Fleiri fréttir

Hagnaður Boeing tvöfaldast

Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing skilaði 989 milljóna dala, eða 67,8 millarða króna, hagnaði á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Þetta er rúmlega tvöfalt meiri hagnaður en á sama tíma árið 2005 en þá nam hann 460 milljónum dala, jafnvirði 31,5 milljörðum dala.

Aukin verðbólga í OECD-ríkjunum

Verðbólga mældist 2,3 prósent að meðaltali á ársgrundvelli í innan aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í desember í fyrra. Þetta er 0,3 prósentustiga hækkun frá því í mánuðinum á undan. Næstmesta verðbólgan var líkt og fyrr hér á landi í desember en þá mældist hún 7,0 prósent.

Hagnaður Bakkavarar jókst um 111 prósent

Bakkavör Group skilaði 9,5 milljarða króna hagnaði í fyrra. Þetta er 111 prósenta aukning á milli ára. Þá nam hagnaðurinn á fjórða og síðasta ársfjórðungi 2006 4,6 milljörðum króna. Þetta er 191 prósenta aukning frá árinu á undan. Afkoman er lítillega yfir spám greiningardeilda viðskiptabankanna.

Hráolíuverð lækkar lítillega

Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði lítillega á helstu fjármálamörkuðum í dag eftir nokkrar hækkanir í gær og fór niður í rúma 56 bandaríkjadali á tunnu. Orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna birtir vikulega skýrslu um olíubirgðir landsins í dag. Greinendur gera ráð fyrir að olíubirgðir hafi dregist saman á milli vikna vegna kulda í Norður-Ameríku.

Vodafone yfir væntingum

Viðskiptavinum breska fjarskiptarisans Vodafone fjölgaði um 8,7 milljónir um allan heim á síðasta ársfjórðungi liðins árs. Þetta er talsvert meira en gert hafði verið ráð fyrir. Aukningin skýrist að mestu um aukna hlutdeild fjarskiptafyrirtækisins, sem er eitt það stærsta í Evrópu, á nýmörkuðum á borð við Afríku, Austur-Evrópu og í Miðausturlöndum.

Ókostir evrunnar óljósari en áður

Upptaka evru í stað krónu kynni að reynast sem ankeri fyrir efnahagslífið. Óli Kristján Ármannsson hlýddi á fyrirlestur dr. Jóns Þórs Sturlusonar á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Þar kom fram að algeng rök gegn aðild að evrunni kunna að vera veigaminni en talið hefur verið.

Með gott fjárfestinganef

Bala Murughan Kamallakharan er meðlimur í viðskiptaþróunarteymi Glitnis sem gegnir því mikilvæga starfi að leita og vinna að fjárfestingartækifærum fyrir bankann. Þegar teymið hefur fundið réttu færin og bankinn hefur keypt nýtt fyrirtæki stýrir það samþættingarvinnunni sem fylgir í kjölfarið.

Afþreyingarkerfi og sæti fyrir 1,8 milljarða

Icelandair hefur samið um kaup á nýju afþreyingarkerfi fyrir farþegaflugvélar við bandaríska framleiðslufyrirtækið Thales og um kaup á nýjum sætum við franska framleiðandann Aviointerios. Heildarvirði samninganna tveggja er sagt um 1,8 milljarðar króna.

Veðjum á raunveruleg verðmæti

Það fór eins og Aurasálina grunaði. Þjónustugjöldin hafa skilað bönkunum ævintýralegum hagnaði enn eitt árið. Allir bankarnir nema Seðlabankinn tilkynna nú um frámunalega mikinn hagnað af starfsemi sinni.

Actavis stefnir beint á ystu sjónarrönd

Það er sjaldan lognmolla yfir Actavis. Undirbúningur að skráningu hlutafjár í evrum er hafinn, metnaðarfull rekstrarmarkmið næstu ára voru nýlega kynnt innlendum sem erlendum fjárfestum og greiningaraðilum og áhugi á að taka yfir samheitalyfjahluta lyfjafyrirtækisins Merck hefur verið staðfestur.

Væntingarnar meiri en í fyrra

Væntingar íslenskra neytenda voru meiri í janúar í ár en í fyrra, sem var áður en erlendar bölsýnisspár um íslenska hagkerfið og bankana tröllriðu fjölmiðlum. Væntingavísitala Gallup mælist 128,6 stig og hefur reyndar lækkað örlítið frá því í desember, eða um tíu stig.

