Upp­gjör: Tindstóll-Njarðvík 113-92 | Stólarnir léku sér að Njarðvíkingum

Arnar Skúli Atlason skrifar
Ivan Gavrilovic skoraði 23 stig á 21 minútu í leiknum í Síkinu í kvöld.
Ivan Gavrilovic skoraði 23 stig á 21 minútu í leiknum í Síkinu í kvöld. Vísir/Anton

Tindastóll vann afar öruggan og sannfærandi 21 stigs sigur á varnarlitlum Njarðvíkingum, 113-92, í Bónusdeild karla í körfubolta í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. 

Stólarnir skoruðu 40 stig í fyrsta leikhlutanum og voru komnir 26 stigum yfir í hálfleik, 64-38. 

Taiwo Badmus (23), Ivan Gavrilovic (23), Dedrick Basile (20) og Sigtryggur Arnar Björnsson (20) skoruðu allir yfir tuttugu stig í kvöld. Þetta var fimmta tap Njarðvíkinga í síðustu sex leikjum og fjórða tapið í röð á útivelli.

Tindastóll byrjaði leikinn af miklum krafti og stungu af í upphafi leiks. Allir voru að leggja í púkkið og hitinn var með eindæmum góð. Hjá Njarðvík var að eiga mjög erfiðan dag bæði varnarlega og hitinn var slök. Tindastóll gjörsamlega kafsigldi Njarðvík í fyrri hálfleik og leiddu stöðuna 64-38.

Sama var uppi á teningnum í seinni hálfleiknum, Tindastóll var miklu betri og Njarðvík komst lítið áleiðis. Áfram héldu Tindastóll skotsýningu en Njarðvík átti töluvert erfiðara með að skora. Seinni hálfleikurinn leið án þess að verða spennandi og Tindastóll fór með öruggan sigur af hólmi 113-92.

Atvik leiksins

Þetta var fyrsti leikhluti þessa leiks. Tindastóll skoraði að vild og leikurinn var búinn eftir 10 mínútur.

Stjörnur

Hjá Tindastól skoruðu þeir Ivan Gavrilovic og Taiwo Badmus sitthvor 23 stigin og Dedrick Basile og Sigtryggur Arnar með 20 stig en allir leikmenn Tindastóls sem sáu gólfið í kvöld stóðu sig frábærlega.

Dómararnir

Topp frammistaða hjá strákunum á flautunni, enda ekki erfiður leikur að dæma. Þeir gáfu tæknivíti þegar það átti við og línan söm allan leikinn.

Stemmingin og umgjörð

Það var gott að vera í Síkinu í kvöld. Stuðningsmenn frá Njarðvík sem hefðu viljað fá aðeins meira frá sínum mönnum og heimamenn mannaðir upp í rjáfur.

Arnar Guðjónsson er þjálfari Tindastóls.vísir/Anton

„Við tékkuðum verðmiðann á honum“

Arnar Guðjónsson, þjálfari Tindastóls, var sáttur með frammistöðuna í kvöld.

„Ég er mjög ánægður. Mér fannst orkustigið mjög gott. Mér fannst ákefðin í því sem við gerðum og samspilið var mjög gott. Mér fannst við góðir allan tímann í dag,“ sagði Arnar.

Tindastóll keyrði af stað í upphafi leiks og vann leikinn í dag sem er ekki alltaf búið að vera í vetur.

„Við náðum að æfa góðar 20 mínútur í gær og komum inn í leikinn í dag,“ sagði Arnar.

Mikið var ritað um Justin James og að hann væri á leið til Tindastóls en Arnar hugsaði aldrei um að taka hann.

„Nei, við tékkuðum verðmiðann á honum eins og maður gerir alltaf þegar maður fær senda einhverja leikmenn og athugar hvað þeir kosta,“ sagði Arnar.

