Innlent

Háskóli á Keflavíkurflugvelli: Sóknarlið í stað varnarliðsins

Undirrituð var í dag yfirlýsing um uppbyggingu háskólasamfélags á gamla varnarsvæðinu . Stefnt er að því að hefja kennslu í haust og að innan sjö ára verði sautján hundruð manna byggð á staðnum. Í dag er ár síðan varnarliðið tilkynnti um brottför sína, en nú er sóknarliðið komið í þess stað, segir aðaldriffjöður verkefnisins.

Þeir sem undirrituðu yfirlýsinguna voru fulltrúar Reykjanesbæjar, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, sem sér um ríkiseigurnar á varnarsvæðinu fyrrverandi og Háskóla Íslands en hann verður menntastoðin undir framtakinu. Auk þess koma að málum frumkvöðlarnir í Háskólavöllum ehf. og fjöli öflugra fyrirtækja m.a. á sviði ferða-, fasteigna-, og frjármálaþjónustu og á sviði orku-, umhverfis, og auðlindamála.

Markmiðið er að byggja upp menntun á nokkrum sérsviðum með frumáherslu á orku-, umhverfis-, og auðlindamál. Stefnt er að því að hefja kennslu í frumgreinum þegar næsta haust en allt er til staðar á varnarsvæðinu fyrrverandi, skólahúsnæði, íbúðarhúsnæði og byggingar þar sem hægt er að veita alla stoðþjónustu. Stefnt er að því að hefja útflutning á menntun innan þriggja til fimm ára og telja aðstandendur verkefnisins að á háskólasvæðinu verða tæknigarðar.

Fram kom á fundinum í dag þar sem viljayfirlýsingin var undirrituð að víða erlendis væru háskólar og tæknigarðar farnir að færa sig nær alþjóðaflugvöllum.

Í dag er nákvæmlega ár síðan herinn tilkynnti um brottför sína frá Íslandid. Runólfur Ágústsson, frumkvöðull að þessu verkefni segir að varnarliðið sé farið en sóknarliðið sé komið í þess stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×