Fleiri fréttir

Frakkar spara vatnið

Gripið hefur verið til vatnsskömmtunar í sjö af 96 sýslum Frakklands og þar í landi óttast menn sumarþurrka. Landbúnaðarráðuneytið segir að nú þegar sé neikvæð staða á vatnsbirgðum í nokkrum sýslum.

Japanskur ferðamaður fékk sér sundsprett í Tjörninni

Tilkynnt var um karlmann á miðjum aldri í Tjörninni í gærkvöld. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var maðurinn, „sem er að öllum líkindum japanskur ferðamaður“, eins og segir í tilkynningu frá lögreglunni, kominn á þurrt.

Framsókn tapar fylgi til VG í Kraganum

Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin halda sínu fylgi í Suðvesturkjördæmi en Framsókn tapar miklu fylgi yfir til vinstri grænna samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallup fyrir Ríkisútvarpið.

Sparisjóður Mýrarsýslu dæmdur til 26 milljóna greiðslu

Hæstiréttur dæmdi í dag Sparisjóð Mýrarsýslu til að greiða Kaupfélagi Árnesinga rúmar 26 milljónir króna auk vaxta. Sparisjóðurinn hafði tekið upphæð sem þriðji aðili greiddi inn á innlánsreikning Kaupfélagsins upp í skuld þess vegna víxla sem Sparisjóðurinn keypti af Kaupfélaginu.

100 tonna risaeðla í Ástralíu

Steingervingar af tveim risastórum risaeðlum hafa fundist í Ástralíu. Eðlurnar eru af tegundinni Titanosaurus og langstærsta tegund sem fundist hefur í landinu til þessa. Þær hafa verið um 100 tonn að þyngd og milli 26 og 35 metra langar. Þær reikuðu um sléttur Ástralíu fyrir 98 milljónum ára.

Missti sígarettuna og ók á girðingu

Ungur ökumaður varð fyrir því óláni í nótt að keyra á girðingu eftir að hann missti logandi sígarettu í miðjum akstri. Flytja þurfti piltinn á slysadeild. Tilkynnt var um 28 umferðaróhöpp í höfuðborginni síðasta sólarhring.

Síbrotamaður í fimm ára fangelsi

Hæstiréttur dæmdi í dag síbrotamann í fimm ára fangelsi fyrir mikinn fjölda brota. Maðurinn var sakfelldur fyrir var nytjastuld, þjófnað, skjalafals, fjársvik, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot.

Lögregluembættin á Vesturlandi í nánara samstarf

Löggæsla á Vesturlandi verður efld verulega og viðbragðstími styttur samkvæmt nýju samkomulagi milli lögregluembættanna í landsfjórðungnum. Framvegis mun lögreglulið á svæðinu sjá sameiginlega um allt eftirlit án tillits til umdæmamarka.

Myndin sem hneykslaði Íran

Strangtrúaðir í Íran eru í uppnámi vegna þess að forseti landsins Mahmoud Ahmadinejad faðmaði að sér gamla kennslukonu sína og kyssti á hönd hennar. Dagblaðið Hizbolla segir að annað eins hafi ekki sést síðan á dögum keisaratímabilsins.

Spyr hvort kosningaloforð standist

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir spá Seðlabankans benda til minnkandi hagvaxtar á þessu ári og því næsta. Það bendi til samdráttar á árinu 2009. Enginn stjórnmálaflokkanna byggi heildstæða stefnumörkun í skattamálum, velferðarmálum eða opinberum fjárfestingum á þeirri sýn.

Stjórn Baugs lýsir yfir stuðningi við Jón Ásgeir

Dómur í Baugsmálinu endurspeglar slælegan málatilbúnað ákæruvaldsins segir stjórn Baugs Group um hinn nýfallna dóm. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem stjórnin sendi frá sér fyrir skömmu. Stjórnin lýsir áfram yfir eindregnum stuðningi við Jón Ásgeir Jóhannesson.

Neydd til að fæða dauðvona barn

Sautján ára gömul írsk stúlka berst nú fyrir því fyrir hæstarétti á Írlandi að fá að fara til Bretlands til þess að láta eyða fóstri sem á sér engar lífslíkur þótt hún fæði það. Fóstrið er svo vanþroskað á höfði að það vantar á það bæði stóran hluta af höfuðkúpunni og heilanum. Læknar telja það mest geta lifað í þrjá daga eftir fæðingu.

