Fleiri fréttir

Lík belgískra telpna fundin

Lögreglan í Belgíu hefur nú fundið lík tveggja stúlkna sem leitað hefur verið að í rúmar tvær vikur. Lík stúlknanna fundust með nokkurra metra millibili í háu grasi við járnbrautarteina. Niðurstöður krufningar verða birtar innan skamms en lögreglan telur ekki líklegt að stúlkurnar hafi látist af slysförum.

Segir úrskurð ekki í samræmi við fyrri úrskurð samkeppnisyfirvalda

Forstjóri Dagsbrúnar undrast úrskurð Samkeppniseftirlitsins, sem hefur úrskurðað að samruni félagsins við afþreyingarfyrirtækið Senu sé ólöglegur. Hann segir úrskurðinn ekki í samræmi við fyrri úrskurð samkeppnisyfirvalda. Úrskurðinum verður áfrýjað til áfýjunarnefndar samkeppnismála.

Lítill munur á verði gjaldeyris milli banka

Gjaldeyrir er dýrastur í Landsbankanum í Leifsstöð, þar sem gengið er einu prósenti hærra en í öðrum útibúum bankans. Í könnun Neytendasamtakanna á verði á gjaldeyri, kemur fram að almennt er lítill munur milli viðskiptabankanna og Forex. Aðeins er um 2,5 prósentustiga munur á hæsta og lægsta verði á gjaldeyri að jafnaði. Ef peningar eru teknir úr hraðbanka erlendis með debetkorti, leggst tveggja prósenta þóknun á útektina en 2,5 prósent ef tekið er út með kreditkorti. Engin aukaþóknun leggst hins vegar þegar greitt er með kreditkorti í verslunum í útlöndum.

Ríkið sýknað af bótakröfu

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði ríkið af skaðabótakröfu konu á þrítugsaldri. Konan varð fyrir líkamstjóni á heimili sínu árið 2002. Fyrrum sambýlismaður hennar braust inn í íbúð hennar og svo inn í svefnherbergi hennar. Í átökum milli þeirra skall hún í gólfið og brotnaði bátsbein í hönd hennar. Tjón hennar hefur verið metið til 20% örorku. Maðurinn var þó ekki dæmdur fyrir líkamsárás og því taldi dómurinn ríkið ekki bótaskylt.

300.000 króna sekt fyrir endurtekin umferðarlagabrot

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag mann um fertugt í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir umferðarlagabrot, þjófnað og rof á skilorði. Maðurinn var í nóvember árið 2004 dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir þjófnað og var dómurinn skilorðsbundinn í þrjú ár. Brotin fólust í margendurteknum umferðarlagabrotum þar sem hann keyrði undir áhrifum slævandi lyfja þannig að hann var ófær um að stjórna bifreiðinni. Þrjú þessara atvika áttu sér stað á sex dögum í september á síðasta ári.

Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar hefur skilað sér

Enginn hefur látist í umferðarslysi á Reykjanesbraut frá því hluti hennar var tvöföldaður og minna er um hraðakstur. Ökumenn haga sér öðruvísi í umferðinni á Reykjanesbrautinni eftir að hún var tvöfölduð fyrir tæpum tveimur árum síðan. Þetta segir Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Keflavík.

Sjö mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn tveimur telpum

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag karlmann í sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn tveimur telpum. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa ítrekað nuddað kynfæri tveggja stúlkna, um 6 ára og 8 ára, innan klæða þeirra. Brotin áttu sér stað á heimilum telpnanna og í bíl mannsins. Maðurinn játaði brot sín. Sálfræðingur sem haft hefur stúlkurnar í meðferð bar fyrir dómi að sú yngri væri að mestu búin að jafna sig eftir brotin en sú eldri þyrfti frekari meðferðar við. Stúlkunum voru dæmdar bætur, þeirri eldri 250 þúsund krónur og þeirri yngri 150 þúsund auk þess sem ákærða var gert að greiða sakarkostnað, um hálfa milljón.

