Skoðun

Reykja­vík á ekki að reka byggingar­fé­lag

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir skrifar

Í borgarstjórn er nú til umræðu tillaga um nýtt uppbyggingarlíkan til að tryggja framboð hagkvæmra íbúða. Markmiðið er skiljanlegt og brýnt. Það er að hraða uppbyggingu félagslegs húsnæðis í borginni. Þörfin er raunveruleg og enginn dregur hana í efa. En góð markmið duga ekki ein og sér. Leiðin sem valin er skiptir sköpum. Viðreisn í Reykjavík mótmælir því harðlega að Reykjavíkurborg ætli inná uppbyggingarmarkað húsnæðis og stofni opinbert byggingarfélag.

Þegar borgin ætlar að taka yfir húsnæðisuppbyggingu

Tillaga meirihlutans felur í sér að kanna sérstaklega hvort Reykjavíkurborg, Félagsbústaðir eða jafnvel nýtt félag á þeirra vegum eigi að koma með beinum hætti að uppbyggingu íbúða. Með öðrum orðum: að borgin færist inn í hlutverk framkvæmdaraðila á húsnæðismarkaði. Þetta er ekki smávægileg breyting. Þetta er stefnumótandi ákvörðun sem getur haft víðtækar afleiðingar. Reykjavíkurborg á að móta leikreglurnar á húsnæðismarkaði, ekki gerast sjálf byggingaraðili.

Borgin á ekki að verða verktaki

Í áratugi hefur skýr verkaskipting verið á uppbyggingarmarkaði. Almenni markaðurinn byggir húsnæði og undanfarin ár hafa byggingarfélög í eigum verkalýðshreyfingar komið inn á þann markað. Borgin stýrir með skipulagi, reglum og skýrum kröfum. Borgin setur sér félagsleg markmið sem eru tryggð og við í Viðreisn höfum stutt enda erum við fylgjandi fjölbreyttum húsnæðismarkaði og félagslegri blöndun. Við erum ekki sammála því að borgin taki sjálf að sér framkvæmdir. Ef borgin fer að byggja sjálf breytast forsendurnar: ábyrgð, áhætta og kostnaður færast beint inn á borgarsjóð.

Áhættan lendir alltaf hjá borgarbúum

Uppbygging húsnæðis er flókin, kostnaðarsöm og áhættusöm. Þegar hið opinbera stígur inn í hlutverk framkvæmdaraðila minnkar sveigjanleiki og skuldbindingar verða langvarandi. Í lok dagsins er það almenningur sem ber áhættuna. Fjölbreyttar leiðir til uppbyggingar mega aldrei verða afsökun fyrir því að borgin taki yfir hlutverk sem markaðurinn er betur í stakk búinn til að sinna.

Reykjavíkurborg skortir ekki tæki til að tryggja framboð hagkvæmra íbúða. Skipulagsvaldið er eitt öflugasta stjórntæki sem borgin hefur. Með lóðaúthlutunum, kröfum í deiliskipulagi og skýru samstarfi við markaðinn er hægt að knýja fram félagslega blöndun og hagkvæmni án þess að borgin taki sjálf að sér uppbygginguna. Við eigum að nýta styrk skipulagsvaldsins, ekki taka yfir áhættuna af uppbyggingu.

Góð markmið réttlæta ekki ranga leið

Þetta snýst um ábyrgð, skýra verkaskiptingu og sjálfbærni í opinberum fjármálum. Reykjavíkurborg á ekki að verða byggingarfélag. Hún á að vera sterkur, skýr og ábyrgur stefnumótandi aðili. Ef við opnum dyr fyrir óljósa verkaskiptingu og aukinn rekstur borgarinnar á sviði uppbyggingar er hætta á að við festumst í lausnum sem verða bæði dýrar og erfiðar að snúa við.

Góð markmið eru góð og gild en leiðin skiptir öllu.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Byggjum fyrir fólk

Hafdís Hanna Ægisdóttir,Hjördís Sveinsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×