Jón Ásgeir áfrýjar dómi til Hæstaréttar

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, hefur ákveðið að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í Baugsmálinu sem féll í dag til Hæstaréttar. Jón Ásgeir var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir bókhaldsbrot í tengslum við rekstur Baugs.

Vaxandi ójöfnuður og auknar skuldir

Þrátt fyrir almennt góðæri í þjóðfélaginu á undanförnum árum hefur ójöfnuðu vaxið og skuldir heimilanna aukist meira en góðu hófi gegnir. Þetta kemur meðal annars fram í niðurstöðum vorskýrslu Hagdeildar Alþýðusambands Íslands sem kynnt var í dag. Skýrsluhöfundar telja það forgangsatriði að tökum sé náð á hagstjórninni og að stjórnmálamenn láti af ódýrum innhaldslausum loforðum og horfist þess í stað í augu við raunveruleikann.

Danir ætla að banna blæjur

Danska ríkisstjórnin vill setja lög sem gera atvinnurekendum kleift að banna múslimakonum að ganga með slæður eða búrka í vinnunni. Kveikjan að þessu er að barnfóstra í Óðinsvéum neitaði að taka af sér slæðuna við gæslu barna. Bæjarstjórnin þar leitaði til stjórnvalda þar sem hún var ekki viss um að hún hefði heimild til þess að úrskurða í málinu.

Litli bróðir er pínulítill

Eineggja fyrirburatvíburar, þar sem annar er aðeins þriðjungur af stærð bróður síns, eiga báðir góðar lífslíkur.

Skoðað verður vel hvort málinu verður áfrýjað

Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari í Baugsmálinu, sagði skömmu eftir að dómur var kveðinn upp í hádeginu í dag að skoða yrði mjög vel hvort málinu yrði áfrýjað til Hæstaréttar.

Kaupþing neitar tilraun til að kaupa Jón Gerald

Jón Gerald Sullenberger segist feginn að hafa sloppið við ákæru í Baugsmálinu. Hann segir forstjóra Kaupþings hafa reynt að kaupa sig til að falla frá málinu árið 2002 með boði um tvær milljónir bandaríkjadala. Þessu neitar Kaupþing. „Hvorki forstjóri Kaupþings banka né aðrir starfsmenn hans hafa nokkurn tímann boðið Jóni Gerald Sullenberger greiðslur fyrir að draga mál sitt gagnvart Baug til baka."

Fagna hugmyndum um enduruppbyggingu eftir bruna

Húsafriðunarnefnd ríkisins fagnar frumkvæði borgarstjóra Reykjavíkur um enduruppbyggingu húsanna á horni Austurstrætis og Lækjargötu sem skemmdust í eldsvoða þann 18. apríl. Þetta kemur fram í tilkynningu frá nefndinni.

Fræðimannsíbúðinni í Kaupmannahöfn úthlutað

Sjö fræðimenn munu fá afnot af íbúð Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn næsta vetur en úthlutun fór fram í dag. Úthlutunin gildir frá septembermánuði á þessu ári til ágústloka á því næsta.

Kostaði ríkissjóð rúmlega 105 milljónir

Heildarkostnaður ríkissjóðs vegna meðferðar endurákæru í Baugsmálinu fyrir dómi eru rúmlega 105 milljónir króna. Þetta kom fram í dómsskjölum en í þeim ákvörðuðu dómarar laun verjenda. Við ákvörðun málsvarnarlauna var tekið mið af vinnuskýrslum verjenda og við­mið­unarreglum dómstólaráðs. Virðisaukaskattur er innifalinn í máls­varn­ar­laununum.

Rúmlega 400 hjól boðin upp hjá lögreglunni

Rúmlega 400 reiðhjól verða boðin upp hjá óskilamunadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á laugardaginn. Að sögn lögreglu eru hjólin sem boðin verða upp bæði ný og gömul.