Fox gegn YouTube

Bandaríska kvikmyndafyrirtækið 20th Century Fox hefur farið fram á að stjórnendur netveitunnar YouTube gefi upp nafn manns sem hlóð tólf þáttum af teiknimyndaseríunni Simpsons og fjórum fyrstu þáttum úr nýjustu þáttaröðinni 24 inn á veituna sem gerði netverjum kleift að horfa á þættina án endurgjalds.

Kýr slá líka Íslandsmet

Það voru ekki aðeins íslensku viðskiptabankarnir sem slógu hvert afkomumetið á fætur öðru á síðasta ári. Íslensku kýrnar virðast síst eftirbátar bankanna enda mjólkuðu þær sem aldrei fyrr á liðnu ári.

Hráolían á taflborði alþjóðamarkaðar

Heimsmarkaðsverð á hráolíu hefur sveiflast talsvert undanfarna tólf mánuði. Verðið rauk upp í sögulegar hæðir um mitt síðasta sumar en er nú komið niður í um 55 dali á tunnu á helstu fjármálamörkuðum. Sveiflur sem þessar geta haft gríðarlegar afleiðingar á alþjóðamarkaði. Þar er enginn undanskilinn.

Kortaútgáfa aðgreind í nýju dótturfélagi

Kreditkort hafa tilkynnt um þá ákvörðun sína að færa korta-útgáfu félagsins yfir í dóttur-félag, líkt og greint var frá að stæði til í Fréttablaðinu á fimmtudag. Í tilkynningu félagsins segir að starfsemi Kreditkorts verði í framtíðinni miðuð að færsluhirðingu og þjónustu við útgefendur korta.

Þúsund farsímar seldir

Farsimalagerinn.is í Miðhrauni, sem hóf starfsemi sína í desember síðastliðnum, seldi þúsundasta farsímann 24. janúar síðastliðinn. Jón Valgeir Björnsson, sem festi kaup á síma af gerðinni Nokia 5140i, var við það tilefni leystur út með blómvendi og konfektkassa.

Lars varar við bjartsýni

Lars Christiensen varaði við því að Danir væru of bjartsýnir og vanmætu Íslendinga. Þessi Lars Christiensen talaði úr herbúðum danska handboltalandsliðsins og mælti þar af skynsemi.

Heill ykkur meistarar

Hverjir eru þeir sem með blóði, svita og tárum gera manni eins og mér kleift að vakna seint á morgnana og liggja þess á milli með fartölvuna á maganum uppi í sófa? Það eru blessaðir bankastjórarnir.

Gott ár hjá eBay

Bandaríska netfyrirtækið eBay, sem meðal annars rekur samnefndan uppboðsvef, netsímaþjónustuna Skype og greiðsluvefinn PayPal, skilaði 1,67 milljarða dala hagnaði á nýliðnu ári. Þetta jafngildir 116,8 milljörðum íslenskra króna sem er 24 prósenta aukning frá árinu á undan.

Samstarf um græna vottun fyrirtækja

Data Íslandia er í samstarfi við eitt stærsta ráðgjafa- og vottunar-fyrirtæki á Bretlandseyjum í loftslagsmálum, The CarbonNeutral Company. „Umfjöllun um verndun loftslagsins í heiminum er eitt aðalumræðuefnið í heimsfréttunum og eftir fund þeirra í London, hafa fyrirtækin sameinað krafta sína til að beina athygli annarra fyrirtækja að mikilvægi þessa málefnis,“ segir í tilkynningu Data Íslandia.

Flugfrumkvöðull deyr

Í gær voru liðin 59 ár frá andláti Orvilles Wright, yngri bróður Wilburs Wright, en saman eiga þeir heiðurinn að því að hafa komið fyrstu vélknúnu flugvélinni á loft í jólamánuði ársins 1903.

Samkeppnis-eftirlitið flytur

Samkeppniseftirlitið hefur tekið á leigu nýtt skrifstofuhúsnæði í Borgartúni 26 í Reykjavík. Fyrirhugað er að flytja starfsemi eftirlitsins í hið nýja húsnæði á miðju þessu ári, að því er fram kemur á vef Samkeppniseftirlitsins.

Eimskip eignast Norðurfrakt

Eimskip hefur keypt alla hluti í Norðufrakt ehf. á Siglufirði. Fyrir átti félagið 52 prósenta hlut. Í tilkynningu félagsins kemur fram að seljendur hafi verið Árni Helgason á Ólafsfirði og Ásmundur H. Einarsson á Siglufirði.

Sænskar geimferðir?

Breska geimferðafyrirtækið Virgin Galactic, sem er í eigu auðkýfingsins Richards Branson, náði á föstudag í síðustu viku samkomulagi við sænska fyrirtækið Spaceport að það kanni möguleikann á því að koma mönnuðum geimförum á loft frá Norður-Svíþjóð.

FL Group fær að eiga virkan eignarhlut í Glitni

FL Group hefur frá og með deginum í dag fengið formlega heimild Fjármálaeftirlitsins til að eiga og fara með virkan eignarhlut í Glitni. Þetta kemur fram í tilkynningu FL Group til Kauphallarinnar í dag. FL Group á nú 30,4 prósenta hlut í Glitni og er stærsti hluthafi bankans.

Glitnir tvöfaldar hagnað sinn

Hagnaður Glitnis árið 2006 var 38,2 milljarðar íslenskra króna eftir skatta. Það er rétt rúmlega tvöföldun frá árinu 2005, þegar hagnaður nam 18,9 milljörðum. Hagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 9,3 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár var 39,4%.

Samanlagður hagnaður bankanna yfir 163 milljarðar

Hagnaður af rekstri Kaupþings banka í fyrra nam röskum 85 milljörðum eftir skatta, sem er 36 milljörðum meira en árið áður. Aldrei hefur íslenskt fyrirtæki hagnast jafnmikið á einu rekstrarári. Samanlagður hagnaður Kaupþings, Glitnis og Landsbankans árið 2006 nemur rúmum 163 milljörðum króna. Allir bankarnir skiluðu metafkomu á síðasta ári.

Úrvalsvísitalan endaði uppi á 7.000 stiga múrnum

Hækkunarferli Úrvalsvísitölunnar síðan á föstudag hélt áfram í Kauphöll Íslands í dag. Úrvalsvísitalan rauf 7.000 stiga múrinn nánast um leið og markaðir opnuðu í morgun og stóð í sléttum 7.000 stigum í lok dagsins. Úrvalsvísitalan hefur hækkað um rúm 9% frá áramótum, sem telst harla gott, að mati greiningardeildar Kaupþings. Í Hálffimm fréttum segir, að ólíklegt sé að sami hækkunarhraði haldi áfram út árið, en það myndi þýða um 200% hækkun á ársgrundvelli. Greiningardeildin gerir ráð fyrir að Úrvalsvísitalan hækki um u.þ.b. 25% á árinu, en standist sú spá er ljóst að stór hluti hækkunarinnar er þegar kominn fram.

365 hf. hækkar hlutafé

Stjórn 365 hf. ákvað á föstudag í síðustu viku að nýta hluta heimildar til hækkunar hlutafjár um rúma 82,1 milljón krónur. Hlutirnir verða afhentir Diskinum ehf. vegna leiðréttingarákvæðis í samningi Dagsbrúnar hf. (nú 365 hf.) við kaup á Senu ehf. í febrúar 2006.

Úrvalsvísitalan rýfur 7.000 stiga múrinn

Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands rauf 7.000 stiga múrinn í dag og stóð hún í 7.031 stigi skömmu fyrir hádegi. Vísistalan fór í methæðir í síðustu viku þegar hún endaði í 6.930 stigum á mánudag fyrir viku, sem er hæsta lokagildi hennar frá upphafi. Eldra met, 6.925 stig, var sett þann 15. febrúar í fyrra.

Stýrivaxtahækkanir á enda?

Seðlabanki Íslands mun á fimmtudag í næstu viku ákveða hvort breytingar verði gerðar á stýrivaxtastigi bankans. Stýrivextir standa nú í 14,25 prósentum. Greiningardeild Glitnis segir yfirgnæfandi líkur á því að bankinn ákveði að halda vöxtunum óbreyttum. Deildin spáir því að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum fram í maí en muni eftir það lækka vextina nokkuð hratt.

Deutsche Telekom segir hagnað undir spám

Þýski fjarskiptarisinn Deutsche Telekom segir hagnað fyrirtækisins geta orðið lægri á yfirstandandi rekstrarári en áður hafi verið áætlað vegna harðnandi samkeppni á þýska símamarkaðnum og óhagstæðs gengismunar.

Tvöfalt meira tap hjá Alitalia

Ítalska flugfélagið Alitalia greindi frá því um helgina að áætlað tap fyrirtæksins í fyrra næmi um 380 milljónum evra, jafnvirði rúmra 34 milljörðum íslenskra króna. Þetta er tvöfalt meira tap en flugfélagið skilaði árið á undan. Tap flugfélagsins fram til nóvember í fyrra nemur 197 milljónum evra, tæpum 17,8 milljörðum íslenskra króna.

Copeinca skráð á markað í kauphöllina í Ósló

Gengi hlutabréfa í perúska lýsis- og mjölframleiðandanum Copeinca hækkaði um tæp 14 prósent í fyrstu viðskiptum dagsins í kauphöllinni í Osló í Noregi í dag. Glitnir Securities, dótturfélag Glitnis í Noregi, stóð að baki skráningunni sem er fyrsta skráning Glitnis í erlenda kauphöll.

Actavis undirbýr næsta yfirtökuslag

Merck hefur lýst því yfir að samheitalyfjahluti þess sé til sölu. Söluverð hefur ekki verið gefið upp en í erlendum fjölmiðlum hefur upphæðin fjórir til fimm milljarðar evra verið nefnd. Það samsvarar 360 til 450 milljörðum króna. Til samanburðar greiddi bandaríski lyfjarisinn Barr um 2,5 milljarða dala fyrir króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva, sem Actavis missti af í yfirtökubaráttu í fyrrahaust. Það nemur um 175 milljörðum króna.

Nýir menn í stjórn

Viðskiptaráð áfrýjunarréttar í Amsterdam í Hollandi hefur skipað þrjá nýja menn í stjórn Stork N.V. fyrirtækjasamstæðunnar í kjölfar deilna stjórnarinnar við stærstu hluthafa. Eftir breytinguna verða átta í stjórn í stað fimm og hafa nýju mennirnir úrslitavald í stefnumarkandi ákvörðunum.

Besti árangur í sögu SP-Fjármögnunar

Hagnaður eignarleigufyrirtækisins SP-Fjármögnunar nam tæpum 803 milljónum króna árið 2006 sem er 67 prósenta aukning frá fyrra ári. Þetta er besti árangur í sögu félagsins.

Sátt um launagreiðslur Wal-Mart

Sátt hefur náðst á milli bandarisku verslanakeðjunnar Wal-Mart og stjórnvalda vestanhafs að verslanakeðjan greiði tæplega 87.000 starfsmönnum fyrirtækisins samstals 33 milljarða bandaríkjadali, jafnvirði 2,3 milljarða íslenskra króna, afturvirk laun fyrir ógreidda yfirvinnu. Þetta var ákveðið eftir að villa fannst í skráningakerfi Wal-Mart. Svo virðist sem fyrirtækið hafi sömuleiðis greitt 215.000 starfsmönnum laun á sama tíma.

Tillaga um 40% arð í LÍ

Bankastjórn Landsbankans leggur til við aðalfund að yfir 28 þúsund hluthöfum bankans verði greiddur 40 prósenta arður fyrir síðasta ár. Þetta samsvarar alls 4,4 milljörðum króna.

Actavis vill kaupa samheitalyfjahluta Merck KGaA

Actavis ætlar að bjóða í samheitalyfjahluta Merck KGaA. Að sögn Róberts Wessmans, forstjóra Actavis, hefur fjármögnun í verkið þegar verið tryggð með aðkomu þriggja leiðandi alþjóðlegra banka.

NYSE útilokar ekki yfirtöku á LSE

Stjórn bandarísku kauphallarinnar í New York (NYSE) er enn opin fyrir möguleikanum á yfirtöku kauphallarinnar í Lundúnum í Bretlandi (LSE) . Þetta sagði John Thain, forstjóri NYSE á ráðstefnu Alþjóða efnahagsstofnunarinnar, World Economic Forum, sem fram fer í Davos í Sviss.

Samdráttur hjá Microsoft

Hagnaður bandaríska tölvurisans Microsoft á öðrum ársfjórðungi rekstrarársins, sem lauk í desember, nam 2,63 milljörðum bandaríkjadala. Þetta jafngildir 184,36 milljörðum íslenskra króna á tímabilinu sem er 28 prósenta samdráttur á milli ára. Helsta ástæðan fyrir samdrættinum eru tafir á útgáfu Windows Vista, nýjasta stýrikerfi Microsoft.

Hagnaður Landsbankans umfram væntingar

Hagnaður Landsbankans nam 40,2 milljörðum króna á síðasta ári. Þar af nam hagnaðurinn á fjórða og síðasta fjórðungi liðins árs 14,1 milljarði króna. Þetta er rúmlega tvöfalt meira en greiningaraðilar gerðu ráð fyrir.

Sjá næstu 50 fréttir