Fleiri fréttir

Fiskimjölsverksmiðju við Krossanes lokað

Aldrei framar munu menn finna peningalykt á Akureyri. Ísfélag Vestmannaeyja hefur ákveðið að loka fiskimjölsverksmiðjunni á Krossanesi og eru viðbrögð bæjarbúa ekki öll á sama veg.

Hætt að miða við fyrri greiðslur

Hætt hefur verið að miða við fyrri greiðslur í fæðingarorlofi, þegar næsta barn fæðist innan þriggja ára, en umboðsmaður alþingis telur það ekki samræmast lögum. Þetta kom fram í fyrirspurnartíma á alþingi í dag. Magnús Stefánsson sagði, í svari við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, að starfshópur væri að skoða framkvæmd laganna í kjölfar niðurstöðu umboðsmanns og hann styddi þá breytingu sem þegar hefði verið gerð.

7 bréfasprengjur á Bretlandseyjum

Breska lögreglan greindi frá því í dag að sjö bréfasprengjur hafi verið sendar á Bretlandseyjum undanfarnar þrjár vikur. Ein slík sprakk í Wales í dag og særði þrjá en það er fjórða sprengjan sem springur á fimm dögum.

3 milljónir króna í miskabætur raunhæfar

Saga drengjanna í Breiðavík sýnir hvernig samfélagið getur framleitt afbrotamenn, segir Guðrún Ögmundsdóttir. Hún segir ekki óraunhæft að borga fórnarlömbum ofbeldis í Breiðavík þrjár milljónir í miskabætur fyrir þjáningar sínar.

Bræður vilja ekki berjast

Bræður hafa barist á banaspjótum í Palestínu síðustu vikur og mánuði og mannfall verið mikið. Forvígismenn fylkinga Hamas og Fatah reyna að stilla til friðar. Palestínskir bræður, sem fylgja sitt hvorri fylkingunni, særðust í sömu árásinni fyrir nokkrum dögum. Þeir segjast berjast fyrir bandamenn sína en samt geti þeir aldrei miðað byssu hvor á annan.

Reyndu að fella internetið

Óþekktir tölvuþrjótar reyndu í gær að ráða niðurlögum þeirra 13 tölva sem sjá um að stjórna stórum hluta umferðar á internetinu. Árásin stóð yfir í rúmar tólf klukkustundir og virtist koma frá Suður-Kóreu. Milljónir tölva um allan heim, sem sýktar voru með vírusum sem gerðu tölvuþrjótum kleyft að ná stjórn á þeim, voru notaðar í árásinni.

Leggst gegn framboði í nafni Framtíðarlandsins

Ómar Ragnarsson einn forsprakka Framtíðarlandsins segist leggjast gegn framboði til alþingiskosninga í nafni Framtíðarlandsins. Það sé ekki ráðlegt að stærstu umhverfissamtök landsins bjóði fram í eigin nafni. Búist er við miklum átökum á fundi Framtíðarlandsins í kvöld þar sem ákveðið verður hvort ráðist verður í framboð fyrir alþingiskosningar.

Forsætisráðherra boðar lækkun skatta á fyrirtæki

Forsætisráðherra boðaði einföldun á skattkerfinu og lækkun skatta á fyrirtæki til að auka samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á viðskiptaþingi í dag. Formaður viðskiptaráðs segir hvalveiðar Íslendinga geta sett árangur útrásarfyrirtækjanna í uppnám.

Eldur í geymslu á Hótel Höfn

Rétt eftir klukkan fimm í dag varð elds vart í geymslu í kjallara Hótels Hafnar. Brunakerfið lét vita af eldinum en erfiðlega gekk að staðsetja eldinn vegna reyks. Reykkafari var sendur inn til þess að staðsetja hann. Slökkvilið Hafnar er enn að störfum á hótelinu. Einhverjar glæður leynast þar enn og verið er að reykræsta hótelið.

Samfylkingin vill huga að sprotafyrirtækjum

Á blaðamannafundi í dag kynnti Samfylkingin nýja stefnumótun í atvinnumálum. Þær unnu til verðlauna á nýafstöðnu Sprotaþingi Samtaka sprotafyrirtækja og Samtaka iðnaðarins sem haldið var á föstudag. Þar greiddu fundarmenn atkvæði um tillögur stjórnmálaflokkanna og urðu tillögur Samfylkingarinnar í þremur efstu sætunum.