Kastljós stendur við umfjöllun sína

Þórhallur Gunnarsson ritstjóri Kastljóssins hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir Kastljósið standa við umfjöllun sína um veitingu ríkisborgararéttar til tilvonandi tengdadóttur Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra. Spurningu ráðherrans um hvort þátturinn láti misnota sig í pólitískum tilgangi er er jafnframt hafnað. Jónína sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hafnaði því sem hún kallar ásökunum Kastljóss og spurði hvort Kastljósið léti misnota sig með því að koma höggi á hana og Framsóknarflokkinn í aðdraganda kosninga. Þórhallur hafnar því að Kastljós er hafi verið misnotað af neinum. Hann segir meðal annars í yfirlýsingunni, að aldrei hafi verið sagt að Jónína hefði beitt sér í málinu, heldur vakin athygli á óvenjulegri afgreiðslu málsins. Þegar við bætist að stúlkan búi á heimili umhverfisráðherra sé full ástæða fyrir fjölmiðla að spyrja spurninga.

Högnuðust um rúma 60 milljarða

Íslenskir fjárfestar högnðust um rúma sextíu milljarða króna þegar þeir seldu 85 prósenta hlut sinn í búlgörsku símafélagi í gærkvöldi.

Frakkar búsettir á Íslandi mjög vinstrisinnaðir

Frakkar búsettir á Íslandi eru mun vinstrisinnaðri en landar þeirra í heimalandinu sé miðað við hvernig þeir kusu í utankjörstaðakosningu í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna. Rúmlega helmingur þeirra kaus Segolene Royal, frambjóðanda vinstrimanna, en aðeins einn af hverjum tíu hægrimanninn Nicolas Sarkozy.

Mikil vonbrigði með sakfellingu Jóns Ásgeirs

Gestur Jónsson lögmaður segir sakfellingu yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í Baugsmálinu mikil vonbrigði. Hann sagði við fréttamenn eftir dómsuppkvaðningu í hádeginu að afstaða dómara til málatilbúnaðarins endurspeglaðist í því að ríkið væri látið bera mestan hluta málskostnaðar. Hann segir að dómurinn verði skoðaður, en ekki sé búið að ákveða hvort málinu verði áfrýjað.

Hæðarslá féll á bíla

Umferðarslys varð á Miklubraut í dag þegar að bíll með krana rakst á hæðarslá yfir götunni. Hún féll við það á tvo bíla og skemmdust þeir töluvert. Engin slys urðu á fólki. Loka þurfti öllum akreinum í vestur á meðan verið var að fjarlægja slánna af götunni.

Jón Ásgeir og Tryggvi fá skilorðsbundna dóma

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir aðild sína að Baugsmálinu. Þá var Tryggvi Jónsson, fyrrverandi forstjóri félagsins, dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir aðild sína að málinu.

Niðurrif Pravda stöðvað að kröfu lögmanns

Niðurrif á rústunum af skemmtistaðnum Pravda í Austurstræti sem hófst á laugardag, var stöðvað seinnipartinn í gær að kröfu lögmanns. Rekstraraðilar í húsinu telja að nú þegar hafi verið unnið ómetanlegt tjón á því sem þeir telja að hafi verið heill hluti af húsinu. Þeir eru óhressir með að borgin hyggist taka af þeim reksturinn án þess að tala við þá.

Felldu upplýsingafulltrúa al-Kaída í Írak

Bandaríski herinn í Írak skýrði frá því í dag að þeir hefðu fellt upplýsingafulltrúa al-Kaída í Írak. Talsmaður hersins sagði að hann hefði verið viðriðinn mannránið á bandarísku blaðakonunni Jill Carroll og fleiri útlendingum.

Rafræn kjörskrá opnuð á vefnum

Opnað hefur verið fyrir rafrænan aðgang að kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur fyrir komandi alþingiskosningar. Þar geta kjósendur aflað sér upplýsinga um hvar þeiri eigi að kjósa og í hvaða kjördeild.

Brjóst í pósti

Eins og margar danskar vændiskonur er Kirsten með heimasíðu. Þar er meðal annars að finna myndir af henni. Nýlega fékk Kirsten bréf frá fyrirtæki sem heitir "Helth Care Danmark." Þar segir meðal annars: "Með tilliti til líkamsbyggingar og hæðar yrðir þú gríðarlega flott með stærri barm, C 75, viljum við gera þér tilboð og ráðleggingar. Hringdu til okkar til að fá tíma."

