Sport

RÚV í ruglinu

Ætlar RÚV aldrei að læra að vera með útsendingar frá knattspyrnuleikjum? Gáfnaljósið skellti sér fyrir framan sjónvarpið og fylgdist með beinum útsendingum Ríkiskassans frá undanúrslitaleikjum VISA-bikarsins. Eftir að hafa fylgst með þessum útsendingum er þá von að maður velti því fyrir sér hvort það sé einhver innan þessarar stofnunar sem hefur snefil af þekkingu á fótbolta? Maður er búinn að fá gjörsamlega nóg. Þeir hjá RÚV verða að skilja að tilfinningarnar skipa rosalega stóran sess í fótbolta, ef þær hverfa þá geta menn farið að pakka saman og haldið heim. Í beinum sjónvarpsútsendingum frá íþróttaviðburðum skiptir miklu máli að reyna að koma þessum tilfinningum beinustu leið heim í sófa. Svo virðist sem þeir hjá RÚV skilji þetta ekki. Þarna voru þeir með sannkallað eðalsjónvarpsefni í höndunum. Í bikarleikjum er ekkert gefið eftir, ekkert jafntefli... bæði lið leika til sigurs. Ég tek leik Fram og FH sem dæmi, einn skemmtilegasti leikur sumarsins. FH-ingum hefur gengið allt í haginn og náðu góðri forystu en Framarar, sem ollið hafa vonbrigðum eins og oft áður, náðu með magnaðri endurkomu að fá leikinn framlengdan. Úrslitin í þessum dramatíska leik réðust svo í vítaspyrnukeppni þar sem FH-ingar biðu ósigur og féllu óvænt úr keppni. Leikur sem hafði nánast allt. Það fer í taugar Gáfnaljóssins hvernig RÚV stóð að útsendingu frá þessum leik, hún hófst örfáum sekúndum fyrir leikinn svo ekkert var verið að eyða púðri í að hita áhorfendur aðeins upp. Svo um leið og síðasta vítaspyrnan var framkvæmd var skipt yfir í fréttir. Hvað er í gangi? Hvað um að gefa sér örfáar mínútur til að færa sjónvarpsáhorfendum tilfinningarnar eftir leik beint heim í stofu? Er það erfitt? Fyrst verið er að sýna leikinn á annað borð verður þetta að fá að fylgja, þetta hefur svo mikið að segja og gerir svona útsendingar miklu skemmtilegri. Svo hefði nú verið hægt að fá hlutlausari þul, Hrafnkell Kristjánsson er harður stuðningsmaður FH og er bróðir þjálfara Fram! Gáfnaljósið skilur ekki þessi vinnubrögð og biðlar því til RÚV að í sjálfum úrslitaleiknum verði bikarafhendingin allavega sýnd. Sjónvarpsáhorfendur eiga það skilið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×