Fleiri fréttir

Ólöf meðal efstu kvenna í Svíþjóð

Ólöf María Jónsdóttir er í 9.-12. sæti á Opna norræna mótinu í golfi í Barsebäck í Svíþjóð. Hún lék sjö fyrstu holurnar í morgun á einu yfir pari og er samtals á þremur yfir pari. Suzann Petterson Noregi og Gladys Nocera Frakklandi hafa forystu, eru á tveimur undir pari.

Haukar lögðu Fjölni

Haukar sigruðu Fjölni með tveimur mörkum gegn einu í 1. deild karla í fótboltanum í gærkvöldi. Í 2. deild sigraði Afturelding, Njarðvík 2-1 og Selfoss sigraði Leikni 1-0. Þrátt fyrir ósigurinn hefur Leiknir enn tveggja stiga forystu á Stjörnuna sem á leik til góða gegn Tindastóli í dag.

Grönholm með forystu á heimavelli

Finnski ökuþórinn Markus Grönholm á Peugeot hefur forystu í Finnlandsrallinu þegar 14 sérleiðir eru búnar. Grönholm er 21,6 sekúndum á undan Frakkanum Sebastian Loeb og mínútu á undan Eistanum Marrko Martin.

Mayfair með forystu í Colorado

Bandaríkjamaðurinn Billy Mayfair hefur forystu á Internacional-mótinu í golfi í Castle Rock í Colorado. Keppt er eftir Stableford-fyrirkomulaginu en þetta er eina mótið í PGA-röðinni sem það er gert. Billy Maifair er með 15 punkta og annar er Brand Jobe með 13 punkta. Sýnt verður beint frá mótinu á Sýn annað kvöld.

Stjörnuleikurinn í Las Vegas 2007

Stjörnuleikurinn í NBA-körfuboltanum 2007 verður í Las Vegas. Þetta ákvað stjórn deildarinnar í gær. Þetta verður í fyrsta sinn sem stjörnuleikurinn fer fram í borg sem ekki státar af körfuboltaliði. Stjórn NBA-deildarinnar hefur hingað til ekki leyft að stjörnuleikurinn fari fram í borg þar sem heimilt er að veðja á úrslit körfuboltaleikja.

Bayern byrjar titilvörnina vel

Keppni í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hófst í gærkvöldi þegar Þýskalandsmeistarar Bayern München burstuðu Borussia Mönchengladbach 3-0. Leikurinn var háður á hinum nýja og glæislega Allianz-velli sem tekur 66 þúsund áhorfendur.

Ajax meistari meistaranna

Ajax sigraði PSV Eindhoven 2-1 í meistaraleiknum í hollenska fótboltanum. Wilfred Bouma kom PSV yfir í byrjun síðari hálfleiks en Nourdin Boukhari og Ryan Babel skoruðu fyrir Ajax.

Flo hættir með norska landsliðinu

Tore Andre Flo hefur spilað sinn síðasta landsleik fyrir Norðmenn. Flo lék 76 leiki með norska landsliðinu og skoraði 23 mörk.

Saha verður frá næstu vikurnar

Louis Saha, framherji Man. Utd, verður frá næstu vikurnar og gæti farið svo að hann yrði ekki leikfær fyrr en í nóvember.

Pandiani til Birmingham

Birmingham hefur loksins gengið formlega frá kaupum á sóknarmanni Uruguay, Walter Pandiani, sem eyddi stórum hluta síðasta tímabils á láni hjá félaginu og stóð sig mjög vel. Hinn 29 ára gamli Pandiani skrifaði undir þriggja ára samning við Birmingham og er kaupverðið talið vera um þrjár milljónir punda, en Pandiani kemur frá Deportivo á Spáni.

Essien neitar að spila fyrir Lyon

Farsinn í kringum Mickael Essien og deilu hans við lið sitt Lyon heldur áfram og nú hefur hann tilkynnt forráðamönnum félagsins að hann muni ekki spila fyrir liðið á meðan þeir neiti honum um sölu til Chelsea.

Pearce vill fá Malbranque

Forráðamenn Fulham hafa hafnað fimm milljón punda tilboði Man.City í franska miðjumanninn Steed Malbranque. Þetta er í annað sinn á tæpri viku sem Fulham hafnar tilboði frá Stuart Pearce og félögum.

