Skoðun

Mark­mið: Full­komnasta heil­brigðis­þjónusta sem tök eru á að veita

Steinunn Þórðardóttir skrifar

Mariana Mazzucato prófessor í nýsköpunarhagfræði við University College í London var gestur á fundi forsætisráðuneytisins um atvinnustefnu í síðustu viku. RÚV tók viðtal við hana í tengslum við það. Í frétt RÚV er eftirfarandi haft eftir prófessornum: „Ég er alltaf jafn undrandi á því að það virðist bara vera þegar stjórnvöld hafa einhver markmið, eins og á stríðstímum, sem þau vakna til lífsins og vinna þvert á ráðuneyti, í góðu samstarfi við einkageirann, að tiltekinni útkomu. Markmið snúast um að vinna af jafn mikilli ákefð og á stríðstímum – hvort sem um er að ræða loftslagsmál, vatnsmál, stafrænar áskoranir eða heilbrigðismál.“

Það vekur sérstaka athygli að hér minnist prófessor Mazzucato m.a. á heilbrigðismál. Ég tek heils hugar undir að nálgunin sem hún talar fyrir á vel við í heilbrigðisgeiranum. Við höfum nærtækt dæmi um verulega góðan árangur þessarar nálgunar í heilbrigðisþjónustu. Það er árangur Íslands í skimunum, eftirliti og meðferð í COVID-19 faraldrinum. Faraldri sem ekki er hægt að lýsa sem stríðsástandi en var sannarlega lýðheilsuneyðarástand sem kallaði á áköf viðbrögð. Þegar faraldurinn gekk yfir var hinni venjulegu síló-hugsun og örstjórnun (e. micro-management) sem einkennir kerfið okkar kastað fyrir róða og læknum og öðru fagfólki afhentir stjórnartaumarnir auk ríkulegra heimilda og frjálsræðis til nýsköpunar og mótunar aðgerða. Það er flestum í fersku minni hversu vel var haldið utan um þá sem veiktust hérlendis í faraldrinum og hafði það þau áhrif að dánartíðni hérlendis var lægri en á hinum Norðurlöndunum – og raunar víðast hvar annars staðar.

Prófessor Mazzucato talar fyrir þessari "neðan og upp stjórnun" (e. bottom-up), sem í heilbrigðiskerfinu felst í því að leyfa læknum og öðru fagfólki í framlínu að stjórna. Slík stjórnun á sérstaklega vel við í þeim gríðarlega sérhæfða geira sem heilbrigðisþjónustan er. Við erum vissulega ekki stödd í COVID-19 faraldrinum lengur, en við ættum samt að taka ráðleggingum prófessorsins og nálgast núverandi áskoranir heilbrigðiskerfisins með sama ákafa og við nálguðumst heimsfaraldurinn.

Jón Magnús Kristjánsson aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra fjallaði nýlega um traust í grein á þessum vettvangi. Þar segir m.a. „Á sama hátt er mikilvægt að fagfélög og notendur treysti því að stjórnvöld vinni í góðri trú og hlusti á ábendingar og að þótt niðurstaðan verði ekki endilega sú sem þau helst vildu sé verið að vinna við að bæta heilbrigðiskerfið eða þjónustu við tiltekna hópa.”

Hvernig væri að snúa þessu við? Þurfa stjórnvöld ekki líka að treysta því að fagfélög lækna (og aðrir haghafar) vinni í góðri trú? Væri kannski hugmynd að gefa læknum og öðru fagfólki lausari taum og treysta þeim til að drífa áfram nýsköpun? Færa okkur verkefnin til úrlausnar og leyfa okkur að vinna að þeim í sameiningu, þ.e. fagfélögum heilbrigðisstétta, stjórnendum heilbrigðisstofnana, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólki, sjálfseignarstofnunum og öðrum þeim aðilum sem stýra og sinna frá degi til dags þjónustunni sem við viljum bæta? Ekki henda smápeningum í lítil verkefni hingað og þangað, litla plástra á stór sár, heldur leyfa hópnum að glíma sjálfstætt við stóru málin?

Það þarf ekkert minna en stríðsástandsnálgun á úrræðaskortinn í þjónustu við eldra fólk, plássleysið á sjúkrahúsum landsins, geðheilbrigðismálin, skort á aðgengi að heimilislæknum, læknaskortinn á landsbyggðinni, brotalamir í kerfisbundnu forvarnarstarfi yfir æviskeiðið allt og svo mætti lengi telja.

Ég skora á stjórnvöld að láta reyna á nálgun prófessor Mazzucato í heilbrigðiskerfinu. Afhendið okkur stóru markmiðin og leyfið okkur að vinna að þeim í sameiningu án miðstýringar og örstjórnunar. Eyðum tortryggni milli ólíkra stofnana og ólíkra rekstrarforma. Í grunninn erum við öll með það sameiginlega markmið að veita þjónustu af hæstu mögulegu gæðum. Við höfum fagþekkinguna, viljann og getuna til að láta þau markmið verða að veruleika. Það sem vantar er að stjórnvöld treysti okkur til að leysa úr þessum verkefnum.

Höfundur er formaður Læknafélags Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×