölduðust á árinu og námu 1.379 milljónum evra, 121 milljarði íslenskra króna. EBITDA-framlegðarstig, hlutfall rekstrarhagnaðar fyrir skatta af rekstrartekjum, var 20,8 prósent. Tekjur á síðasta fjórðungi jukust um 80 prósent í 350,2 milljónir evra. EBITDA-framlegð á fjórðungnum nam 19,9 prósentum.

Hagnaður Actavis var að mestu leyti í takti við spár greiningardeilda Glitnis og Landsbankans. Tekjur og framlegð voru hins vegar undir væntingum þeirra. Greiningardeild Kaupþings gerði ráð fyrir minni hagnaði á fjórðungnum, eða 23,5 milljónum króna. Skýrist það meðal annars af því að gengishagnaður ársins var mun hærri en gert var ráð fyrir.

Vöxtur Actavis á fjórðungnum var mestur í Mið- og Austur-Evrópu og Asíu. Þar jókst sala um 31,3 prósent og nam 148,6 milljónum evra. Þá var vöxtur einnig góður í Bandaríkjunum. Salan jókst einnig Vestur-Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku. Þar stóðu tekjur hins vegar í stað vegna áhrifa af miklum verðlækkunum í Þýskalandi. Af sömu ástæðu varð samdráttur í sölu til þriðja aðila um 25,5 prósent.

Á kynningarfundi uppgjörsins í gær kom fram að bandaríska lyfjaeftirlitið hefði veitt Actavis viðvörun í kjölfar skoðunar á starfsemi félagsins í Little Falls í New Jersey. Segjast stjórnendur hafa brugðist við henni. Hún muni engin fjárhagsleg áhrif hafa á árinu 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×