Fleiri fréttir

Aldrei hefði átt að ákæra Geir

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að málaferlin gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, hafi tekið allt of langan tíma. Hún hefði viljað að aldrei hefði komið til þess að Geir yrði ákærður.

Vilja ekki samþykkja fiskveiðifrumvarpið

Stjórnarandstaðan leggst gegn því, að minna fiskveiðifrumvarp sjávarútvegsráðherra verði afgreitt á yfirstandandi þingi og segir enga sem komið hafa á fundi sjávarútvegsnefndar hafa mælt með því að frumvarpið verði að lögum.

Stuðningsmenn Geirs borga salinn í Hörpu - fá engan afslátt

Pétur J. Eiríksson, einn þriggja ábyrgðarmanna fjársöfnunar fyrir málsvörn Geirs H. Haarde, er stjórnarformaður Portusar sem rekur tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu. Fundur Geirs með stuðningsmönnum hans síðar í dag verður haldinn í Hörpu, nánar tiltekið í Norðurljósasalnum. "Vegna veru minnar hér munum við ekki óska eftir neinum afslætti," segir Pétur og því verði greitt listaverð, ríflega 270 þúsund krónur, fyrir salinn. Pétur segir ennfremur að það séu stuðningsmenn Geirs sem borgi leiguna. "Við vorum búin að panta á Hótel Loftleiðum," segir Pétur. Þar stóð til að Geir hitti stuðningsmenn sína etir að ákæra á hendur honum verður þingfest fyrir landsdómi síðdegis. Pétur segir að þar hafi verið búið að panta 110 manna sal. Fjársöfnun fyrir Geir fer fram á síðunni Malsvorn.is , en megintilgangurinn "er að safna fé til að standa straum af kostnaði við málsvörnina og tryggja að hann standi sem næst jafnfætis ríkisvaldinu í málsvörn sinni," eins og það er orðað á síðunni. Síðan var stofnuð um helgina og í gær, mánudag, tók undirskriftasöfnunin stóran kipp og um miðjan dag höfðu yfir þúsund manns skráð sig sem stuðningsmenn Geirs. Pétur segir að í gær hafi forsvarsmenn stuðningsmannahópsins því metið stöðuna þannig að salurinn á Hótel Loftleiðum væru of lítill. "Ég fékk Önnu Kristínu Traustadóttur til að annast pöntunina hér," segir Pétur, og á þar við salinn í Hörpu. Norðurljósasalurinn rúmar 400 manns. Þegar þessar línur eru skrifaðar hafa tæplega 3000 manns skráð sig á stuðningsmannasíðu Geirs.

Þjóðin greiði atkvæði um ESB 1. desember

Vigdís Haukdsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hyggst leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Þetta er þriðja sinn sem hún leggur slíka tillögu fram.

Ísland verði stórveldi innan ESB í sjávarútvegsmálum

Baldur Þórhallsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, segir Ísland geta orðið stórveldi á sviði sjávarútvegsmála innan Evrópusambandsins. Hann kallaði eftir afstöðu formanns Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum við upphaf þingfundar í dag. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins gaf lítið fyrir yfirlýsingar Baldurs og sagði lagasetningu Evrópusambandsins stórhættulega.

MS hættir að forverðmerkja osta

Mjólkursamsalan hefur frá 1. júní hætt forverðmerkingu osta og byrjar í dag að dreifa þeim óforverðmerktum til verslana. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að þetta sé í samræmi við nýjar reglur Neytendastofu og tilmæli Samkeppniseftirlitsins um að vörur sem áður voru forverðmerktar á markaðnum skulu nú verða óforverðmerktar. MS á ennþá til birgðir af ostum sem eru forverðmerktar og munu þær klárast í júnímánuði.

Ákæran á hendur Geir þingfest eftir hádegi

Ákæra Sigríðar Friðjónsdóttur, saksóknara Alþingis, á hendur Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, verður þingfest í landsdómi eftir hádegi í dag. Á blaðamannafundi í gær gagnrýndi Geir málsmeðferðina harðlega og boðaði frávísunarkröfu vegna galla á henni. Ítrekað hefði verið brotið á sér.