Bein útsending - Dómur í Baugsmálinu

Bein útsending verður í hádegisfréttatíma Stöðvar 2 og á Vísir.is frá Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan tólf en þá verður dómur kveðinn upp í Baugsmálinu. Um er að ræða 18 ákæruliði í endurákæru sem Sigurður Tómas Magnússon gaf út eftir að 32 ákæruliðum í Baugsmálinu hinu fyrra var vísað frá dómi.

Telja Sarkozy hafa staðið sig betur

Franskir kjósendur telja að Nicolas Sarkozy hafi haft betur í baráttu sinni við Sególene Royal í kappræðum þeirra í frönsku sjónvarpi í gær. Þetta kemur fram í könnun sem birt var í dag. Hún var gerð eftir kappræðurnar sem voru líflegar og spennandi. Í henni sögðu 53% aðspurðra Sarkozy hafa staðið sig betur en aðeins 31% völdu Sególene.

Nýskráðum bílum fækkar um 35 prósent

Samdráttur upp á tæplega 35 prósent varð í nýskráningum bíla á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs miðað við sama tíma í fyrra. Alls voru tæplega 5.800 nýir bílar skráðir á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs samkvæmt Hagstofu Íslands

Færast nær friðarsamkomulagi

Stjórnvöld í Úganda og Uppreisnarher drottins (Lord's Resistance Army) færðust í gærkvöldi einu skrefi nær því að binda endi á tveggja áratuga borgarastyrjöld í landinu. Báðir aðilar skrifuðu þá undir annan hluta friðarsamkomulags en þeir sættust á vopnahlé á síðasta ári.

Heigullinn af Titanic fær uppreist æru

Hinn illræmdi skúrkur frá Titanic slysinu hefur nú fengið uppreist æru með bréfi sem einkaritari hans skrifaði skömmu eftir slysið. Sir Cosmo Duff Gordon var hataður og fyrirlitinn í Bretlandi eftir að Titanic sökk. Því var haldið fram að hann hefði borgað fyrir að komast um borð í björgunarbát, og mútað áhöfn hans til að snúa ekki aftur að skipinu til þess að bjarga fleiri farþegum.

Traktor keyrði tvisvar yfir ungling

Traktor keyrði í tvígang yfir austurrískan ungling – fyrst eftir að hann datt af og svo aftur þegar ökumaðurinn bakkaði til að athuga hvar pilturinn væri. Hinn 17 ára Hubert Hochstetter datt af traktornum þegar Josef Mittringer 22 ára félagi hans keyrði hann eftir vegi við þorpið Kainisch í Austurríki. Hann hafnaði undir afturhjólum traktorsins sem vegur um þrjú tonn.

Hættulegustu öfgasamtök N-Írlands hætta starfsemi

Hættulegustu öfgasamtök mótmælenda á Norður-Írlandi, Ulster Volunteer Force (UVF), hafa tilkynnt að þau muni hætta vopnaðri baráttu. Þau segjast ætla að taka upp baráttu án vopna. „Frá og með tólf á miðnætti, fimmtudaginn 3. maí 2007, munu Ulster Volunteer Force og Red Hand Commando beita sér á friðsaman hátt og taka upp borgaralega starfsemi." sagði í tilkynningu frá þeim í morgun.

Samið um tvö ný fiskiverkefni í Mósambík

Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur samið við sjávarútvegsráðuneyti Mósambík um tvö ný verkefni á sviði fiskimála. Jóhann Pálsson, umdæmisstjóri Þróunarsamvinnustofnunar, skrifaði undir samningana fyrir hönd Íslands í dag.

20 milljónir horfi á kappræður

Búist er við að 20 milljón Frakkar fylgist í kvöld með sjónvarpskappræðum frambjóðendanna tveggja sem berjast um forsetaembættið í Frakklandi. Þetta er síðasta tækifæri sósíalistans Segolene Royal til að saxa á naumt forskot hægrimannsins Nicolas Sarkozy. Kosið er á sunnudaginn.

Vill að Olmert víki

Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels hefur hvatt Ehud Olmert til þess að segja af sér sem forsætisráðherra. Hún segir jafnframt að hún muni sækjast eftir forystu í Kadima-flokki hans. Livni skýrði frá þessu eftir fund sinn með Olmert í dag.

Sjá næstu 50 fréttir