Pútín hefnir fyrir morð rússneskra sendifulltrúa

Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, hefur skipað öryggislögreglu landsins að hafa upp á morðingjum fjögurra Rússa sem rænt var í Írak. Forsetinn hefur, að sögn rússnesku fréttastofunnar Interfax, skipað lögreglumönnunum að myrða þá. Rússunum, sem voru sendifulltrúar í Bagdad, var rænt fyrir mánuði síðan og í þessari viku birti hópur, tengdur al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum, myndbandsupptöku á vefnum sem sýnir morð þriggja þeirra. Rússar hafa staðfest að mennirnir fjórir hafi allir verið myrtir.

ESB hraðar viðræðum við Króatíu

Evrópusambandið ákvað í dag að hraða aðildarviðræðum við Króatíu en ekki Tyrkland. Ítarlegar viðræður um samkeppnismál fara nú fram við fulltrúa beggja ríkja en aðeins verður rætt um tollamál við Króata þar sem Evrópuráðið hefur ekki lokið við að bera tollalög Tyrkja saman við lög Sambandsins. Það sem torveldar málið einnig er að stjórnvöld í Ankara hafa ekki viljað leyfa siglingar eða flug frá Kýpur til Tyrklands.

Mikil uppbygging á Hvanneyri

Aðsókn í nám við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri stóreykst. Á næsta skólaári verða nemendur um 300 og er ljóst að Nemendagarðar skólans munu yfirfyllast. Stjórn Nemendagarðanna hefur því ákveðið að fara út í framkvæmdir og stefnt er að rúmlega tvöföldun leigurýma á næstu tveimur árum. Fjárfestingarkostnaður vegna nýs húsnæðis á staðnum verður á annan milljarð króna næstu 2-3 ár.

Afhentu staðgenglum ráðherra áskorun

Háskólamenntaðir starfsmenn hjá Svæðisskrifstofum um málefni fatlaðra afhentu í morgun staðgenglum fjármála- og félagsmálaráðherra áskorun um að tryggja nægilegt fjármagn svo hægt sé að ganga til samninga við gerð stofnanasamninga milli BHM og svæðiskrifstofanna.

Sýknaður af að hafa ráðist á stúlku

Karlmaður var sýknaður af ákæru um líkamsárás fyrir héraðsdómi Reykjaness í morgun. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa ráðist á stúlku í bíl sínum, snúa upp á hönd hennar, skella henni í malbik og kýla hana í magann. Maðurinn var vinur móður stúlkunnar. Stúlkan ber að hann hafi ráðist á hana og þvingað hana inn í bíl sinn. Maðurinn ber hins vegar að hann hafi farið til að ræða við stúlkuna þar sem móðir hennar hafi lýst áhyggjum sínum af henni við manninn um morguninn. Hann hafi ekki þvingað stúlkuna inn í bíl sinn en hún hafi ekki viljað tala við hann og hafið að skaða sjálfa sig og síðar hann. Framburður ákærða þótti sannfærandi og sjálfum sér samkvæmur en framburður stúlkunnar óljós á köflum. Dómi fannst því ákæruvaldinu ekki hafa tekist að sanna sekt mannsins.

Ferjulægi í Bakkafjöru til að bæta samgöngur við Vestmannaeyjar

Ferjulægi í Bakkafjöru verður tekið í notkun árið 2010 ef tillögur Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra ná fram að ganga. Siglingatími milli lands og eyja verður þá aðeins um hálftími. Sturla kynnti tillögur sínar á ríkisstjórnarfundi í gær.

Deilur um aðgerðir gegn mávum

Meirihluti umhverfisráðs Reykjavíkurborgar ætlar að koma á aðgerðum til að fækka sílamávum í borginni. Fulltrúar minnihlutans segja fyrirhugaðar aðgerðir örvæntingarfulla tilraun til að láta eftir sér taka við stjórnarskiptin. Gísli Marteinn Baldursson formaður umhverfisráðs Reykjavíkur segir kvartanir vegna varfugla hafa verið það margar úr öllum borgarhlutum að það væri ábyrgðaleysi að bregast ekki skjótt við.

