Fleiri fréttir

Opið í Hlíðarfjalli og á Siglufirði í dag

Opið er í Hlíðarfjalli til klukkan 17 og þar er færið harðpakkaður snjór, eins og staðarhaldari segir, en Telemarkmót fer fram í fjallinu um helgina. Þá er skíða- og snjóbrettafæri sagt gott.

Enn fundað á alþingi

Þingfundur stendur enn yfir á Alþingi og hefur Mörður Árnason verið í ræðustól undanfarin einn og hálfan klukkutíma. Nú standa yfir umræður vegna frumvarps um losun gróðurhúsalofttegunda. Enn er talsverður fjöldi frumvarpa eftir á dagskrá þingsins og búist er við því að þingfundur standi eitthvað fram yfir miðnætti.

HR ræður tvo nýja deildarforseta

Háskólinn í Reykjavík hefur ráðið tvo nýja deildarforseta til skólans, og munu þeir stýra annars vegar tölvunarfræðideild og hins vegar tækni- og verkfræðideild. Þeir eru dr. Ari Kristinn Jónsson, doktor frá Stanford og stjórnandi hjá bandarísku geimferðastofnuninni (NASA) og dr. Gunnar Guðni Tómasson, doktor frá MIT og aðstoðarframkvæmdastjóri VST.

Bílvelta í Svínahrauni

Bílvelta varð í Svínahrauni í kvöld í námunda við Litlu Kaffistofuna. Einn var fluttur á sjúkrahús en hann var ekki talinn alvarlega slasaður. Þá keyrði bíll útaf í námunda við Þorlákshöfn í kvöld en engin slys urðu á fólki. Þó þurfti að flytja bílinn á brott með kranabíl.

Kenna stjórnarandstöðunni um

Formenn stjórnarflokkanna kenna stjórnarandstöðunni um að draga þurfti auðlindafrumvarpið til baka. Forsætisráðherra segir einu sneypuförina vera för formanns Samfylkingarinnar. Stjórnarandstaðan brást ókvæða við ummælum formannananna.

Byggðastofnun vantar fjármuni

Byggðastofnun vantar meiri peninga til að geta sinnt hlutverki sínu, segir stjórnarformaður hennar. Opinber þjónusta vegur þungt þegar hagvöxtur landshluta er skoðaður.

Siglingastofnun talar við skipstjórann á Kársnesi

Nefnd á vegum Siglingastofnunar hitti í dag skipstjórann á Kársnesi sem fékk á sig brotsjó við Reykjanes í fyrrakvöld með þeim afleiðingum að fimm gámar sópuðust fyrir borð. Nefndin metur meðal annars hvort færa eigi siglingaleiðina fyrir Reykjanes utar og fjær landi.

Hæstiréttur staðfesti frávísun

Hæstiréttur staðfesti frávísun Héraðsdóms Reykavíkur í máli olíuforstjóranna þriggja í dag. Saksóknari segir niðurstöðu dómsins vera áfellisdóm yfir samkeppnislögunum og að ekki verði endurákært í málinu.

Allar tennur ónýtar í barni

Ný rannsókn sýnir að tannheilsu barna hefur hrakað á síðustu tíu árum og eru tannskemmdir nú tvöfalt fleiri í íslenskum börnum en sænskum. Börn lágtekjufólks eru með tvöfalt fleiri skemmdir en börn hátekjufólks. Tannlæknir þurfti í morgun að byrja á að draga allar átján tennurnar úr tæplega sex ára gömlu barni.

Óttast að olía bærist í vatnsból

Óttast var að olía bærist í vatnsból Reykvíkinga þegar flutningabíll valt nærri vatnsbólum höfuðborgarinnar í dag. Um 400 lítrar af hrá- og smurolíu láku úr bílnum.

Ísland næði pólitískri fótfestu á ný með Evrópusambandsaðild

Aðild að Evrópusambandinu getur tryggt Íslandi á ný þá pólitísku fótfestu sem það hafði áður í NATO- og Norðurlandasamstarfi. Þetta segir Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sem telur að sérstakan rökstuðning þurfi fyrir því að stíga ekki skrefið að Evrópusambandsaðild til fulls. Hann segir fátt benda til þess að krónan geti verið undirstaða varanlegs stöðugleika.

Vildi ekki gefa upp hver ónefndur maður væri

Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, neitaði fyrir rétti í dag að gefa upp hver ónefndur maður væri sem minnst var á í tölvupósti sem hann sendi Jónínu Benediktsdóttur. Leiddar hafa verið að því líkur að þar hafi verið átt við Davíð Oddsson fyrrverandi forsætisráðherra. Kjartan Gunnarsson mætti ekki eins og gert hafði verið ráð fyrir.

Loðnukvótinn aukinn um 15 þúsund tonn

Sjávarútvegsráðuneytið hefur í dag, að tillögu Hafrannsóknastofnunar, ákveðið að auka loðnukvótann á vetrarvertíðinni 2007 um 15 þúsund lestir eða í 385 þúsund lestir. Þessi viðbót er tilkomin vegna vestangöngu sem Hafrannsóknastofnunin mældi í byrjun þessa mánaðar og mun stofnunin á næstu dögum ljúka loðnurannsóknum á þessari vertíð.

Nýtt skipurit RÚV afhjúpað

Samkvæmt nýju skipuriti Ríkisútvarpsins sem birt var í dag verða stöður framkvæmdastjóra sjónvarps og útvarps lagðar niður um næstu mánaðarmót þegar skipuritið tekur gildi. Helst ber að nefna að staða forstöðumanns fréttasviðs, sem Bogi Ágústsson hefur gegnt hingað til, verður lögð niður. Óðinn Jónsson og Elín Hirst verða áfram yfir fréttum Útvarps og Sjónvarps.

Heilbrigðisráðherra víkkar út áfallahjálp

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur falið Landlækni að tryggja að sú geðheilbrigðisþjónusta sem boðin hefur verið fyrrverandi vistmönnum Breiðavíkurheimilisins standi einnig til boða þeim sem dvalið hafa langdvölum á öðrum stofnunum sem reknar hafa verið af framlögum ríkis eða sveitarfélaga og sem þolað hafa ofbeldi af hálfu starfsmanna og/eða annarra vistmanna. Um einstaklingsbundna aðstoð er að ræða og ræðst umfang hennar af þörfum hvers og eins, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. Óskað verður eftir samstarfi við samtökin Stígamót sem hafa mikla reynslu á þessu sviði og sérstaklega verður hugað að vanda heyrnarlausra. Geðsvið Landsspítala-háskólasjúkrahúss mun annast móttöku og meta þörf þeirra sem telja sig þurfa á þessari aðstoð að halda.

tónlist.is sama og tonlist.is

Neytendastofa hefur bannað Vagnsson MultiMedia að nota lénið tónlist.is. Fram til ársins 2004 var ekki unnt að skrá lén með séríslenskum stöfum. Eftir 1. janúar 2005 var öllum frjáls skráning slíkra léna. Haukur Vagnsson skráði þá lénið tónlist.is. Niðurstaða ákvörðunar Neytendastofu er að það sé í raun sama nafn og tonlist.is.

Kjartan mætti ekki

Kjartan Gunnarsson, sem var framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, mætti ekki til yfirheyrslu í Baugsmálinu í dag. Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, var spurður út í tölvupóst til Jóns Steinars Gunnlaugssonar þar hann talar um tryggð við ónefndan mann, sem getgátur hafa verið um að sé Davíð Oddsson. Styrmir vildi ekki gefa upp hvaða mann hann hefði verið að tala um.

Innbrotsþjófar í Reykjavík

Innbrotsþjófar voru handteknir af lögreglu í Reykjavík í gær. Verkfæri sem líklegt þykir að hafi verið stolið úr félagsheimili á höfuðborgarsvæðinu á sama sólarhring fundust á heimili þjófanna. Tölvubúnaði var einnig stolið í innbroti í kjallaraíbúð í austurborginni og nokkrir hlutir teknir út bifreið. Öll málin eru til rannsóknar hjá lögreglu.

Fjórir teknir með fíkniefni

Karlmaður um tvítugt var handtekinn síðdegis í gær í austurborginni með nokkurt magn af ætluðu maríjúana. Sami maður var handtekinn á miðvikudaginn á öðrum stað í borginni, einnig með fíkniefni. Tveir aðrir karlmenn voru færðir á lögreglustöð síðdegis í gær grunaðir um fíkniefnamisferli. Þá var karlmaður á fimmtusaldri handtekinn í miðborginni, en á honum fundust ætluð fíkniefni.

Hæstiréttur refsar olíuforstjórum ekki fyrir samráðið

Hæstiréttur hefur staðfest frávísun héraðsdóms í máli ákæruvaldsins gegn forstjórum stóru olíufélaganna, Kristni Björnssyni, Geir Magnússyni og Einari Bendiktssyni. Forstjórarnir voru ákærðir í 27 liðum fyrir samráð og markaðsskiptingu. Héraðsdómur vísaði málinu frá einkum vegna þess, að ekki væri unnt að refsa einstaklingum fyrir brot á samkeppnislögum.

Kólastríð á Íslandi?

Mikið markaðsstríð geysar nú á milli Pepsi og Coke eftir að Vífilfell gaf út nýja drykkinn sinn Coke Zero. Að sögn Hauks Sigurðssonar markaðsstjóra Vífilfell er mun meira kók-bragð af þessum nýja sykurlausa drykk en öðrum sykurlausum Coke drykkjum. En kannanir sýna að það bragð virðist höfða betur til stráka en stelpna. Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar segir að þessi herferð kom þeim ekki á óvart þar sem sambærilegar aðgerðir hafi verið gerðar í nágrannalöndum okkar. Annars segjast þeir fagna allri samkeppni í sykurlausa kóla markaðnum.

Falsanir tölvupósta í brennidepli

Matsmenn sem verjendur í Baugsmálinu fengu til að sýna fram á hversu auðvelt er að falsa tölvupósta, voru yfirheyrðir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Snorri Agnarsson og Stefán Hrafnkelsson voru fengnir til að fara yfir póstana sem einhverjir fundust einungis í tölvu Jóns Geralds Sullenbergers.

Utanríkisráðuneyti styrkir ABC-barnahjálp

Utanríkisráðuneytiðn styrkir ABC-hjálparstarf um 12 milljónir króna í dag. Valgerður Sverrisdóttir tilkynnyti um styrkinn í Melaskóla en þar afhentu nemendur starfsmönnum söfnunarbauka sína. Um 3000 nemendur í um 150 bekkjum af landinu öllu tóku þátt í söfnuninni, Börn hjálpa börnum 2007 og söfnuðu með því fyrir skólum og heimavistum fyrir börn í Pakistan og Kenýa.

Visir.is mest sótti vefurinn

Samkvæmt niðurstöðum vefmælinga Modernus sækir vefmiðillinn visir.is stöðugt á og mældist í vikunni mest sótti vefur landsins. Þann 14. mars höfðu 365.463 heimsótt visir.is frá mánaðarmótum. Visir.is var því í fyrsta sæti í vefmælingu Modernus, með meiri fjölda heimsókna en nokkur annar vefmiðill á þeim tíma.

Keyrði yfir fót konu

Kona á þrítugsaldri varð fyrir því óhappi í gær að bíll keyrði yfir fót hennar þar sem hún var að hlúa að smábarni í bíl. Konan hafði stöðvað bíl sinn nánast á miðri götu í íbúðarhverfi til að sinna barni í aftursætinu. Hún var við hægri afturhurð bifreiðarinnar þegar ökumaður kom aðvífandi og gætti ekki að sér með fyrrgreindum afleiðingum. Konan slapp ótrúlega vel en leitaði sér læknisaðstoðar.

Reykjavík tilnefnd sem markaðsskrifstofa Evrópu

Höfuðborgarstofa, Visit Reykjavik, hefur verið tilnefnd til verðlauna um Evrópsku Markaðsskrifstofu ársins. Verðlaunin eru veitt af markaðsskrifstofu evrópskra borga. Auk höfuðborgarstofu eru markaðsskrifstofur Kaupmannahafnar, Gautaborgar, Liverpool og Valencia tilnefndar.