Þétt dagskrá á Alþingi

Á fjórða tug mála eru á dagskrá Alþings í dag. Greidd verða atkvæði um fjölmörg mál, þar á meðal breytingar á barnaverndarlögum, lögum um almannatryggingar og almenningsbókasöfn. Auk þess munu þingmenn ræða um mál á borð við losun gróðurhúsalofttegunda, ráðstafanir í ríkisfjármálum, rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, skeldýrarækt, framkvæmdasjóð ferðamannastaða og austurrísku leiðin svokölluðu. Þingfundur hefst klukkan 10:30 þegar þingmenn ræða störf þingsins.

Börn neita að taka Rítalín vegna umræðunnar

Foreldrar ungmenna með ADHD segja þau nú neita að taka lyfin vegna umræðunnar sem hefur átt sér stað í kringum misnotkun á metýlfenídat lyfjum og skyldum lyfjum s.s. Rítalíni og þann ömurlega veruleika sem á sér stað í undirheimum Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu sem stjórn ADHD samtakanna sendi frá sér en fjöldi félaga eru ósáttir við það hvernig Rítalíni og skyldum lyfjum hefur nánast eingöngu verið lýst sem dópi í fjölmiðlum.

Sjúklingum með skorpulifur fjölgar verulega

Mikil fjölgun sjúklinga með skorpulifur hér á landi hefur leitt til þess að Íslendingar eru ekki lengur með lægstu tíðni þessa sjúkdóms á Vesturlöndum, eins og verið hefur áratugum saman.

Borgin vill starfsfólk Hörpunnar í strætó

"Mér finnst dálítið mikið að ætlast til þess að Harpa ein standi fyrir því að kollvarpa ferðavenjum Reykvíkinga,“ segir Stefán Hermannsson, framkvæmdastjóri Austurhafnar sem á og rekur tónlistarhúsið Hörpu.

Björgunarsveit aðstoðaði þrjá ferðamenn

Björgunarsveit var kölluð út seint í gærkvöldi til að aðstoða þrjá erlenda ferðamenn, sem sátu fastir í snjóskafli í jepplingi sínum á Dómadalsleið, skammt frá Landmannalaugum.

Aflífa þurfti reiðhest eftir umferðaróhapp

Aflífa þurfti stórslasaðan reiðhest en annar slapp lítið meiddur eftir að kerra með hestunum losnaði aftan úr bíl á Suðurlandsvegi á milli Selfoss og Hveragerðis í nótt.

Skipt um efstu stjórnarmenn

Aðalsteinn Leifsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, hefur tekið við sem formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins (FME) og Ingibjörg Þorsteinsdóttir, dósent við lagadeild Háskólans á Bifröst, tekið við sem varaformaður.

Útvegaði burðardýr til fíkniefnasmygls

Brynjar Mettinisson, sem situr í gæsluvarðhaldi í Bangkok í Taílandi, útvegaði arabískum manni sem hann hafði verið í samskiptum við á netinu burðardýr sem flytja átti einn lítra af metamfetamíni í vökvaformi til Japans.

Ferðum um göngin fækkar um 11%

Umferð um Hvalfjarðargöng í maí síðastliðnum dróst saman um ellefu prósent miðað við sama mánuð í fyrra.

Stóra kvótamálið í nefnd fram á haust

Samkomulag náðist um það um miðjan dag í gær að stóra kvótafrumvarpið færi til meðferðar sjávarútvegsnefndar. Mælendaskráin tæmdist, en fjölmargir þingmenn, aðallega stjórnarandstöðunnar, höfðu verið á henni og ljóst var að löng umræða var fram undan. Af henni varð ekki og málið fór til nefndar.

Útspil Icelandair rætt í gærkvöldi

Hreyfing í samkomulagsátt var komin í viðræður Flugvirkjafélags Íslands og Icelandair um nýjan kjarasamning í gærkvöldi. Tilboð frá Icelandair var lagt fram í gær.

Jói Fel innkallar súkkulaði

Hjá Jói Fel hefur í samráði við matvælaeftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur ákveðið að innkalla belgískt súkkulaði merkt Jóa Fel.

Blaðamannafundurinn í heild sinni

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, boðaði til blaðamannfundar í dag í tilefni af því að á morgun verður mál Alþingis gegn honum þingfest fyrir Landsdómi.

Atli Gíslason: Virði skoðanir Geirs en er ósammála honum

Atli Gíslason, þingmaður utan þingflokks á Alþingi, segist virða skoðanir Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra en sé ósammála honum. Þingfesting í máli Alþingis gegn honum fer fram á morgun fyrir Landsdómi.

Tilnefningar til Grímunnar - Lér konungur með 10 tilnefningar

Tilnefningar til Grímuverðlauna 2011 í alls 16 flokkum sviðslista voru kunngjörðar í Borgarleikhúsinu í dag að viðstöddum fjölda sviðslistafólks, en alls komu 80 leiklistarverkefni til álita til Grímunnar í ár. Við verkin störfuðu yfir eitt þúsund listamenn, tæknifólk og starfsfólk leikhúsanna.

Boðar nýja stóriðjusamninga á komandi mánuðum

Iðnaðarráðherra sagði á Alþingi í dag alveg ljóst að samningar um stóriðju í Þingeyjarsýslum yrðu gerðir á komandi mánuðum. Þingmaður Sjálfstæðisflokks segir þetta enn eitt loforðið sem ríkisstjórnin geti ekki staðið við.

Hugsanlegt að tíu þúsund króna seðill verði framleiddur

Það kostar þrjár krónur að búa til eina krónumynt, en krónan hefur rýrnað mikið síðustu áratugi. Seðlabankastjóri segir að skoða þurfi hvort mynteiningar séu orðnar of litlar, og segir hugsanlegt að tíu þúsund króna seðill verði framleiddur.

Allir sem greinst hafa með HIV notuðu rítalín frá læknum

Allir þeir sprautufíklar sem greinst hafa HIV jákvæðir á þessu ári sprautuðu sig með rítalíni í æð sem ávísað var af læknum. Yfirlæknir smitsjúkdóma segir að hemja verði dreifingu rítalíns frá læknum í samfélagið strax.

Khat-málið: Íri áfram í gæsluvarðhaldi

Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag að írskur ríkisborgari skuli sæta áfram gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að innflutningi á tæpum sextíu kílóum af fíkniefinu Khat hingað til lands.

Eldur kom upp í raðhúsi við Miklubraut

Eldur kom upp í raðhúsi á gatnamótum Miklubrautar og Stakkahlíðar um klukkan hálf sex í dag. Mikinn reyk lagði frá húsinu en samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var eldur laus í íbúð og tókst að slökkva hann fljótt og örugglega. Eldsupptök eru ókunn. Allar stöðvar voru sendar á vettvang en eldurinn virðist hafa verið minni en talið var í upphafi.

Geir fékk send blóm frá stuðningsmönnum

Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fékk send blóm á tröppurnar heima hjá sér í gær. Þetta sagði hann á blaðamannafundi sem hann hélt á Grand hótel í dag vegna ákærunnar gegn sér, sem þingfest verður fyrir Landsdómi á morgun.

Vörnin hefur þegar kostað Geir 9 milljónir

Kostnaðurinn strax kominn í níu milljónir, sagði Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, á blaðamannafundi í dag. Stuðningsmannafélag hefur verið stofnað fyrir Geir til þess að standa straum af kostnaði við málið. Geir og Andri Árnason verjandi hans eru með fjölda manna á sínum snærum til að vinna að vörnum við málið.

Tilmæli um bönd í blöðrum

Neytendastofa beinir þeim tilmælum til söluaðila og foreldra að huga að böndum á blöðrum nú þegar styttist í 17. júní. Fram kemur í tilkynningu að börn geti viljandi eða óviljandi vafið slíkum böndum um háls sér með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Lengri bönd geti auk þess skapað hættu á kyrkingu.

100 reiðhjól verða boðin upp

Um 100 reiðhjól verða boðin upp hjá óskilamunadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu næstkomandi laugardag, 11. júní, klukkan 11. Um er að ræða reiðhjól sem hafa fundist í óskilum víða í umdæminu og enginn hefur hirt um að sækja.

Geir segist eiga við ofurefli að etja

"Ég vísa öllum ákæruatriðum á bug. Þau eru fráleit, sérstaklega í ljósi þess að ákvarðanir minnar ríkisstjórnar í aðdraganda bankahrunsins reyndust réttar. Ákæruskjalið er þannig samið að nausynlegt er að láta á það reyna hvort það standist réttarfarslegar reglur," segir Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, á blaðamannafundi, sem nú fer fram. Hann segist ætla að krefjast frávísunar í málinu við fyrsta tækifæri og að um pólitíska atlögu sé að ræða.

Slasaðist á torfæruhjóli

Maður slasaðist á torfæruhjóli er hann var að æfa sig á æfingasvæði við Hrísmýri á Selfossi um miðjan dag í gær. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysasdeild Landspítala. Talið var að hann hafi rifbeinsbrotnað og ef til vill hlotið innvortis blæðingar. Samkvæmt upplýsingum frá slysadeild Landspítalans er maðurinn kominn aftur heim.

