Fleiri fréttir

Vatn flæddi inn í nokkur hús

Vatn flæddi inn í nokkur hús á Siglufirði í nótt. Gríðarleg úrkoma var í bænum en nú hefur stytt upp. Að sögn Sigurðar Hlöðverssonar, bæjartæknifræðings á Siglufirði, urðu nokkur hús fyrir vatnstjóni. Ástæða flóðanna er einkum tvíþætt. Annars vegar gríðarleg úrkoma í nótt og hins vegar er stórstreymt og staða sjávarfalla há.

Matarverð lækkar um 16%

Vörugjald af innlendri og innfluttri matvöru, nema sykri og sætindum, verður afnumið frá 1. mars. Virðisaukaskattur af matvælum lækkar líka úr 14% í 7% frá 1. mars. Virðisaukaskattur af annarri þjónustu og vörum í 14% þrepi, bókum, tímaritum, blöðum, húshitun og hótelgistingu, verður lækkaður í 7%. Virðisaukaskattur af öðrum matvælum sem hefur verið 24,5% verður lækkaður í 7% frá sama tíma og virðisaukaskattur af veitingaþjónustu fer líka niður í 7%. Almennir innflutningstollar af kjötvöru munu lækka um allt að 40%. Aðgerðirnar miða að því að færa almennt matarverð til jafns við meðalverð á Norðurlöndunum og munu kosta ríkissjóð um sjö milljarða króna.

Tveir árekstrar samtímis á Akureyri

Tveir árekstrar urðu nánast samtímis innanbæjar á Akureyri í gærkvöldi. Engan sakaði, en bílarnir voru mikið skemmdir og varð að fjarlægja þrjá þeirra með kranabílum. Mikil rigning var og dimmviðri þegar árekstrarnir urðu.

Ferðamenn streyma enn að Kárahnjúkum í október

Rútufarmar af ferðamönnum streyma enn á Kárahnjúkasvæðið, þótt komið sé fram í október, og íhuga Landsvirkjunarmenn nú að framlengja opnunartíma upplýsingamiðstöðvar við Valþjófsstað til að mæta ásókninni.

Vilja virkja í Skagafirði til að hækka laun og draga úr fólksflótta

Baráttusamtök hafa verið stofnuð gegn virkjun fallvatna Skagafjarðar. Hugmyndir sveitarstjórnar eru háðar því skilyrði að orkan verði einungis nýtt innan héraðs, og vonast ráðamenn til að þannig megi draga úr fólksflótta og stuðla að því að héraðið hætti að vera láglaunasvæði.

Yoko Ono vekur athygli í Reykjavík

Tugir erlendra fjölmiðlamanna voru viðstaddir blaðamannafund Yoko Ono í Reykjavík nú síðdegis þegar hún kynnti friðarsúlu sína og afhendingu friðarverðlauna. Yoko kvaðst velja Ísland vegna stöðu landsins á norðurhveli jarðar og nýtingar Íslendinga á orkulindum sínum.

Landlæknir treystir yfirlækni á Sogni

Matthías Halldórsson, starfandi landlæknir telur að það þurfi að bæta aðstöðu og fjölga plássum á réttargeðdeildinni að Sogni. Hann segist treysta dómgreind yfirlæknisins á Sogni sem varð að senda geðsjúkan afbrotamann í leyfi til þess að losa pláss vegna bráðainnlagnar.

Sáttaviðræður milli DV og Jónínu Ben

Málflutningi í máli sem Jónína Benediktsdóttir höfðaði gegn DV vegna umfjöllunar um einkalíf hennar var frestað í vikunni vegna tilboðs um að dómsátt yrði gerð í málinu. Í tilboðinu felst að fjölmiðillinn greiði Jónínu bætur og biðji hana afsökunar á umfjölluninni.

Reykingar bannaðar í Frakklandi

Frakkar ætla að banna reykingar á öllum opinberum stöðum frá 1. febrúar á næsta ári. Bannið tekur einnig til veitingastaða, skemmtistaða og hótela. Dominique de Villepin, forsætisráðherra Frakka tilkynnti þetta í dag.

Fundað eftir helgi vegna uppsagna starfsmanna

Verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnarfirði ætlar að funda eftir helgi um uppsagnir þriggja starfsmanna hjá Alcan. Rafiðnaðarsamband Íslands hótaði því fyrir helgi að beita sér gegn stækkun álversins í Straumsvík vegna uppsagna þriggja starfsmanna hjá Alcan fyrir helgi.

Íslenskar mjólkurafurðir kynntar í Bandaríkjunum

Íslenskar mjólkurafurðir hafa síðustu daga verið kynntar verslunum Whole foods market í Washington. Á heimasíðu Landssambands kúabænda segir að íslensku vörurnar hafi hlotið góðar viðtökur.