Mörghundruð lítrar af olíu láku í Heiðmörk

Um fjögurhundruð lítrar af olíu láku úr flutningabíl með tengivagni sem fór út af veginum í Heiðmörk fyrir hádegi í dag. Engin slys urðu á mönnum, en vegna olíulekans sem varð við Vatnsendasvæðið, var kallað út slökkvilið, fólk frá umhverfisráði borgarinnar, og Orkuveitunni.

Lyfseðlafalsanir algengar

Landlæknir segir líta mjög alvarlegum augum á að læknar skrifi upp á lyf fyrir fíkniefnaneytendur. Hins vegar sé mjög algengt að lyfseðlar séu falsaðir. Hátt í fimmtíu tilkynningar um lyfseðlafalsanir berast til Lyfjastofnunar á ári hverju.

Nýjasta tækni í Vestmannaeynni VE

Engir togvírar verða notaðir á nýjasta togara Vestmannaeyinga, og karlarnir þurfa ekki einu sinni að gera að aflanum lengur. Þetta undra fley er nýja Vestmannaeyin VE, sem útgerðarfélagið Bergur Huginn lét smíða fyrir sig í Póllandi og er komið til heimahafnar í Eyjum. Nýjungin er sú að í stað togvíra verða notuð svonefnd ofurtog, sem skyldari eru köðlum en vírum. .

Fagna uppbyggingu háskólasamfélags á Keflavíkurflugvelli

Stjórn Stúdentaráðs Háskóla Íslands fagnar áætlunum um uppbyggingu alþjóðlegs háskólasamfélags á Keflavíkurflugvelli. Í yfirlýsingu frá ráðinu segir að þáttur Háskóla Íslands í samningnum um uppbygginguna sé gríðarmikilvægur. Til standi að kenna þær greinar sem HÍ standi framarlega í auk þess að stunda rannsóknir á þeim sviðum.

Skyrútflutningur til Bandaríkjanna fimmfaldast

Útflutningur á Skyr.is til Bandaríkjanna sló öll met í vikunni þegar níu tonn voru flutt þangað í flugi. Þetta er tæplega fimmföldun á útflutningi til Bandaríkjanna á nokkrum vikum. Að meðaltali kaupa Íslendingar 20 tonn af Skyr.is í viku hveri. Ástæða aukningarinnar er sú að íslenskar mjólkurafurðir voru í vikunni í fyrsta sinn seldar til verslana Whole Foods verslunarkeðjunnar í New York og Boston.

Þróunarsamvinna fær aukið vægi

Þróunarsamvinna verður þungamiðja málþings átta sjálfstæðra mannúðarsamtaka á Íslandi sem haldið verður í Norræna húsinu 23. mars næstkomandi. Sífellt fleiri láta sig þróunarsamvinnu varða og hefur samvinna efnaðri þjóða við þær fátækari fengið aukið vægi á undanförnum árum.

Býst við að þingi ljúki á laugardag

Forseti Alþingis, Sólveig Pétursdóttir, á von á því að þingi ljúki á laugardag. Sólveig átti fund með formönnum þingflokkanna í kvöld og sagði þetta að honum loknum, í samtali við Sjónvarpið. Þingfundur hófst klukkan 20:52 í kvöld og má búast við því að hann verði fram á nótt.

Höfðatún frá Skúlagötu að Borgartúni lokað tímabundið

Höfðatún frá Skúlagötu að Borgartúni verður lokað tímabundið vegna framkvæmda við lagnir og innkeyrslumannvirki nýbygginga á Höfðatorgi. Lokanir verða mismiklar eftir því hvaða framkvæmdir eru í gangi hverju sinni, en alls munu þær standa yfir frá 19. mars – 8. ágúst. Fyrst í stað verður einni akrein haldið opinni í hvora átt en frá miðjum apríl til ágúst verður Höfðatúni lokað fyrir allri almennri umferð.

Nemendur Melaskóla afhenda ABC barnahjálp framlög sín

Söfnunni “Börn hjálpa börnum 2007” lýkur með táknrænum hætti í hátíðarsal Melaskóla á morgun, föstudaginn 16. mars kl 11. Þá munu nemdur skólans afhenda Guðrúnu Margréti Pálsdóttur og Sigurlínu Þ. Sigurjónsdóttur hjá ABC barnahjálp söfnunarbauka sína. Af þessu tilefni mun utanríkisráðherra afhenda raunsarlegt framlag að upphæð 12 milljónir kr.til landakaupa í Pakistan þar sem skólarnir verða reistir.