Hjalti Vilhjálmsson þjálfari Álftaness vildi meina fyrir viku síðan að Justin James væri á leiðinni í Tindastól.

„Ég ætla ekki að tjá mig um það. Hann er búinn að biðjast afsökunar. Það segir allt sem segja þarf. Ég nenni ekki að tala um þetta. Við erum með tólf gaura og þrettán með Hannesi, svona er þetta og áfram gakk. Ég hef ekki meira um þetta að segja. Það er búið að biðjast afsökunar,“ sagði Arnar.

Rúnar Ingi Erlingsson er þjálfari Njarðvíkinga.Vísir/Anton

„Þetta var erfitt kvöld fyrir okkur“

Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, var ekki sáttur með frammistöðuna heilt yfir í kvöld.

„Þetta var erfitt kvöld fyrir okkur. Við vorum búnir að tala við ákefð og baráttu. Ég nefndi það við þig fyrir leik í kvöld. En Tindastóll var skrefi framar á öllum þessum sviðum strax í fyrsta leikhluta. Þeir klára þetta á fyrstu 10. mínútunum. Þeir eru 40-20 yfir eftir fyrstu 10. mínúturnar og þar sem við erum eftir nánast allan tímann. Þeir fá galopin skot um allan völl og það er ekki uppskriftin til að vinna hérna í kvöld,“ sagði Rúnar Ingi.

Það er erfitt að vera undir með tuttugu stigum eftir fyrsta leikhlutann og leikplanið farið út um gluggann en Rúnar fór í saumana á þessu.

Það er erfitt að vera undir með 20 stigum eftir fyrsta leikhlutann og leikplanið farið út um gluggann en Rúnar fór í saumana á þessu.

„Eftir fyrsta leikhlutann þá snýst þetta um að koma inn með baráttu og vera nær mönnum og klukka þá, tilbúnir að taka villur til að stoppa hraðann á þeim. Að sama skapi þarf að vera klókir að sækja á körfuna og slútta okkar sóknum svo við séum ekki að gefa endalaust af hraðaupphlaups stigum í bakið á okkur,“ sagði Rúnar 

„Þegar þú ert kominn í 20 stiga mun og færð svo á þig 2-3 körfur og munurinn er orðinn 25 stig. Þá er bara holan orðin helvíti djúp. Við erum þannig lið líka að við þurfum að byrja leikina vel. Við þurfum að búa okkur til þessa orku. Við erum með öðruvísi tegundir af leikmönnum sem koma inn af bekknum. Sumar aðstæður eru mjög erfiðar og aðrar eru þægilegri fyrir okkur. Við vorum í erfiðu aðstæðunum í dag,“ sagði Rúnar.

Njarðvíkingar hafa verið að gera breytingar á liðinu sínu en Rúnar á ekki von á því að þeir geri breytingar á sínu liði áður en glugginn lokar.

„Ekki svo ég viti til að verða breytingar á leikmannahópnum. Við förum í ákveðnar breytingar. Við erum enn að díla við það að Mario Matasovic sé ekki með okkur. Það er ekki hægt að fá mann í hans stað sem myndi skila okkur því sem að hann gefur okkur. Ég vildi óska þess að við myndum finna einhverja fjarsjóði suður með sjó til þess að geta fengið aðeins aðstoð,“ sagði Rúnar.

„Við erum með fullt af strákum sem eru tilbúnir að leggja fullt á sig. Við þurfum að koma inn klókari en við vorum í dag. Varnarlega var planið mitt sem misheppnaðist. Ég skal taka það á mig. Við vorum að reyna að fela Milka en Arnar gerði vel. En á sama skapi þá virkar þetta plan aldrei, hvort sem það er á móti Arnari eða öðrum, ef það er ekki gert á fullu og baráttan og viljinn sé til staðar. Við þurfum að kafa djúpt. Það er Álftanes eftir viku heima og það eru risastór 2 stig sem við verðum að taka,“ sagði Rúnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira