Sport

ÍA að missa lykilmenn?

Skagamenn í Landsbankadeild karla í knattspyrnu standa enn eitt árið frammi fyrir því að missa lykilmenn áður en tímabilinu lýkur en tveir þeirra bestu leikmanna halda senn utan til náms. Markvörðurinn Bjarki Guðmundsson sem hefur farið á kostum milli stanganna hjá ÍA í sumar mun að öllum líkindum missa af fjórum síðustu leikjum liðsins og markahrókurinn Hjörtur Hjartarson heldur samkvæmt áætlun utan þegar 3 leikir eru eftir af mótinu. Þetta kemur fram á heimasíðu Skagamanna, skagamenn.com í dag en þar segir ennfremur að ekki hafi þó verið ákveðið enn hvort þeir muni ferðast sérstaklega heim til að leika þessa leiki. Það muni væntanlega ráðast af því hver staða liðsins verði í deildinni þegar að því kemur. Umræddir leikir eru útileikir gegn Keflavík 21. ágúst og ÍBV 11. september auk tveggja heimaleikja, annars vegar gegn FH 28. ágúst og hins vegar gegn KR í lokaumferðinni 17. september. Næstu þrír leikir eru gegn Fylkir, Val og Fram en samtals á ÍA eftir að leika 7 leiki í sumar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×