Stjórnarandstaðan gagnrýndi ríkisstjórnina

Miklar umræður voru í kvöld á alþingi um störf þingsins. Stjórnarandstaðan gagnrýndi ríkisstjórnina harkalega fyrir framgöngu sína í auðlindamálinu. Ingibjörg Sólrún sagði tillöguna sjónarspil og Geir H. Haarde sagði eðlilegt að þar sem samstaða hefði ekki náðst um hana hefði hún farið aftur í stjórnarskrárnefnd.

Engin virk byggðastefna í landinu

Sérfræðingur í hagfræði segir að engin virk byggðastefna sé rekin í landinu. Hann telur að fyrir vikið hafi Byggðastofnun úr litlu að moða og hlutverk hennar sé óljóst.

Datt á snjóbretti

Ungur drengur féll og slasaðist við snjóbrettaiðkun á skíðasvæðinu í Tungudal á Ísafirði í kvöld. Ekki er vitað um meiðsli drengsins en lögregla og björgunarsveitarmenn eru að sækja hann í brekkuna á þessari stundu. Farið verður með drenginn á sjúkrahúsið á Ísafirði og athugað með meiðsli hans.

„Stjórnarandstaðan sveik loforð sín“

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í samtali við Vísi að stjórnarandstaðan hefði svikið loforð sín um greiða fyrir lausn auðlindamálsins. Hann sagði tillögu stjórnarflokkanna hafa verið í meginmáli eins og tillögu stjórnarandstöðunnar sem kom fram á fundi hennar þann 5. mars síðastliðinn. Því væru þessi málalok merki um sneypuför stjórnarandstöðunnar sem væri nú á flótta undan sínum eigin yfirlýsingum.

Háskóli á Keflavíkurflugvelli: Sóknarlið í stað varnarliðsins

Undirrituð var í dag yfirlýsing um uppbyggingu háskólasamfélags á gamla varnarsvæðinu . Stefnt er að því að hefja kennslu í haust og að innan sjö ára verði sautján hundruð manna byggð á staðnum. Í dag er ár síðan varnarliðið tilkynnti um brottför sína, en nú er sóknarliðið komið í þess stað, segir aðaldriffjöður verkefnisins.

Segir lögreglu hafa hundsað gögn um sýknu

Verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugsmálinu telur að lögreglan hafi ekki lagt sig fram um að skoða gögn og kalla til vitni, sem sýnt hefðu getað fram á sakleysi sakborninga í Baugsmálinu. Fyrrverandi yfirmaður efnahagsbrotadeildarinnar segir hins vegar að það hafi verið gert.

Þekktur geðlæknir dælir út rítalíni til fíkils

Þekktur geðlæknir ávísaði fyrir skömmu á þriðja hundrað rítalíntaflna til stórfíkils. Móður fíkilsins blöskrar að læknir viðhaldi fíkn eiturlyfjaneytanda með þessum hætti. Hún krefst þess að landlæknisembættið hafi betra eftirlit með ávísunum lækna.

Hætt við breytingu á auðlindaákvæði

Formenn flokkanna á alþingi hittast klukkan sjö í kvöld til að ræða samkomulag um þinglok eftir að meirihluti nefndar um breytingar á stjórnarskrá ákvað að falla frá frumvarpi um breytingar á auðlindaákvæði í stjórnarskrá og vísa málinu til stjórnarskrárnefndar. Þingfundum var óvænt frestað klukkan fimm og kallað saman til fundar í nefndinni. Honum lauk laust fyrir hálf sjö með þessari niðurstöðu.

Fengu 15 milljónir afhentar í dag

Barnaspítali Hringsins fékk á síðasta ári að gjöf alls 300 milljónir króna til styrktar reksturs hágæslueiningar fyrir inniliggjandi börn. Gefendur eru Jóhannes Jónsson kaupmaður og börn hans, þau Kristín Jóhannesdóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson. Í dag fékk Barnaspítalinn afhentar 15 milljónir af upphæðinni.

Sjá næstu 50 fréttir