Stjórn HSÍ fundar vegna Viggós

Stjórn Handknattleikssambands Íslands mun funda í dag og um helgina og fara yfir mál Viggós Sigurðssonar landsliðsþjálfara, en honum var fylgt út úr Leifsstöð af lögreglu eftir að hafa lent í útistöðum við flugþjón í vél Flugleiða síðasta sunnudag. Viggó var á leið heim frá Svíþjóð með ungmennalandsliðinu í handknattleik og segir Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, að sambandið líti atburðinn alvarlegum augum.

Móti enn frestað vegna rigningar

Fresta varð keppni í gær á Internacional-mótinu í golfi í Castle Rock í Colorado vegna ausandi rigningar. Enn eina ferðina gripu veðurguðirnir í taumana en þetta er tuttugasta árið í röð sem ekki er hægt að hefja keppni á þessu móti á réttum tíma.

Tap fyrir Slóvenum

Íslenska drengjalandsliðið í körfuknattleik tapaði fyrir Slóvenum með 18 stiga mun, 50-68, í milliriðli Evrópukeppni landsliða 16 ára og yngri en leikið er á Spáni. Hjörtur Hrafn Einarsson var stigahæstur, skoraði 14 stig og tók 7 fráköst. Íslendingar spila um 13.-16. sætið, mæta Belgum á laugardag og þurfa að vinna leikinn til þess að halda sæti sínu í A-deild keppninnar.

Leikið við Norðmenn á NM

Riðlakeppni opna Norðurlandamótsins í knattspyrnu hjá leikmönnum 17 ára og yngri lýkur í dag. Íslendingar mæta Norðmönnum á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði klukkan 14.30. Bæði lið eru án stiga en Írar og Danir leika til úrslita um sigur í riðlinum. Leikurinn verður á Kópavogsvelli. Í hinum riðlinum keppa Englendingar og Svíar á Akranesi og Finnar og Færeyingar í Borgarnesi.

RÚV í ruglinu

Ætlar RÚV aldrei að læra að vera með útsendingar frá knattspyrnuleikjum? Gáfnaljósið skellti sér fyrir framan sjónvarpið og fylgdist með beinum útsendingum Ríkiskassans frá undanúrslitaleikjum VISA-bikarsins. Eftir að hafa fylgst með þessum útsendingum er þá von að maður velti því fyrir sér hvort það sé einhver innan þessarar stofnunar sem hefur snefil af þekkingu á fótbolta?

U17 tapaði fyrir Noregi í dag

U17 landslið Íslands í knattspyrnu karla lenti í neðsta sæti síns riðils á Norðurlandamótinu. Það tapaði 1-0 fyrir Noregi á Kaplakrikavelli í dag. Íslensku strákarnir töpuðu þar með öllum þremur leikjum sínum í riðlinum, skoruðu ekkert mark en fengu sjö á sig.

Figo orðinn leikmaður Inter

Portúgalski miðjumaðurinn Luis Figo hefur skrifað undir tveggja ára samning við ítalska félagið Inter Milan en hann kemur frá spænska risaliðinu Real Madrid. Figo segist eiga nóg eftir í boltanum og hlakkar til að takast á við komandi verkefni hjá Inter.

Tilkynning frá HSÍ vegna Viggó

Stjórn Handknattleikssambands Íslands sendi frá sér tilkynningu vegna máls Viggós Sigurðssonar landsliðsþjálfara. Hér má lesa yfirlýsinguna í heild sinni.

Phil Neville til Everton

Phil Neville er genginn til lið við Everton frá Manchester United fyrir 3 milljónir punda. Phil Neville hefur leikið með United allan sinn ferilen. Phil, sem er 28 ára, hefur leikið 52 landsleiki fyrir Englands hönd og lék 392 leiki fyrir Manchester United

Rangers á eftir Bostjan Cesar

Forsvarsmenn Glasgow Rangers reyna nú að næla í Bostjan Cesar, varnarmann Dinamo Zagreb og slóvenska landsliðsins. Cesar segir forráðamenn skosku meistarana hafa rætt við sig eftir landsleikleik fyrir skömmu.

