Upp­gjörið: Kefla­vík - Ár­mann 93-102 | Ár­menningar unnu í Kefla­vík

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Bragi Guðmundsson og félagar í Ármanni eru búnir að vinna tvo leiki í röð.
Bragi Guðmundsson og félagar í Ármanni eru búnir að vinna tvo leiki í röð. Vísir/Hulda Margrét

Þeir sem voru búnir að afkrifa Ármenninga þurfa að fara að endurskoða það. Nýliðarnir unnu Val í síðustu umferð og fylgdu því eftir með 102-93 sigri í Keflavík í kvöld. 

Þetta var fyrsti útisigur Ármenninga á leiktíðinni eftir tap í sjö fyrstu útileikjunum. Keflvíkingar endurheimtu Remy Martin úr meiðslum en töpuðu í fyrsta sinn á heimavelli í vetur. Daniel Love skoraði 27 stig fyrir Ármann og Bragi Guðmundsson var með 23 stig.

Leikurinn fór fjörlega af stað og voru það gestirnir í Ármann sem áttu fyrstu stig leiksins og mátti sjá strax mikinn kraft í þeirra liði. Þeir mættu með kassan út og létu Keflvíkinga hafa vel fyrir sínu í upphafi leiks.

Þessi kraftur í Ármenningum virtist slá Keflvíkinga eitthvað útaf laginu en á meðan skotin voru að detta fyrir gestina var lítið að ganga fyrir heimamenn. Ármann leiddi eftir fyrsta leikhluta 19-28.

Keflavík mætti með örlítið meiri krafti út í annan leikhluta en Ármenningar létu þó engann bilbug á sér finna og héldu sínu striki.

Keflavík fékk fullt af tækifærum til þess að saxa á forskot gestana en skotin voru bara ekki að detta fyrir þá. Í hvert sinn sem Keflavík gerði sig líklega til þess að fara gera þetta að jafnari leik mættu Ármenningar með stór skot og sóttu forskotið aftur.

Ármann náði mest tólf stiga forskoti í öðrum leikhluta og fóru einmitt með þá forystu inn í hálfleikinn 43-55.

Keflavík mætti með krafti út í seinni hálfleikinn og byrjaði strax að saxa á forskot gestana sem gerðu þó vel að halda haus og halda Keflvíkingum í hæfilegri fjarlægð.

Heimamenn náðu mest að minnka forskotið niður í fjögur stig en aftur fóru stóru skotin þá að detta fyrir gestina og þeir náðu að koma muninum upp í átta stig fyrir lok leikhlutans 71-79.

Eins og við mátti búast varð spennan mikil og baráttan meiri í fjórða leikhluta. Gestirnir úr Laugardalnum reyndu að halda út forystuna á meðan heimamenn í Keflavík sáu færi á endurkomu í erfiðum leik.

Ármann gerði frábærlega undir lok leiks og reyndist sterkari þegar uppi var staðið og fór með níu stiga sigur 93-102.

Atvik leiksins Þó nokkur atvik í leiknum þegar Keflavík hótaði endurkomu en Ármann setti þá stór skot. Arnaldur Grímsson og Ingvi Þór Guðmundsson áttu sitthvort stórt skot sem datt. Einnig hægt að nefna Braga Guðmundsson hér í restina þegar hann endanlega drepur alla von Keflavíkur á endurkomu af vítalínunni og stolnum boltum.

Stjörnur og skúrkar

Bragi Guðmundsson [23 stig] og Daniel Love [27 stig] voru frábærir fyrir Ármenninga í kvöld. Bragi átti nokkur atvik í kvöld þar sem hann fór illa með Keflvíkinga og sömuleiðis áttu Keflvíkingar í fullu fangi með Daniel Love.

Hjá Keflavík var Mirza Bulic atkvæðamestur með 26 stig og sá eini í liði Keflavíkur sem hélt uppi sóknarleiknum.

Dómararnir

Jóhannes Páll Friðriksson, Jakob Árni Ísleifsson og Stefán Kristinsson dæmdu þennan leik. Skiptar skoðanir á þeirra frammistöðu í kvöld en heilt yfir var þetta bara fínt. Einstaka dómar sem hægt er að pikka út en ekkert sem hallaði á annað hvort liðið.

Stemingin og umgjörð

Það var ágætlega vel mætt í Blue höllina í kvöld. Keflvíkingar voru fljótt komnir í brekku og stemningin kannski svolítið eftir því. Umgjörðin í Keflavík er alltaf upp á 10,5 enda mikill körfuboltabær.

Viðtöl

Steinar Kaldal þjálfari ÁrmannsVísir/Anton

„Auðveldast að fara í cocoa puffs kassan og draga upp vanmat“

„Gleði og hamingja að hafa tekið þennan sigur“ sagði Steinar Kaldal þjálfari Ármanns eftir sigurinn í kvöld.

„Ég er glaður og hamingjusamur þegar ég sigra í olsen olsen við konuna mína. Ég er jafn glaður í dag þegar ég kem hérna í Keflavík og vinn þá, hrikalega sterkt lið“

„Við spiluðum ótrúlega góða vörn langstærstan hluta leiksins og sóknin rúllaði vel. Þeir voru voru að gera ákveðna hluti sem mér fannst við vera bregðast vel við þannig ég er bara hrikalega stoltur af strákunum“

Ármann leiddi leikinn alveg frá fyrstu mínútu og sigurinn því sannfærandi og sanngjarn.

„Það er auðveldast að fara í cocoa puffs kassan og draga upp vanmat mótherja en við vorum bara betri en þeir í dag, það er bara þannig“

„Við spiluðum bara vel og erum búnir að vera spila vel undanfarna leiki. Það er kraftur í liðinu og menn eru með trú allan tímann og hún skein í gegn í þessum leik“ sagði Steinar Kaldal.

Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari KeflavíkurVísir/Vilhelm

„Fyrstu þrír leikir hérna í deild eftir áramót hafa bara verið langt yfir pari“

„Mjög ósáttur með það hvernig við mættum hérna til leiks og alveg hörmulegur fyrsti leikhluti“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari Keflavíkur.

„Varnarleikurinn var bara skelfilegur og þó við höfum spilað þrjár útgáfur af vörnum og ekkert virtist ganga. Þetta var mjög slakkt af okkar hálfu“

Keflavík elti leikinn alveg frá fyrstu mínútu en hvað var það sem olli því?

„Orkustigið bara. Mér fannst þeir vera yfir í öllum aðgerðum bæði varnarlega og sóknarlega. Við vorum svolítið stífir að mörgu leyti sóknarlega sömuleiðis, það var lítið flæði. Við vorum með fimm stoðsendingar í hálfleik sem var bara hræðilegt og ellefu tapaða bolta“

„Ég var virkilega ósáttur með frammistöðuna því við þurfum að fara koma okkur á strik. Við þurfum að fara gera einhverja almennilega hluti. Við áttum fína leik um daginn í bikar en fyrstu þrír leikir hérna í deild eftir áramót hafa bara verið langt yfir pari“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira