Viðskipti erlent

Fá hálfsárseinkasöluleyfi í Bandaríkjunum

Actavis hefur fengið samþykki bandarísku matvæla- og lyfjastofnunarinnar til að markaðssetja meltingarfæralyfið Ranitidine mixtúru þar í landi.

Í tilkynningu Actavis til Kauphallar Íslands um málið kemur fram að þar sem fyrirtækið sé fyrst til að sækja um markaðsleyfi á lyfinu, hafi það fengið 180 daga einkarétt á sölu þess. Lyfið er sagt munu fara í dreifingu á næstu vikum.

Róbert Wessman, forstjóri Actavis, fagnar einkaréttinum og segir þetta í fyrsta sinn í sögu félagsins sem slíkur áfangi náist. Hann segir vonir standa til að lyfið verði á meðal þeirra söluhæstu í Bandaríkjunum á árinu.

Ranitidine mixtúra er samheitalyf frumlyfsins Zantac Syrup frá GlaxoSmithKline og er þriðja lyfið sem Actavis markaðssetur í Bandaríkjunum á árinu. Actavis segir að í fyrra hafi sala lyfsins í Bandaríkjunum numið um 121 milljón Bandaríkjadala, eða sem nemur um átta milljörðum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×