Margrét Lára með þrennu fyrir Val

Valur vann Keflavík í Landsbankadeild kvenna í gærkvöldi 4-1. Valsstúlkur tylltu sér með sigrinum á topp deildarinnar með 27 stig, jafnmörg og Breiðablik sem reyndar á tvo leiki til góða og getur því endurheimt 6 stiga forskot sitt. Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði þrennu fyrir Val. Þrír leikir eru á dagskrá deildarinnar í kvöld.

Ólöf María á einu undir

Ólöf María Jónsdóttir úr Keili lék vel á fyrsta degi Evrópumótsins á Barsebake-vellinum við Malmö í dag en hún var á einu höggi undir pari á 71 höggi. Annika Sörenstam, sem er gestgjafi mótsins, var tveimur höggum undir pari eftir 15 holur.

Valur - Fylkir í kvöld

Í kvöld mætast Valur og Fylkir í undanúrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu. Þá ræðst það hvort liðið mætir Fram í úrslitum. Valsmenn hafa í tvígang unnið Fylki í Landsbankadeildinni en Fylkismenn eru sýnd veiði en ekki gefin.

Start með fjögurra stiga forystu

Start hefur fjögurra stiga forystu í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir leiki gærkvöldsins en Start og Lyn skildu jöfn, 1-1. Jóhannes Harðarson var í liði Start en var tekinn af velli um miðjan síðari hálfleik vegna meiðsla. Stefán Gíslason lék allan leikinn með Lyn.

Tap fyrir Írum í U17

Íslenska drengjalandsliðið í knattspyrnu skipað leikmönnum 17 ára og yngri tapaði í gær fyrir Írum, 2-0, á Norðurlandamótinu sem fram fer hér á landi. Íslendingar eru neðstir í A-riðli.

Valencia komið áfram

Roda frá Hollandi og Valencia gerðu markalaust jafntefli í Intertoto keppninni í gær en Valencia vann samanlagt 4-0.

Stoke fær Luke Chadwick

Enska knattspyrnuliðið Stoke City hefur fengið lánaðan kantmanninn Luke Chadwick frá úrvalsedildarliði West Ham. Chadwick sem er fyrrverandi leikmaður Man Utd hefur gert 6 mánaða lánssamning við Íslendingafélagið til að byrja með en hann er samningsbundinn West Ham til ársins 2007.

"Borgvardt var munurinn"

Ólafur Kristjánsson þjálfari Fram var í skýjunum með baráttu sinna manna í sigurleiknum gegn FH í gærkvöldi en þá tryggði Fram sér farseðilinn í úrslitaleik VISA bikarsins. Fram var síst lakari aðilinn í fyrri hálfleik þó þeir væru tveimur mörkum undir í hálfleik. "<em>Munurinn á liðunum í fyrri hálfleik var bara Allan Borgvardt</em>." sagði Ólafur.

ÍA að missa lykilmenn?

Skagamenn í Landsbankadeild karla í knattspyrnu standa enn eitt árið frammi fyrir því að missa lykilmenn áður en tímabilinu lýkur en tveir þeirra bestu leikmanna halda senn utan til náms.

Stefán á skotskónum

Stefán Þórðarson var á skotskónum þegar Norrköping sigraði Aseryska í framlengdum leik og vítaspyrnukeppni í sænsku bikarkeppninni í knattspyrnu í gær. Staðan að lokinni framlengingu var 2-2.

Ísland sigraði Pólverja í körfunni

Íslenska drengjalandsliðið í körfuknattleik sigraði Pólverja, 68-66, í milliriðli Evrópukeppninnar á Spáni í gær. Í dag mæta Íslendingar Slóvenum um hvort liðið heldur sæti sínu í A-riðli Evrópukeppninnar.

Meiðsli hjá Fylki en engin hjá Val

Valsmenn eiga ekki í neinum meiðslavandræðum fyrir undanúrslitaleikinn gegn Fylki í VISA bikarkeppninni í kvöld. Willum Þór Þórsson þjálfari Vals segir tíma kominn til að hið fornfræga bikarfélag Valur láti á sér bera í keppninni. Þorlákur Árnason þjálfari Fylkis segir alla þá menn sem hafa verið að spila í undanförnum leikjum séu leikfærir.

Kólombíumenn voru líka sviknir

Það var ekki aðeins íslenska knattspyrnusambandsið sem var svikið í landsleikjamálum nýlega. Í ljós hefur komið að ástæðan fyrir því að Kólombíumenn geta komið og leikið á Íslandi með svo skömmum fyrirvara er sú að þeir urðu fyrir sömu reynslu með Ástrala.

