Leik lokið: ÍR - Stjarnan 109-118 | Stjörnu­menn á­fram á sigurbraut

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Hilmar Smári var með 26 stig fyrir Stjörnuna í kvöld.
Hilmar Smári var með 26 stig fyrir Stjörnuna í kvöld. Hulda Margrét

Stjörnumenn héldu sigurgöngu sinni áfram í Bónusdeild karla í körfubolta með níu stiga sigri á ÍR-ingum, 118-109, í Skógarselinu. Stjörnumenn voru lengst af með mikla yfirburði en ÍR-ingar voru næstum því búnir að vinna upp forskotið á lokakafla leiksins. 

Þetta var sjöundi sigur Íslandsmeistaranna í röð en nýi maðurinn, Hilmar Smári Henningsson, var með 26 stig í kvöld. Jacob Falko skoraði 39 stig fyrir ÍR-liðið en það dugði ekki.

Jacob Falko var með 39 stig fyrir Stjörnuna en það dugði ekki til.Hulda Margrét

Leikurinn byrjaði af krafti hjá báðum liðum en þegar fór að líða á fyrsta leikhlutann gerðu ÍR-ingar ef til vill fleiri mistök en þeir hefðu viljað. Allt í járnum en Stjarnan samt alltaf skrefi á undan og leiddi liðið með þremur stigum eftir fyrsta leikhlutann, 25-28.

Stjarnan byrjaði annan leikhluta afar vel og fljótlega voru gestirnir komnir með tíu stiga forystu. ÍR-ingum tókst aldrei að saxa á forskotið af ráði, því í hvert sinn náði Stjarnan að svara fyrir sig, með troðslu eða þriggja stiga körfu.

Jacob Falko setti niður tvö víti þegar þegar nokkrar sekúndur voru eftir af öðrum leikhluta en Pablo Bertone svaraði þá með einni huggulegri þriggja stiga körfu, 54-67 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Ægir var með 14 stoðsendingar í kvöld.Hulda Margrét

Það gekk allt upp í þriðja leikhluta hjá Stjörnunni, þeim leið vel og spiluðu af sjálfstrausti. Hilmar Smári setti niður fjórar þriggja stiga körfur í leikhlutanum og er hann greinilega að falla vel inn í leik Stjörnunnar. 19 stiga munur var á liðunum, 79-98 þegar liðin fóru inn í loka leikhlutann.

Hörkubarátta var í fjórða leikhluta þar sem ÍR-ingum tókst að saxa á forskot Stjörnunnar. Eftir um það bil fjórar mínútur hafði liðið minnkað muninn í 12 stig og á lokamínútu leikhlutans munaði 6 stigum á liðunum. ÍR-ingum tókst að gera leik úr þessu í lokahlutanum og færði smá spennu í leikinn.

Öflugur sigur hjá Stjörnunni niðurstaðan og hefur liðið nú sigrað sjö leiki í röð í deildinni.

Atvik leiksins

Erfitt að velja en ætli það sé ekki ein af troðslum Giannis eða Seth Leday.

Stjörnur og skúrkar

Hilmar Smári Henningsson var með 26 stig, 7 fráköst. Seth Leday kom þar næstur með 20 stig, 9 fráköst. Giannis var einnig afar öflugur í þessum leik.

Jacob Falko var öflugur í kvöld fyrir heimamenn en hann var með 39 stig, 5 fráköst og 7 stoðsendingar.

Stemning og umgjörð

Stuð og stemning í Skógarselinu, hefði samt viljað sjá betri mætingu í stúkuna.

Dómarar

Kristinn Óskarsson, Davíð Kristján Hreiðaarsson og Bergur Daði Ágústsson stóðu vaktina á parketinu í kvöld. Ekkert út á dómgæsluna að setja.

Viðtöl

Borce: Héldum okkur ekki við leikplanið

Borce ræðir við dómarann.Hulda Margrét

„Leikurinn var góður fyrir stuðningsmenn þar sem það var mikið skorað.“

„Ég held að við höfum gert ein afgerandi mistök þar sem við héldum okkur ekki við leikplanið. Planið var að hægja á Stjörnunni vegna þess að þeir spila á miklum hraða og skora að mestu úr hraðaupphlaupum. Vörnin átti í vandræðum með að stöðva þá og sérstaklega í hrapaupphlaupunum.“

„Þeir eru í góðu flæði núna og hafa unnið góð lið eins og Val og Keflavík. Sjálfstraustið er auðvitað mikið og þeir sýnu það í kvöld.“

Baldur Þór Ragnarsson:  Sigur á erfiðum velli

Baldur var sáttur með frammistöðu liðsins í kvöld.Hulda Margrét

„Ég var ánægður með drengina og sérstaklega sóknarlega. Boltinn var að flæða vel og það var gott orkustig. Við erum að skora mikið og spila rosalega vel saman þannig ég er ánægður að ná í sigur hérna á þessum erfiða velli.“

Hilmar var í byrjunarliði Stjörnunnar í kvöld og var besti leikmaður liðsins í kvöld.

„Hann er frábær leikmaður og kemur með mikil gæði að borðinu.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira