Körfubolti

Sjáðu Grinda­vík klúðra viljandi til að vinna lygilegan sigur

Sindri Sverrisson skrifar
Jordan Semple stökk manna hæst og náði að jafna metin í lok venjulegs leiktíma.
Jordan Semple stökk manna hæst og náði að jafna metin í lok venjulegs leiktíma. Skjáskot/Sýn Sport

Grindavík vann hreint ótrúlegan sigur gegn Njarðvík, með því að klikka viljandi á vítaskoti, í framlengdum slag í Bónus-deild karla í körfubolta í gærkvöld. Lokasenurnar má nú sjá á Vísi.

Endurkoma Grindvíkinga í lok venjulegs leiktíma var hálfpartinn fáránleg, eins og sjá má í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Ótrúlegur endir í Njarðvík

Njarðvík hafði komist níu stigum yfir, 108-99, og var með boltann þegar rúm hálf mínúta var eftir. Þá átti hins vegar enn margt eftir að gerast.

Khalil Shabazz setti nefnilega niður tvo þrista og Daniel Mortensen þrjú vítaskot. Njarðvíkingar náðu þó enn að halda forystunni og voru 113-110 yfir þegar rúmar fjórar sekúndur voru eftir.

Njarðvík brá þá á það ráð að brjóta á Shabazz og gefa honum tvö víti, og nýta sér þannig það að vera þremur stigum yfir. Shabazz setti niður fyrra vítið sitt en klikkaði svo viljandi á því seinna á meðan sofandi Njarðvíkingar horfðu á Jordan Semple grípa frákastið og jafna leikinn.

Grindavík vann svo eins og fyrr segir í framlengingunni, þó að spennan héldi áfram þar eins og sjá má í spilaranum hér að ofan.

Sigurinn færði Grindavík, sem unnið hefur alla sína leiki nema einn, fjögurra stiga forskot á Val og Tindastól á toppi deildarinnar en Njarðvík er í 10. sæti með átta stig nú þegar tólf umferðir hafa verið spilaðar.


Tengdar fréttir

„Eitt og annað sem við þurfum að vinna í“

Grindavík vann hreint ótrúlegan endurkomusigur á Njarðvík í kvöld í Bónus-deild karla en Grindvíkingar kreistu að lokum fram eins stigs sigur í framlengingu, 123-124.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×