Skoðun

Lýðræðis­veisla

Guðný Birna Guðmundsdóttir skrifar

Á morgun, þann 24. janúar fer fram flokksval Samfylkingar í Reykjavík. Flokksvalið er bindandi fyrir sex efstu sætin með paralista. Það eru 17 manns sem gefa kost á sér í sex efstu sætin og því barátta um hvert sæti og sannkölluð lýðræðisveisla fram undan.

Kosningin verður rafræn frá 24:00 – 18:00 á laugardaginn en þau sem hafa rétt til að kjósa eru allir flokksfélagar Samfylkingar sem eru orðin 16 ára og búsett í Reykjavík.

Ljóst er að áhuginn á Samfylkingunni er mikill en skrásetningarkerfið átti erfitt með að hafa undan í gær. Á undanförnum tveimur mánuðum hefur flokksfélögum fjölgað um tæpa 3.000 manns eða 72%.

Það er gleðilegt að sjá þennan mikla áhuga á Samfylkingunni og á sveitarstjórnarkosningunum fram undan.

Það skiptir miklu máli að framboðslistar til sveitastjórna séu fjölbreyttir og að við fáum gott fólk með hugsjón til að vinna að markmiðum jafnaðarstefnunnar okkar. Framboðslistar ættu að endurspegla fólkið í samfélaginu með ólíka reynslu og skoðanir. Þannig náum við breidd og ólíkum röddum við borðið á mismunandi aldri, úr mismunandi hverfum og svo mætti lengi áfram telja.

Kæru Reykvíkingar, ég vil hvetja alla skráða flokksfélaga að nýta atkvæðið sitt og kjósa þann fulltrúa sem þið viljið leggja ykkar traust á í komandi kosningum og leggja sitt af mörkum við að móta Reykjavík til framtíðar.

Höfundur er ritari Samfylkingarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×