Viðskipti innlent

Eimskip eignast Norðurfrakt

Eimskip hefur keypt alla hluti í Norðufrakt ehf. á Siglufirði. Fyrir átti félagið 52 prósenta hlut. Í tilkynningu félagsins kemur fram að seljendur hafi verið Árni Helgason á Ólafsfirði og Ásmundur H. Einarsson á Siglufirði.

Ásmundur stofnaði fyrirtækið fyrir átta árum og hefur stýrt uppbyggingu þess og verið framkvæmdastjóri. „Norðurfrakt sinnti upphaflega einkum þjónustu við Siglufjörð og nágrenni auk tilfallandi verkefna fyrir Eimskip á Norðurlandi. Í lok árs 2005 var flutningarekstur Árna Helgasonar á Ólafsfirði færður inn í Norðurfrakt og samhliða varð Árni Helgason hluthafi í félaginu,“ segir í tilkynningu um kaupin.

Hjá Norðurfrakt vinna 19 starfsmenn og rekur félagið vöru-afgreiðslu á Siglufirði og Ólafsfirði. „Rekstur Norðurfraktar mun á næstu vikum verða samþættur inn í rekstur Eimskips og mun starfsemin heyra beint undir svæðisskrifstofu Eimskips á Akureyri.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×