Solskjær með ManUtd í fyrsta leik?

Stuðningsmönnum Manchester United hlýnar nú um hjartarætur því einn vinsælasti leikmaður félagsins, Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær, er við það að snúa aftur eftir meðsli sem hafa haldið honum utan vallar í tæp tvö ár. Ekki var búist við því Solskjær myndi byrja að leika aftur með aðalliðinu fyrr en í október.

Blak: Nýr framkvæmdastjóri ráðinn

Blaksamband Íslands réð í dag nýjan framkvæmdarstjóra, Sævar Má Guðmundsson. Sævar sem hefur verið dómari í blakinu hefur áður leikið með KA og Þrótti. Sævar hóf störf formlega 1. ágúst sl. og tekur við starfinu af Páli Leó Jónssyni. Hann er 26 ára að aldri.

88 ára á 88 höggum

88 ára gamall Íslendingur, Stefán Þorleifsson, náði þeim ótrúlega árangri um síðustu helgi að leika 18 holu golfhring á jafnmörgum höggum og árin hans, eða 88 höggum. Afar fáheyrt er að maður á þessum aldri leiki golf svo vel eins og Stefán sem afrekaði þetta á golfmóti Golfklúbbs Norðfirðinga.

Garðar búinn að skora fyrir Val

Garðar Gunnlaugsson hefur komið Val 1-0 yfir gegn Fylki strax á 3. mínútu í undanúrslitaleik liðanna í VISA bikarnum. Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli og hófst kl. 19:40. Mark Garðars kom eftir sendingu frá Bjarna Ólafi Eiríkssyni af vinstri kanti. Þetta er sjöunda mark Garðars fyrir Val í 4 leikjum í bikarkeppninni.

Wenger: Á ég að fara í spilavítið?

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal segir að Chelsea sé að borga tvöfalt markaðsverð á þeim leikmönnum sem þeir kaupa. Wenger hefur verið undir pressu undanfarna daga frá stuðningsmönnum sem vilja að hann kaupi nýja leikmenn á meðan ríku félögin Real Madrid og Chelsea eru að hrifsa hvern leikmanninn á fætur öðrum sem Wenger ætlaði að kaupa.

Valsmenn leiða í hálfleik

Valur leiðir 1-0 gegn Fylki þegar flautað hefur verið til hálfleiks í undanúrslitaleik liðanna í VISA bikar karla í knattspyrnu. Garðar Gunnlaugsson skoraði markið á 3. mínútu en leikurinn sem fer fram á Laugardalsvelli hófst kl. 19:40. Valsmenn hafa verið ögn sterkari í fyrri hálfleik og verið skynsamari.

Léttir að losna frá Keflavík

Írski Varnarmaðurinn Brian O Callaghan sem lék með Landsbankadeldarliði Keflavíkur segir þunga byrði af sér létt eftir að hann fékk sig loks lausan frá Suðurnesjaliðinu. Callaghan skrifaði á föstudag undir samning við Notts County sem Guðjón Þórðarson stýrir, eftir að Keflavík hafði dregið að leysa hann undan samningi eins og hann hafði farið fram á.

Garðar skorar aftur fyrir Val

Garðar Gunnlaugsson hefur skorað aftur fyrir Val sem er við það að tryggja sig í úrslitaleik VISA bikarkeppni karla og er nú 2-0 yfir gegn Fylkir á Laugardalsvelli. Markið kom á 82. mínútu og hefur Garðar gert bæði mörk Vals. Daninn Christian Christiansen sem kom inn sem varamaður gerði stutt stopp á vellinum og hefur fengið rautt spjald.

Valur í úrslitaleikinn gegn Fram

Valsmenn unnu Fylki, 2-0 og tryggðu sig í úrslitaleikinn gegn Fram í VISA bikarkeppni karla í knattspyrnu í kvöld. Garðar Gunnlaugsson skoraði bæði mörk Valsmanna í leiknum á Laugardalsvelli, það fyrra strax á 3. mínútu en seinna markið á 80. mínútu. Garðar hefur þar með skorað  8 mörk í fjórum leikjum fyrir Val í bikarkeppninni.

Sjá næstu 50 fréttir