Ítalskur svikahrappur kostar TM tíu milljónir

Tryggingamiðstöðinni hf var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag gert að greiða Íslensku umboðssölunni hf tæpar tíu milljónir vegna stolins fiskfarms sem var í eigu Íslensku umboðssölunnar hf. Málsatvik eru þau að Ítala tókst að villa á sér heimildir þannig að hann fékk afgreiddan fiskfarm frá íslensku umboðssölunni fyrir rúmar 110 þúsund evrur.

Dönsku fríblöðin höggva skörð í lestur hinna

Fríblöðin í Danmörku virðast hafa haft talsverð áhrif á blöðin sem fyrir voru. Miðað við janúar á síðasta ári, hefur Berlingske Tidende misst tíu prósent lesenda sinna, Jyllandsposten um 16 prósent sinna lesenda og Århus Stiftstidende heil 29 prósent. Aðeins Politiken virðist hafa staðið af sér hrinuna, en þar fjölgaði lesendum um tvö prósent.

Ekki miðað við fyrri greiðslur í fæðingarorlofi

Hætt hefur verið að miða við fyrri greiðslur í fæðingarorlofi þegar næsta barn fæðist innan þriggja ára en Umboðsmaður Alþingis telur það ekki samræmast lögum. Þetta kom fram í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Sex milljónir í skaðabætur vegna vinnuslyss

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag verktakafyrirtækið Heimi og Þorgeir hf. og Vörð Íslandstryggingu hf. til að greiða fyrrum starfsmanni Heimis og Þorgeirs tæpar sex milljónir króna í skaðabætur vegna vinnuslyss. Fyrirtækjunum var einnig gert að greiða vexti frá slysadegi 30. ágúst 2004.

Barnaníðingur grunaður um fleiri afbrot

Vísbendingar eru um að meintur barnaníðingur, sem áreitti stúlkur í Vogahverfi, tengist fleiri málum en upphaflega var haldið. Maðurinn, sem er 26 ára, situr í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hann hafi áreitt fjórar stúlkur á aldrinum 5 til12 ára.

Royal sögð köld og sjálfselsk

Segolene Royal, frambjóðandi sósíalista í forsetakosningunum í Frakklandi, fær ekki góða einkunn í bók sem fyrrverandi aðstoðarkona hennar hefur skrifað. Evelyne Pathouot vann fyrir Royal 1997-1997 og hefur átt í málaferlum við hana út af vangoldnum launum. Hún vinnur nú hjá einum þingmanna franska hægri flokksins UMP.

Frestur starfsmanna RUV framlengdur

Frestur starfsmanna RUV til að svara hvort þeir vilji hætta hætta störfum þegar hið nýja RUV ohf tekur til starfa hefur verið framlengdur fram á föstudag. Upphaflega átti fresturinn að renna út í dag. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa einhverjir starfsmenn nú þegar nýtt sér réttinn og munu hætta við breytingarnar.

Danir undrandi á hjónabandi Alexöndru

Alexandra prinsessa, fyrrverandi eiginkona Jóakims Danaprins, ætlar að gifta sig aftur hinn 3. mars næstkomandi. Með því slitna öll tengsl hennar við dönsku konungsfjölskylduna. Eiginmaður hennar verður hinn 27 ára gamli ljósmyndari Martin Jörgensen. Margir Danir eru furðu lostnir yfir þessari ákvörðun prinsessunnar.

Búið að opna Ártúnsbrekku

Búið er að opna Ártúnsbrekku í Reykjavík aftur en henni var lokað í vesturátt, á öðrum tímanum í dag, eftir að pallbíll með flutningavang aftan í valt í brekkunni.

Geta treyst hlutleysi Capacent Gallup

Íbúar í Hafnarfirði geta treyst því að kynningarefni sem komi frá bænum, vegna stækkunar álversins í Straumsvík, verði sett fram með hlutlausum hætti. Þetta segir í tilkynningu sem upplýsinga- og kynningarfulltrúi Hafnarfjarðar hefur sent frá sér.