Háskólinn á Akureyri aldrei vinsælli

Umsóknir um skólavist við Háskólann á Akureyri hafa aldrei verið fleiri en umsóknarfrestur rann út í gær. Alls sóttu 1030 manns um skólavist og er þetta í fyrsta sinn sem umsóknir eru fleiri en þúsund. Flestir vilja komast að í hjúkrunarfræði, viðskiptafræði og sálfræði.

Sérfræðiaðstoð fyrir 555 milljónir

Íbúðalánasjóður keypti sérfræðiaðstoð af einstaklingum og lögaðilum fyrir um 555 milljónir á tímabilinu 2001-2008. Árið 2008 var kostnaðurinn rúmar 100 milljónir. Þetta er meðal þess fram kemur í svari Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra, við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Þremur bifreiðum stolið í Þorlákshöfn

Sá fátíði atburður átti sér stað um helgina að þremur bifreiðum var stolið í því sem virðist vera þrjú óskyld atvik, og það allt á Þorlákshöfn.

Ferðamenn geta skráð sig í gagnagrunn utanríksráðuneytisins

Íslenskir ríkisborgarar sem ferðast til útlanda eða dvelja erlendis í lengri eða skemmri tíma geta nú skráð upplýsingar þar að lútandi á heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Fyrirkomulag þetta er sérstaklega hugsað fyrir þá sem fara til fjarlægari heimshluta eða svæða þar sem af einhverjum ástæðum má ætla að sé viðsjárvert ástand. Upplýsingarnar eru færðar í þar til gerðan gagnagrunn og geymdar á meðan á dvölinni stendur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Ráðuneytið hefur á undanförnum árum ítrekað þurft að virkja neyðaráætlun sína vegna hamfara eða annars hættuástands erlendis. Stór þáttur í því starfi sem þá hefst er að hafa samband við alla íslenska ríkisborgara sem kunna að vera staddir á viðkomandi svæði. Gagnagrunninum er ætlað að auðvelda ráðuneytinu að ná sambandi við þá einstaklinga sem hafa skráð sig, auk þess sem við slíkar aðstæður er hægt að kalla eftir því að Íslendingar sem eru á hættusvæði og hafa ekki þegar skráð sig í grunninn, fari á netið og skrái sig. Er litið svo á að þetta kunni að reynast mikilvægt þar sem við slíkar aðstæður eru gjarnan vandamál með símasamband, en netið virkar. Gagnagrunnurinn telst eign utanríkisráðuneytisins og verða upplýsingar úr grunninum ekki veittar til þriðja aðila nema öryggi þeirra sem skráðir eru í gagnagrunninn krefjist þess. Upplýsingar í grunninum verða aðeins notaðar í öryggisskyni og til að utanríkisráðuneytið eða íslenskt sendiráð geti náð sambandi við viðkomandi. Þeim sem hyggja á ferðalög til viðsjárverðra svæða er sérstaklega bent á að skrá sig en öllum sem vilja láta vita af sér er það velkomið.

Tuttugu gróðurhúsalömpum stolið

Tuttugu gróðurhúsalömpum var stolið úr gróðurhúsi Flúðajöfra á Flúðum aðfaranótt sunnudags. Þar sást til Nissan Terrano jeppabifreiðar.

Þriðja leið Hreyfingarinnar rædd á Alþingi

Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar mælir í dag fyrir Þriðju leiðinni, frumvarpi flokksins um stjórn fiskveiða. Eftir það mun málið ganga til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Í tilkynningu frá Hreyfingunni segir að nefndin ætli að standa fyrir kynningu á þeim sjávarútvegsmálum sem hún fær til meðferðar og í framhaldi af því ætla þingmenn Hreyfingarinnar að leggja fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórn fiskveiða „þar sem valið standi á milli óbreytts ástands, leiðar ríkisstjórnarinnar eða leiðar Hreyfingarinnar."

Um 1200 styðja Geir

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, og Einar Karl Haraldsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar, eru meðal þeirra sem styðja Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, vegna ákæru á hendur honum fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð. Fjöldi fólks hefur skráð sig á vefsíðu sem opnuð hefur verið til stuðnings Geir en hátt í 1200 höfðu skráð nafn sitt á síðuna um klukkan tvö í dag.

Sjá næstu 50 fréttir