Innlent

Ríkið sýknað af bótakröfu

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði ríkið af skaðabótakröfu konu á þrítugsaldri. Konan varð fyrir líkamstjóni á heimili sínu árið 2002. Fyrrum sambýlismaður hennar braust inn í íbúð hennar og svo inn í svefnherbergi hennar. Í átökum milli þeirra skall hún í gólfið og brotnaði bátsbein í hönd hennar. Tjón hennar hefur verið metið til 20% örorku.

Fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra var maðurinn dæmdur fyrir húsbrot en ekki fyrir líkamsárás þar sem ekki þótti sannað að áverkar konunnar hefðu verið ætlunarverk. Konan sótti þá mál á hendur ríkinu til að fá bætur fyrir það líkamstjón sem maðurinn olli henni af gáleysi sínu, ef ekki ásetningi. Ríkið bar hins vegar að konan hefði átt að stefna manninum sjálfum til greiðslu skaðabóta fyrir þann skaða sem hann hafi valdið henni. Dómurinn vísaði til þess að ríkið þarf aðeins að greiða bætur til fórnarlamba afbrota, fólks sem hefur orðið fyrir tjóni vegna brota á hegningarlögum. Maðurinn hafi hins vegar ekki gerst brotlegur við hegningarlög samkvæmt dómi í héraði og því bæri ríkinu ekki að greiða konunni bætur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×