Valgerður vill áfram leiða í Norðausturkjördæmi

Tvöfalt kjördæmisþing kemur til með að velja á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. Þingið verður haldið 13. janúar og munu fulltrúar þar raða í tíu efstu sætinu á listanum. Valgerður Sverrisdóttir leiddi lista flokksins í kjördæminu í síðustu kosningum. Í samtali við NFS sagði Valgerður að hún gæfi að sjálfsögðu kost á sér fyrir komandi kosningar.

Katrín vill leiða lista

Katrín Jakobsdóttir, varaþingmaður Vinstri-grænna, sækist eftir efsta sæti sameiginlegu prófkjöri flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum og í Suðvesturkjördæmi. Katrín hefur verið varaformaður flokksins frá árinu 2003 en hún var varaborgarfulltrúi Reykjarvíkurlistans á síðasta kjörtímabili. Prófkjörið verður haldið 2. desember næstkomandi.

Grbavica verðlaunuð á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni

Grbavica hlaut í gærkvöldi aðalverðalaun Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar. Myndin er eftir Jasmila Zbanic. Grbavica heitir eftir samnefndu hverfi í Bosníu. Í tilkynningu frá hátíðinni segir að myndin sé raunsæ og áhrifamikil en hún tekur á erfiðleikum eftirstríðsáranna í Bosníu.

Réttað í Þverárrétt

Búið er að rétta um mest allt land en í dag fara einar síðustu réttir haustsins fram í Eyjafjarðarsveit. Réttað er í Þverárrétt í dag og hófust stóðréttir þar klukkan tíu í morgun.

Skiluðu rússneska fánanum

Tveir karlmenn um tvítugt skiluðu skömmu fyrir hádegi í dag rússneskum fána sem þeir stálu af lóð rússneska sendiráðsins. Mennirnir skiluðu fánanum á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Teknar voru af þeim skýrslur en þeir ásamt þriðja manninum brutust inn á lóð rússneska sendiráðsins við Túngötu aðfaranótt laugardags, eftir að hafa verið að skemmta sér í miðborg Reykjavíkur. Rússneska sendiráðið lítur málið alvarlegum augum

Geta ekki notað eigin tungu á veitingastöðum

Talið er að um 2000 útlendingar starfi hér réttindalausir á svörtum markaði. Formaður Matvíss er uggandi fyrir hönd félagsmanna sinna og segir fyrir neðan allar hellur að geta ekki notað eigin tungu á veitingastöðum á Íslandi.

Vier Minuten hlaut Kvikmyndaverðlaun Þjóðkirkjunnar

Kvikmyndin Vier Minuten eftir Chris Kraus hlaut Kvikmyndaverðlaun Þjóðkirkjunnar en verðlaunin er nú veitt í fyrsta sinn á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík 2006. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands veitti verðlaunin.

Mercedes Benz sigraði í sparaksturskeppni

Mercedes Benz 180 CDI sigraði í sparaksturkeppni sem haldin var í gær. Þessi fólksbíll frá Benz eyddi rétt rúmum þremur lítrum á hundraði, sem þykir einkar góður árangur.

Orka virkjana í Skagafirði einungis nýtt innan héraðs

Baráttusamtök hafa verið stofnuð í Skagafirði gegn virkjun fallvatna héraðsins. Hugmyndir sveitarstjórnar Skagafjarðar eru háðar því skilyrði að orkan verði einungis nýtt innan héraðs, samkvæmt sérstakri bókun. Í henni segir að það sé samfélagsleg skylda að meta alla möguleika til eflingar atvinnu- og mannlífs í Skagafirði.

Keyrði ölvaður á stólpa

Rúmlega tvítugur karlmaður var fluttur á slysadeild Landspítala-Háskólasjúkrahús á áttunda tímanum í morgun eftir að hafa ekið á stólpa við Breiðhöfða. Maðurinn er grunaður um ölvun við akstur.

Bílvelta á Reykjanesbraut

Beita þurfti klippum til að ná ökumanni fólksbíls, sem valt á Reykjanesbrautinni í nótt, út úr bílnum. Maðurinn var einn í bílnum og reyndist hann lítið slasaður.

Vöknuðu við hávaðann í reykskynjara

Reykskynjari gæti hafa bjargað lífi hjóna á fimmtugsaldri þegar eldur kom upp í íbúðarhúsinu Búlandi, skammt sunnan Hjalteyrar við Eyjafjörð, laust fyrir klukkan sjö í morgun. Hjónin, sem eru 45 og 47 ára, vöknuðu við hávaðann í reykskynjaranum. Þau komust sjálf út úr brennandi húsinu og hringdu síðan eftir hjálp.