Fjölbreytt eignarhald í fjölmiðlum

Stjórnarformaður útgáfufélags Morgunblaðsins eignaðist hlut í útgáfufélagi Fréttablaðsins, í Matador íslenska viðskiptalífsins í gær. Í sama snúningi eignaðist FL Group, sem á í útgáfufélagi Fréttablaðsins, hlut í útgáfufélagi Morgunblaðsins.

Öryggisreglum í sundlauginni ábótavant

Líðan þeirra sem urðu fyrir eitrun í klórgasslysinu í sundlauginni á Eskifirði í gær er eftir atvikum. Vinnueftirlitið segir öryggisreglum í sundlauginni hafa verið ábótavant.

Eddie látinn

Hundurinn Moose sem lék Eddie í gamanþáttunum um Frasier er látinn. Moose kom fram í fyrsta þætti Frasier og alla tíð síðan, alls kom hann fram í 192 þáttum. Persóna Eddies í þáttunum var gríðarlega vinsæl og á tímabili fékk Moose fleiri aðdáendabréf en samleikarar hans. Mathilde Halberg, þjálfari Moose, segir hann hafa haft gríðarlega persónutöfra og að hans verði sárt saknað. John Mahoney sem leikur Marty Crane, föður Frasiers og eiganda Eddie, lýsti hundinum eitt sinn sem sönnum fagmanni. Harðduglegum leikara sem eyddi miklum tíma í að læra brögðin sín. Moose dó úr elli, rúmlega sextán ára.

Ísraelsher réðist inn á Gaza

Ísraelsher réðist inn í suðurhluta Gaza-svæðisins í gærkvöldi til að reyna að frelsa ísraelskan hermann sem hefur verið í gíslingu herskárra Palestínumanna frá því á sunnudag. Abbas, forseti Palestínu, segir innrásina stríðsglæp.

Paroubek víkur úr forsætisráðherraembættinu

Jiri Paroubek, forsætisráðherra Tékklands og leiðtogi vinstrimanna þar í landi, tilkynnti í dag að hann hefði ákveðið að víkja úr embætti í næstu viku. Þar með getur Vaclav Klaus, forseti, útnefnt Mirek Topolanke, leiðtoga hægrimanna, í embætti forsætisráðherra. Flokkur Topolanke vann sigur í þingkosningum í byrjun mánaðarins. Bandalag þriggja hægri flokka hefur þó ekki hreinan meirihluta heldur hundrað þingsæti af tvö hundruð og þarf því að treysta á stuðnings minnst eins þingmanns úr öðrum flokki.

Samruni Dagsbrúnar og Senu ólögmætur

Samkeppniseftirlitið tilkynnti Dagsbrún í gærkvöld að samruni þess fyrirtækis og Senu væri ólögmætur og yrði ógiltur. Virðist helst vísað til markaðsráðandi stöðu Dagsbrúnar á áskriftarsjónvarpsmarkaði. Stjórn Dagsbrúnar ætlar ekki að una þessum úrskurði og mun, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar nú laust fyrir hádegi, skjóta málinu til Áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Sena var áður afþreyingarsvið Skífunnar og rekur meðal annars verslanir með tónlistarefni og tölvuleiki ásamt kvikmyndahúsum. Dagsbrún rekur meðal annars sjónvarpsstöðina NFS.

Bilaður bátur í togi

Bátur bilaði suðvestur af Stafnnesi í morgun. Bátur svipaður að stærð var rétt hjá en til að flýta fyrir þar sem farið var að kula náðist í stærri bát sem nú er kominn með þann bilaða í tog á leið til Sandgerðis. Þeir eru líklega rétt ókomnir.

Lík beggja stúlknanna fundin

Belgíska lögreglan hefur staðfest að lík beggja stúlknanna sem rænt var fyrr í mánuðinum hafi fundist. Stúlkurnar voru stjúpsystur, 7 og 10 ára, en þær hurfu frá borginni Liege 10. júní síðastliðinn. Karlmaður, sem grunaður er um að hafa átt þátt í hvarfi stúlknanna, gaf sig fram við lögreglu fyrir hálfum mánuði. Sá hefur tvívegis verið dæmdur fyrir að misnota börn. Lögregla fann stúlkurnar án upplýsinga frá manninum en hann heldur fram sakleysi sínu.

Tamíl-tígrar réðust á tvö skip

Skæruliðar Tamíl-tígra réðust í morgun á tvö skip stjórnarhersins á Sri Lanka. Kveikt var í öðru þeirra. Um sjö hundruð manns hafa fallið í átökum í landinu frá áramótum en vopnahléssamkomulag er enn í gildi. Óttast er að átök síðustu vikna eigi eftir að valda borgarastyrjöld enn á ný.

Þrír handteknir í tengslum við slys í sýningarhöll í Póllandi

Þrír menn hafa verið handteknir vegna mannskæðs slyss í sýningarhöll í Póllandi í janúar. Sextíu og fimm létust og hundrað og fjörutíu slösuðust þegar þak hallarinnar, sem er í bænum Katowice, hrundi undan snjóþunga. Fimm hundruð manns voru í höllinni þegar slysið varð.

Starfsmenn svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra ósáttir við kjör sín

Háskólamenntaðir starfsmenn hjá svæðisskrifstofum um málefni fatlaðra íhuga nú uppsagnir þar sem ekkert hefur þokast í kjaraviðræðum þeirra við ríkið. Þeir vilja sambærileg kjör og fólk í sambærilegum störfum hjá borginni og afhentu yfirvöldum áskorun vegna deilunnar nú klukkan níu.

Konan sveik út úr tryggingum með hjálp sonar síns, tengdadóttur og 20 annarra

Konan sem er sökuð um að hafa svikið 75 milljónir út úr Tryggingastofnun er á fimmtugsaldri og hafði unnið sem þjónustufulltrúi í Þjónustumiðstöð stofnunarinnar í yfir 20 ár. Sonur konunnar og tengdadóttir sitja einnig í gæsluvarðhaldi. Alls tengjast um 20 manns málinu sem gæti verið eitt stærsta tryggingasvindl Íslandssögunnar.

Fallhlífastökkvari fótbrotnaði í lendingu

Fallhlífastökkvari fótbrotnaði í harkalegri lendingu á Helluflugvelli í gærkvöldi og var fluttur með sjúkrabíl á Slysadeild Landsspítalans. Hann var við æfingar ásamt félögum sínum úr Fallhlífaklúbbi Reykjavíkur, og voru aðstæður góðar, að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli.

Hraðakstur á Reykjanesbraut

Ekkert lát er á hraðakstri á Reykjanesbraut, sem hefur færst mjög í vöxt. Tveir ökumenn voru stöðvaðir þar í gærkvöldi eftir að hafa mælst á 150 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90. Fimm til viðbótar voru teknir með stuttu millibili, en þeir óku heldur hægar.

Boranir í nágrenni Húsavíkur

Boraðar verða þrjár háhitaholur á Kröflusvæðinu og þeystareykjasvæðinu fyrir rúmlega hálfan milljarð króna í sumar vegna hugsanlegs álvers við Húsavík. Húsnæðisverð hefur hækkað í Húsavík og Alcoa hefur ráðið kynningarfulltrúa fyrir svæðið.

Samtök herstöðvaandstæðinga mótmæla æfingum Rússa

Miðnefnd Samtaka herstöðvaandstæðinga gagnrýnir harðlega boðaðar æfingar rússneskra herskipa í grennd við Ísland í haust. Í tilkynningu frá samtökunum segir að æfingar af þessu tagi þjóni engu uppbyggilegu hlutverki og þeim fylgi ýmsar hættur þar sem kjarnorkuknúin skip verði að öllum líkindum með í för. Samtökin ítreka einnig þá kröfu sína að látið verði af svonefndum kurteisisheimsóknum erlendra herskipa í íslenskar hafnir.

Brotthvarf japanskra hermanna frá Írak

Brotthvarf japanskra hermanna frá Írak heldur áfram. Það hófst á sunnudaginn þegar hluti japanska heraflans fór frá Suður-Írak yfir til Kúvæt. Í morgun mátti sjá nokkra vöruflutningabíla flytja búnað yfir landamærin. Sex hundruð japanskir hermenn hafa einungis sinnt hjálparstarfi í borginni Samawah í Suður-Írak síðan 2004. Þeir sinntu vegagerð, byggingu húsa og tóku þátt í að styrkja heilbrigðisþjónustu og hreinsa vatn í borginni. Óttast var um öryggi hermannanna þó friður væri á svæðinu. Enginn japanskur hermaður hefur fallið í Írak.

Óeirðir í Austur-Tímor í nótt

Óeirðir í Dili, höfuðborg Austur-Tímor, í nótt benda til þess að hættuástand þar í landi sé ekki liðið hjá þó Mari Alkatiri, forsætisráðherra, hafi sagt af sér fyrr í vikunni. Hópar ungmenna létu grjóthnullungum rigna yfir búðir þar sem flóttamenn halda til og lögðu eld að fjölmörgum húsum víðsvegar um borgina. Ástralskir friðargæsluliðar hröktu um hundrað óeirðaseggi frá flóttamannabúðunum. Ekki er vitað hvort nokkur særðist.

Uppsveiflu lokið segir KB banki

Uppsveiflunni, sem hófst í ársbyrjun árið 2003 er nú lokið, að mati KB banka, sem styðst þar við væntingavísitölu Gallups, sem mælist nú rétt rúmlega hundrað stig, þriðja mánuðinn í röð. Þegar hún mælist hundrað, eru jafn margir neytendur jákvæðir og neikvæðir á aðstæður í efnahags- og atvinnumálum. Í fyrravetur mældist væntingavísiltalan 130 stig, en er nú fallin niður í hundrað, eða það sama og hún var við upphaf uppsveiflunnar árið 2003.

Ísraelsher ræðst inn á Gaza-svæðið

Ísraelsher hefur tekið sér stöðu við Rafah á suður hluta Gaza-svæðisins. Herinn réðst inn á Gaza seint í gærkvöldi með það fyrir augum að frelsa ungan, ísraelskan hermann sem hefur verið í haldi herskárra Palestínumanna síðan á sunnudaginn.

Mengunarslys á Eskifirði í rannsókn

Vinnueftirlitið, lögregla og fleiri vinna enn að rannsókn mengunarslyssins á Eskifriði í gær þegar eitrað gas náði til sundlaugargesta og um 30 veiktust. Eftir því sem Fréttastofan kemst næst er líðan þeirra fjögurra, sem fluttir voru flugleiðis á sjúkrahús í Reykjavík og þeirra tveggja sem fluttir voru til Akureyrar eftir atvikum. Um 10 manns dvöldu á sjúkrahúsinu í Neskaupstað í nótt, þar sem fylgst var með líðan þeirra til öryggis.

Friður um Straum

Friður skapast væntanlega í stjórn Straums-Burðaráss eftir að FL Group gekk í gærkvöldi frá kaupum á rúmlega 24% hlut þeirra Magnúsar Kristinssonar og Kristins Björnssonar í bankanum fyrir 47 milljarða króna.

Lækka lán og fresta framkvæmdum

Ríkisstjórnin ætlar að draga úr þenslu og minnka verðbólgu með því að lækka lánshlutfall og hámarkslán Íbúðalánasjóðs, fresta nýjum framkvæmdum og fá sveitarfélögin til að draga úr nýjum fjárfestingum á þessu ári og næsta.

Fjárbóndi drap dýrbíta og var laminn

Tveir hundar voru skotnir við bæinn Holt í Svínadal, eftir að þeir höfðu drepið fimmtán lömb í æði. Eigandi annars hundsins lagði hendur á búfjáreigandann sem segir sig sáran eftir. Hann hefur kært árásina til lögreglu.

Viðskipti fyrir 47 milljarða

FL Group festi í gær kaup á 24,2 prósenta hlut í Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf., en seljendur eru að stærstum hluta Magnús Kristinsson og Kristinn Björnsson.

Vekja reiði hjá fólki

Ögmundi Jónassyni þingmanni finnst afleitt að lánshlutfall Íbúðalánasjóðs verði lækkað, því að það bitni á þeim sem séu að festa kaup á sínu fyrsta húsnæði. "Þetta er fráleit ráðstöfun," segir Ögmundur, "og vekur fyrst og fremst reiði hjá fólki".

Sjá næstu 50 fréttir