Upp­gjörið: Þór Þ - Kefla­vík 78 - 98 | Keflavíkurhraðlestin brunaði heim með öll stigin

Magnús S. Guðmundsson skrifar
kef villi
VÍSIR/VILHELM

Keflvíkingar fylgdu eftir sigri á Stólunum á mánudaginn með endurkomusigri á Þórsurum í Þorlákshöfninni í Bónusdeild karla í körfubolta í kvöld. 

Þórsarar voru níu stigum yfir í hálfleik en Keflavíkurliðið vann seinni hálfleikinn með 29 stigum og þar með leikinn með tuttugu stigum, 98-78. Remy Martin skoraði 21 stig fyrir Keflavík í kvöld þar af fjórtán þeirra í seinni hálfleiknum.

Heimamenn í Þór hafa verið að skrapa botninn á stöðutöflunni og sjálfstraustið verið eftir því. Þeir mættu til leiks með skottið á milli lappana eftir þrjá tap leiki í röð. Þeir hafa sýnt lipra spretti í vetur en vöntun hefur verið á stöðugleika.

Keflvíkingar sátu í fimmta sæti í deildinni fyrir leikinn. Þeir mættu upplitsdjarfir eftir sigur á Stólunum í síðustu umferð. Sá sigur var góður fyrir sjálfstraustið sem var laskað eftir þriggja leikja taphrinu. Á móti Tindastóli mættu Keflvíkingar brjálaðir til leiks og settu 26 stig í fyrsta leikhluta. Stólarnir gátu ekki stöðvað Egor Koulechov sem setti hvorki meira né minna en 29 stig. Spurningin var hvort þeir myndu leggja upp með sama leikskipulag á móti Þórsurum og hvernig Þórsarar ætluðu sér að stöðva Egor.

Réðu ekkert við Ross

Leikurinn byrjaði með krafti. Heimamenn voru á undan í flestum aðgerðum í fyrsta leikhluta og vörn Keflvíkinga réð ekkert við Jacoby Ross. Hann fíflaði Keflvíkinga með lipurri fótavinnu og kom sér í góða skotstöðu aftur og aftur. Heimamenn leiddu við lok fyrsta leikhluta með fimm stigum.

Í öðrum leikhluta hélt Jacoby Ross áfram að draga Þorlákshafnarlestina áfram. Hann raðaði niður stigunum og Keflvíkingar fundu enga lausn til að stöðva hann. 

Vindáttin snerist 

Vindáttin snerist þó fljótt og skyndilega voru Keflvíkingar orðnir sterkari aðilinn. Remy Martin dripplaði vel og dældi boltanum í allar áttir. Craig Moller og Jaka Brodnik komu sér vel inn í leikinn en Þórsarar svöruðu oftast um hæl. Keflvíkingurinn Egor Koulechov var farþegi í fyrri hálfleik og voru Þórsarar með hann á lás.

Þegar hálfleiks flautið gall var staðan 51-42 heimamönnum í vil.

Í seinni hálfleik fór vindurinn að aukast í seglum Keflvíkinga og morgun ljóst að þjálfarinn Daníel Guðni hafi lesið yfir hausamótunum á sínum mönnum. Sú eldræða hafði virkað því liðið kom miklu grimmara til leiks. 

Heimamenn fuku út á haf

Á sama tíma sá maður trú Þórsara fjúka á haf út. Þeir fóru að taka ótímabær skot og á stórum kafla fór hreinlega engin skot niður. Keflvíkingar lokuðu á Jacoby Ross og það vantaði einhvern leiðtoga innan vallar til að öskra leikmenn áfram.

Remy Martin hafði reimað á sig balletskónna hinum meginn og dripplaði boltanum eins og listamaður. Hann dreifði spilinu í allar áttir og liðsfélagar hans þökkuðu traustið með því að hitta vel. 

Algjört hrun undir lokin

Forskot Þórsarar gufaði upp seint í þriðja leikhluta og við það sá maður eymdina í augum heimamanna. Menn voru ekki beygðir heldur brotnir. 

Jacoby Ross var farinn að hengja haus og það vantaði allt hungur í Þórsara. Þrátt fyrir það þá var þetta ennþá leikur. Keflavík leiddi með þremur stigum þegar fjórði leikhluti var flautaður á.

Keflvíkingar voru komnir með blóð á tennurnar og ætluðu sér að éta særða bráðina. Þeir keyrðu af miklum krafti á heimamenn í síðasta leikhluta og hrunið var algjört. Það sést best á tölfræðiblöðunum. Keflavík skoraði 33 stig í síðasta leikhluta meðan Þór skoruðu aðeins 15 stig.

Góðs viti fyrir Keflvíkinga en Þórsarar síga niður töfluna 

Lokastaðan tuttugu stiga sigur Keflvíkinga og Þórsarar sökkva enn neðar í fallslaginn.

Þessi leikur staðfestir að Keflvíkingar geta haldið dampi og snúið leikjum sér í hag þrátt fyrir að byrja illa. Þeir sýndu þann karakter sem oft þarf til að vinna erfiða útileiki.