Þungar áhyggjur af kjaramálum kennara

Kennarar í Langholtsskóla eru uggandi yfir þróun kjaramála og telja sig sitja eftir öðrum stéttum í þeirri efnahags- og kjaraþróun sem átt hefur sér stað undanfarið í þjóðfélaginu. Kennararnir skora á Launanefnd sveitarfélaga að leiðrétta það misræmi sem hefur orðið. Þeir vilja að Launanefnd standi við ákvæði í kjarasamningi sem segi að teknar skuli upp viðræður til að meta hvort almenn efnahags- og kjaraþróun gefi tilefni til viðbragða. Tímamörk á þeim viðræðum í samningnum voru 1. september 2006.

Baráttufundur vegna virkjanaframkvæmda í neðri hluta Þjórsár

Andstæðingar virkjanaframkvæmda í neðri hluta Þjórsár efna til baráttufundar næsta sunnudag. Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Sól á Suðurlandi standa fyrir fundinum sem haldinn verður í félagsheimilinu Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Núverandi gengisástand óviðunandi

Viðskiptaþing var sett á Hótel Nordica í dag. Formaður Viðskiptaráðs Erlendur Hjaltason sem einnig er forstjóri Exista sagði í setningarræðu að ekki yrði unað við núverandi ástand gengismála mikið lengur. Hann sagði lausnirnar þó ekki vera augljósar; “Við verðum að standa fyrir opinni og upplýstri umræðu um þessi mál á næstunni.”

Vöruflutningabíll valt í Ártúnsbrekku

Vöruflutningabíll valt í Ártúnsbrekku í Reykjavík og er lokað fyrir umferð í vesturátt vegna óhappsins. Nokkur olía lekur úr bílnum. Lögregla og slökkvilið eru á staðnum en ekki er talið að alvarleg meiðsl hafi orðið á fólki.

Skaut ítalskan leyniþjónustumann

Ítalskur dómari hefur fyrirskipað að bandarískur hermaður skuli leiddur fyrir rétt fyrir að skjóta ítalskan leyniþjónustumann til bana í Írak. Tveir Ítalskir leyniþjónustumenn voru á leið út á flugvöllinn í Bagdad, með ítalska konu sem þeir höfðu fengið lausa úr gíslingu. Bandarískir hermenn segja að bílnum hafi verið ekið á ofsahraða að bandarískri varðstöð við flugvöllinn, og því hafi verið skotið á hann.

Sjö bréfasprengjur sendar í Lundúnum

Breska lögreglan segir að sjö bréfasprengjur hafi verið sendar þar í landi undanfarnar þrjár vikur, og hvetur fólk til þess að gæta sín í umgengni við póst. Þrír hafa slasast af bréfasprengjum í þessari viku, en ekki hefur verið skýrt opinberlega frá hinum fjórum fyrr en núna.

Þingmenn ánægðir með stofnun þróunarfélags

Þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu virðast sammála um að það hafi verið gott skref að stofna þróunarfélag um framtíð byggðarinnar á Miðnesheiði. Björgvin G Sigurðsson þingmaður Samfylkingarinnar spurði í fyrirspurnatíma á Alþingi í dag hvort fram hefði farið úttekt um nýtingu á svæðinu.

Rannís úthlutar styrkjum

Vísindamenn fengu úthlutað alls 600 milljónum króna í dag þegar stærsti vísindasjóður landsins opnaði féhirslur sínar og deildi út fé til ýmissa verkefna. Joðskortur kvenna, mannleg hegðun sögupersóna í grafískum tölvuleikjum og sjálfsímynd Íslendinga eru á meðal þess sem Rannsóknarsjóður Íslands veitti fé.

Þarf að ryksuga Reykjaneshöll

Árna Sigfússyni bæjarstjóra í Reykjanesbæ þykir leitt að heilbrigðiseftirlit Suðurnesja telji bæinn hunsa niðurstöður eftirlitsins varðandi svifryksmengun í Reykjaneshöll. Það hafi ekki verið ætlunin. Hann segir að grasið verði hreinsað á allra næstu dögum. Eins og fram hefur komið leiða niðurstöður mælinga heilbrigðiseftirlits Suðurnesja í ljós að svifryksmengun í Reykjaneshöll er langt yfir heilsuverndarmörkum.

Hafísinn á undanhaldi

Hafísinn, sem nýverið lagðist inn á firði á Vestfjörðum, er á hraðri leið frá landi. Hann er nú kominn upp undir miðlínuna á milli Íslands og Grænlands og öll hætta af honum liðin hjá, að sögn Ásdísar Auðunsdóttur hjá Veðurstofunni.

Búist við átökum á fundi Framtíðarlandsins

Búist er við miklum átökum á fundi Framtíðarlandsins í kvöld þar sem ákveðið verður hvort ráðist verður í framboð fyrir alþingiskosningar. Fundurinn verður á Hótel Loftleiðum í kvöld klukkan átta og fyrir liggur tillaga stjórnar um að bjóða fram í alþingiskosningum undir merkjum Framtíðarlandsins. Drög að stefnuáætlun verða lögð fyrir fundinn.

Verð á loðnu í methæðum

Verð á loðnu er orðið hærra en nokkru sinni fyrr og bíða sjómenn þessi í ofvæni, á mörgum skipum norðaustur af landinu, að hún fari að ganga upp á landgrunnið og verða veiðanleg.

Sakaðir um að ala á andúð gegn útlendingum

Frjálslyndi flokkurinn elur á andúð gegn útlendingum og það kom skýrt fram í ræðu Guðjóns Arnar Kristjánssonar á flokkþingi Frjálslynda flokksins. Þetta sagði Sæunn Stefánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, við upphaf þingfundar í dag. Sæunn vísaði sérstaklega til þess að formaðurinn varaði við því að útlendingar bæru hingað berklasmit.

Baugstölur teknar úr samhengi

Starfstengdar greiðslur til æðstu yfirmanna Baugs voru samningsbundnar í starfssamningum og ekki teknar úr sjóðum félagsins ófrjálsri hendi eins og gefið hefur verið í skyn í fréttum RUV. Tölur sem fréttirnar byggðu á voru teknar úr samhengi. Þetta kemur frá í fréttatilkynningu frá Baugi Group hf.

Barnaklámsrassía á vegum austurrísku lögreglunnar

Lögregla í Austurríki gerði í gær rassíu hjá alþjóðlegum barnaklámhring í samstarfi við lögreglu í 77 öðrum ríkjum. Alls er 2361 grunaður um aðild að hringnum. Enginn hefur verið handtekinn en tölvur þeirra grunuðu hafa verið haldlagðar.

Fulltrúi forseta ekki á fund utanríkismálanefndar

Hvorki fulltrúi forsetaembættisins né utanríkisráðuneytisins mættu á fund utanríkismálanefndar í morgun, vegna setu forsetans í þróunarráði Indlands. Halldór Blöndal, formaður nefndarinnar, segir að utanríkisráðherra muni koma á fund nefndarinnar síðar.

Khodorkovsky segir nýjar ákærur pólitískar

Olíujöfurinn Mikhail Khodorkovsky segir nýjar ákærur á hendur honum til þess ætlaðar að koma í veg fyrir að hann losni fyrr úr fangelsi og blandi sér í stjórnmál. Hann segir þessar áætlanir kokkaðar upp í Kreml þar sem Vladímír Pútín ræður ríkjum.

Tveir fluttir á slysadeild eftir harðan árekstur

Tveir voru fluttir á slysadeild eftir harðan árekstur á Breiðholtsbrautinni rétt fyrir klukkan tíu í morgun. Tveir fólksbílar lentu saman og voru tækjabílar frá slökkviliðinu kallaðir á staðinn til að ná ökumönnum, sem voru einir í bílunum, út úr þeim.

Búist við miklum snjó á Bretlandseyjum

Búist er við umferðaröngþveiti á Bretlandseyjum í fyrramálið en spáð er snjóstormi í nótt. Búist er við allt að 15 sentímetrum af snjó falli sumstaðar. Þjóðvegaeftirlitið er með 400 saltbíla í viðbragðsstöðu og verður allt gert sem hægt er til að greiða fyrir umferð.

Ísland miðpunktur í kaupum á ferðaþjónustu

Hin árlega Mid-Atlantic kaupstefna verður haldin dagana 8.–11. febrúar í anddyri nýju og gömlu Laugardalshallarinnar. Kaupstefnan er á vegum Icelandair og er markmið hennar að tengja saman kaupendur og seljendur ferðaþjónustu í Bandaríkjunum og Evrópu.

Sól í Straumi vilja ekki Capacent Gallup

Samtökin Sól í Straumi eru ósátt við að fyrirtækið Capacent Gallup, hafi verið valið af Hafnarfjarðarbæ sem óháður kynningaraðili, í aðdraganda kosninga um stækkun álversins í Straumsvík.

Sjá næstu 50 fréttir