Skilningsleysi gagnvart Sogni

Magnús Skúlason, yfirlæknir á réttargæsludeildinni að Sogni sakar stjórnvöld um skilningsleysi á málefnum deildarinnar en í eitt ár hafa átta geðsjúkir afbrotamenn verið þar í vistun þó að einungis séu sjö sjúkrarúm á deildinni. Fyrir viku varð að losa eitt rúm vegna bráðainnlagnar og var þá pláss losað með því að senda vistmann í ótímabundið leyfi.

Fengu ekkert í samningum við Bandaríkjastjórn

Íslendingar fengu ekkert í samningum við Bandaríkjastjórn umfram það sem NATO-aðild veitir, að mati Michaels Corgans, prófessors við Boston-háskóla. Hann telur að Bandaríkjamenn hafi komið fram af mikilli óbilgirni í uppgjöri þjóðanna í varnarmálum.

Sala á helmingi Icelandair

Fjárfestingahópur með rætur í Sambandsarmi atvinnulífsins verður kjölfestan í nýjum eigendahópi Icelandair. Félagið hefur fengið nafnið Langflug en um helgina er unnið að því að ganga frá sölu til þess og annarra fjárfesta á meirihluta í flugfélaginu og tengdum rekstri.

Sækja mannskap á nýju þyrluna frá Noregi

Landhelgisgæslan fékk í dag nýja þyrlu, sem er sömu gerðar og TF-LÍF og er hún leigð frá Noregi. Tveir norskir flugmenn komu með þyrlunni og koma þeir til með að starfa hér á landi næsta árið þar sem Gæsluna skortir þjálfaðan mannskap.

15 ára á bíl foreldra sinna

Lögreglan á Akureyri hafi í dag afskipti af 15 ára stúlku sem var að aka um bæinn á bíl foreldra sinna. Eftir að hafa stöðvað stúlkuna ók lögreglan með hana heim til foreldra sinna þar sem hún ræddi við þau.

Sleit háspennulínu

Lögreglan á Akureyri þurfti í dag að aðstoða mann sem var að flytja bát sinn við bæinn. Hátt mastur var á bátnum sem fór í háspennulínu á Moldhaugahálsi rétt fyrir norðan Akureyri. Þrír strengir slitnuðu við þetta en um sveitalínu er að ræða og fór rafmagn af bæjum í kring. Maðurinn slapp ómeiddur og báturinn að mestu óskemmdur.

Ný þyrla Gæslunnar komin til landsins

Ný leiguþyrla Landhelgisgæslunnar lenti á Reykjavíkurflugvelli laust fyrir klukkan fimm. Hún er sömu gerðar og TF-LÍF, Super Puma, og er leigð frá Noregi. Koma hennar er liður í eflingu Landhelgisgæslunnar í kjölfar brotthvarfs þyrlusveitar Varnarliðsins. Bæði Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, og Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, voru viðstaddir þegar þyrlan lenti og lýstu þeir yfir mikilli ánægju með hve skamman tíma tók að fá þyrluna til landsins.

Sveinn sækist eftir fyrsta sæti í Norðvesturkjördæmi

Sveinn Kristinsson, bæjarfulltrúi á Akranesi, gefur kost á sér í fyrsta sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Sveinn varð varabæjarfulltrúi á Akranesi árið 1990 en var kjörinn bæjarfulltrúi 1994.

Ný þyrla Landhelgisgæslunnar á leið til landsins

Ný þyrla Landhelgisgælunnar er nú á leið til landsins. Hún hélt á stað frá Noregi í morgun og hafði viðkomu á leiðinni í Færeyjum. Reiknað er með að hún lendi við flugskýli Landhelgisgæslunnar um klukkan hálf fimm. Þyrlan verður þriðja þyrla Landhelgisgæslunnar og bætist í hóp TF-LÍF og TF-Sif.

Rennslið í Skaftá að ná jafnvægi

Rennslið við Sveinstind í Skaftá er að ná jafnvægi eftir hlaup sem hófst í ánni fyrir um 10 dögum. Fréttavefurinn Sudurland.is greinir frá þessu en þar segir að hlaupið hafi aldrei orðið verulegt enda stutt síðan hljóp úr báðum Skaftárkötlum.

Flugslys sviðsett á Bíldudalsflugvelli

Neyðar- og björgunarsveitaæfing hefur staðið yfir á Bíldudal í dag. Sett var á svið flugslys þar sem flugvél með 21 farþega um borð lenti harkalega á Bíldudalsflugvelli.

Sjá næstu 50 fréttir