Skoðun

Á­kall til önugra femín­ista – Steinunni í borgar­stjórn!

Hrafnhildur Kjerúlf Sigmarsdóttir skrifar

Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega spennt fyrir stjórnmálum. Ég upplifi stjórnmálaflokka og fólk vera of keimlík og þreytist fljótt á að hlusta á endurtekin loforð. Ég er almennt svartsýn og geðill að eðlisfari þannig ég að erfitt með að peppa mig upp í stemningu sem mér finnst bæði vera þunn og þvinguð. Það þykir því til tíðinda að ég mætti ofur áhugasöm og spennt eins og spreðill á opnun kosningaskrifstofu til stuðnings frambjóðanda í forvali. Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir er enginn venjulegur frambjóðandi.

Ég kynnist Steinunni þegar ég hóf störf á Stígamótum sem ráðgjafi og önugur femínisti. Ég var stútfull af sjálfri mér eftir velgengni einnar greinar sem ég hafði skrifað fyrir fjölmiðla og taldi mig ekkert þurfa að læra. Án þess að þekkja Steinunni bað ég hana um að lesa yfir grein fyrir mig og gefa mér punta sem ég áleit í raun óþarfa þar sem ég taldi ágæti mitt langt fram úr raungetu á þessum tíma. Til baka fékk ég grein útataða í rauðum pennastrikum sem bentu á takmarkanir mínar. Í staðinn fyrir að stappa niður fótum og fara í fýlu eins og þroskastig mitt segir mér iðulega að sé skynsamlegt þá settist ég niður og las. Það sem ég las og lærði frá rauðu pennastrikunum hefur gert mig að betri pistlahöfundi en það er einmitt þetta sem Steinunn gerir svo vel. Hún hefur hæfileikann á að styðja við grósku annarra á beinskeyttan en sanngjarnan hátt sem skilur eftir sig löngun til að gera betur. Það er mikil færni að stíga þann dans án þess að skilja eftir móðgaðan múg og Steinunn kann það listilega vel.

Að vera femínisti er ekki vinsælt gigg á Íslandi en fjandsamlegir neyðast nú samt til að horfast í augu við það að femínismi hefur fært heiminum ýmislegt sem margur telur sjálfsagt í dag. Konur geta m.a. þakkað réttinn til að kjósa, réttinn til að eiga eignir,og ákveða tíma barneigna sinna öðrum konum sem á einhverjum tímapunkti í sögunni fóru í uppsteyt og þaðan í aðgerðir. Fátt er nefnilega öflugra en kona sem fær nóg. Sterkari efnahagur og betra heilbrigðiskerfi má líka þakka femínisma sem og fjölbreyttari rannsóknir sem svara fleiri spurningum um lífsins gang og eðli. Steinunn í femínískum ham hannaði, ásamt fleirum, verkefnið SJÚKÁST.

SJÚKÁST er forvarnarátak á vegum Stígamóta um ofbeldi í nánum samböndum ungmenna. Markmið átaksins er að ungmenni þekki lykilhugtök á borð við mörk og samþykki og geti greint muninn á heilbrigðum, óheilbrigðum og ofbeldisfullum samböndum. Þetta er tímamóta verkfæri í forvörnum fyrir samfélagið. SJÚKÁST hefur meðal annars fært mér verkfæri sem ég nota daglega í vinnu minni sem ráðgjafi við að valdefla þolendur ofbeldis á þann hátt að lífsgæði þeirra eflist svo að virk þátttaka í lífi og starfi verði þeim mögulegt á ný.

Stefnumál Steinunnar snúa m.a að leikskólamálum, húsnæðismálum og flestu öðru sem þarf er fyrir farsæla borg en sem femínisti og jafnaðarkona þá skiptir hana máli að þú hafir það líka gott. Það er alltaf betra að sá sem er að berjast fyrir þig sé bara venjuleg manneskja með unga krakka og íslenskt húsnæðislán. Steinunn er líka skemmtileg sem er undarlegt því hún er bæði yfirburða klár og lausnamiðuð en það er kannski ekki skrýtið að mér finnist það framandi þekkandi þá mannkosti illa sjálf.

„Heyrðu, helduru að Steinunn sé ekki að reyna að komast í borgarstjórn!” sagði ég ofurspennt við manninn minn og bjó mig undir gleðitíma í borginni þar sem mál verða leyst og meðvirkni drepin. Ég fór á flug og taldi upp alla þá mannkosti sem Steinunn býr yfir og allar þær breytingar sem hún á eftir að leiða til góðs.- “Það er von þrátt fyrir heimsmálin” sagði ég dramatísk og óðamál á meðan maðurinn minn reyndi að lesa bók í friði. Ég var með stórar yfirlýsingar um það sem ég taldi mig geta bætt á vogarskálarnar Steinunni til stuðnings og í stutta stund var sjálfumglaði pistlahöfundurinn mættur og búin að gleyma rauðu pennastrikunum. “Hérna get ég orðið að liði og án efa á stórkostlegan hátt” sagði ég hátt og horfði til himins. “Kannski að ég ætti bara að hella mér í borgarmálin og taka til ásamt Steinunni” sagði ég hnakkreist, augljóslega búin að gleyma takmörkunum mínum og komin á flug í hæð sem er öllum ljóst að er langt umfram getu. „Hrafnhildur mín, þú býrð núna í Kópavogi” sagði maðurinn minn, hristi hausinn og togaði mig til jarðar með snerpu. Það er gott að hafa góða í kringum sig til að stemma vitleysuna af. Steinunn er einmitt þannig kona og verður frábær drifkraftur þeirra breytinga sem þurfa að eiga sér stað í borginni.

Áfram Steinunn í 2. sæti í forvali Samfylkingarinnar

Höfundur er ráðgjafi og pistlahöfundur.




Skoðun

Skoðun

32 dagar

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Sjá meira


×