Atvik leiksins

Það er hægt að kenna mönnum körfubolta en það er erfitt að kenna þeim leiðtogahæfni. Í mótlæti þarf oft að finna kraft og það gerðu Keflvíkingar í seinni hálfleik. Þeir öskruðu hvorn annan áfram og Remy Martin tók ábyrgðina á sínar herðar.

Atvik leiksins er hrun Þórsara í lok þriðja leikhluta og það sem eftir leið leiks. Þeir verða að girða sig og einhver leikmaður þarf að taka að sér leiðtogahlutverkið.

Stjörnur og skúrkar

Jacoby Ross var frábær í fyrri hálfleik, setti 18 stig, og fær stjörnustimpil fyrir það. Ég ætla þó að smella líka á hann skúrkastimplinum fyrir seinni hálfleikinn. Þegar á reyndi þá missti kappinn trú á eigið ágæti og hengdi haus eins og smábarn. Hann skoraði 4 stig í seinni hálfleik og var algjörlega vindlaus. Djordje Dzeletovic á hrós skilið fyrir vasklega frammistöðu.

Í liði Keflavíkur voru stjörnurnar margar. Remy Martin og Craig Moller voru stórkostlegir og skoruðu 21 stig hvor. Mirza Bulic fylgdi fast á hæla þeirra og skoraði 17 stig.

Dómararnir

Tríóið í kvöld skipuðu: Bjarki Þór Davíðsson, Jóhannes Páll Friðriksson og Daníel Steingrímsson. Þjálfarar beggja liða létu þá heyra það og kölluðu eftir að skýrari línu. Fannst þeir eiga sitt hvað til síns máls.

Stemmning og umgjörð

Þorlákshafnarbúar svöruðu kallinu um breyttan leik tíma og fjölmenntu í stúkuna. Atvinnulífið í bænum hefur skellt fyrr í lás til að gefa íbúum færi á að fjölmenna í stúkuna.

Viðtöl

Lárus Jónsson þjálfari Þórs var niðurlútur í lok leiks. Hann var ánægður með sína menn í fyrri hálfleik en aðspurður sagði hann:

„Mér fannst eins og þegar kom smá mótlæti þá koðnuðu menn niður. Við vorum ekki að hitta í þriðja leikhluta og það smitaðist niður í baráttu í vörninni. Þá sérstaklega frákastalega“.

Hann var ánægður með fyrri hálfleikinn hjá Jacoby Ross og hrósaði honum fyrir þá frammistöðu. Lárus sagði að hans menn hefðu fengið nokkur góð skot í þriðja leikhluta en þau duttu ekki ofan í og við það bognuðu hans menn.

„Svo setti Remy Martin einn þrist og þá var eins og sjálfstraustið hafi einfaldlega verið of lítið. Við hefðum þurft að byrja þriðja leikhluta vel og þá hefði þetta getað orðið allt öðruvísi leikur“.

Fyrir leik hafði flogið sú fiskisaga að Þórsarar væru búnir að landa Kananum Jachon Burke ef marka mætti heimasíðu Körfuknattleikssambandsins. Lárus vildi fyrir leik ekkert kannast við þessa sögu en undirritaður saumaði meira að honum í lok leiks. Lalli hélt sig við fyrri svör

„Er hann í leikmannahópi Þórs? Við erum með einn nýjan leikmann í hópnum og þið getið tjékkað bara á honum. Það er hann Haukur Davíðs sem kemur frá Kanada“.

Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari Keflavíkur var pollrólegur í lok leiks og sáttur með sína menn. Aðspurður sagði hann:

„Ég var virkilega ánægður með mína menn í seinni hálfleik. Við vorum í undarlegri holu í fyrri hálfleik. Við vorum soldið langt frá þeim varnarlega og þeim leið vel í því sem þeir voru að gera. Þeir hittu vel og voru komnir með yfir 50 stig í fyrri hálfleik og það var ekki planið“.

Hann sagðist vera ánægður með framlagið úr öllum áttum í seinni hálfleik. Aðspurður sagði hann að þeir hefðu rætt ákveðnar hugmyndir í hálfleik. Hefðu ákveðið að aðlaga aðeins varnarleikinn, vera nær og ögn grimmari.

„Við ræddum að gera þetta af aðeins meiri ákefð. Ef við gerum það þá erum við dáldið góðir í vörn. Ef ekki þá lítur þetta oft dáldið kjánalega út“.

Daníel sagðist vera ánægður með Craig Moller í leiknum sem fyrr og að liðsheildin hafi verið sterk. Aðspurður út í frammistöðu Remy Martin í leiknum sagði Daníel:

„Okkur gekk betur að komast í takt núna sem lið. Remy leið betur á gólfinu, veit hvar hann hefur liðsfélaga sína og hvernig þeir eru að spila. Hann er búinn að vera hjá okkur í þrjár vikur og þetta er allt á réttri leið“.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira