Viðskipti innlent

Afþreyingarkerfi og sæti fyrir 1,8 milljarða

Icelandair hefur samið um kaup á nýju afþreyingarkerfi fyrir farþegaflugvélar við bandaríska framleiðslufyrirtækið Thales og um kaup á nýjum sætum við franska framleiðandann Aviointerios. Heildarvirði samninganna tveggja er sagt um 1,8 milljarðar króna.

Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group og Icelandair, segir um tímamótasamninga að ræða fyrir félagið. „Í þessum samningum er staðfest ákvörðun um algjöra endurnýjun á öllum innviðum Boeing 757 flugvélaflota okkar og einnig skýr yfirlýsing um að Icelandair ætlar að vera flugfélag í fremsta gæðaflokki þegar kemur að þjónustu um borð og upplifun farþega. Þessi kaup hafa verið lengi í undirbúningi og gert ráð fyrir þeim í áætlunum félagsins,“ segir hann.

Skemmtikerfið sem sett verður í vélar Icelandair, Thales IFE i4500, byggir á því að allir farþegar hafi í sæti sínu aðgang skjá og stjórnborði þar sem þeim bjóðast margs konar afþreyingarmöguleikar. Spurning er svo hvort þess verði langt að bíða að flugfarþegar geti brugðið sér á internetið, þar sem Thales gerði í hitteðfyrra samning við norska vafrafyrirtækið Opera um sérsniðna vafra í hluta afþreyingarkerfa fyrirtækisins. Forstjóri og annars stofnandi Opera er íslendingurinn Jón Stephenson von Tetzchner.

Sætin og skemmtikerfin verða sett í allar Boeing 757 farþegaþotur Icelandair sem notaðar eru í áætlunarflugi félagsins. Endurnýjunin hefst í haust og lýkur vorið 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×