Upp­gjörið: Kefla­vík - Njarð­vík 93-83 | Enn taplausir í Slátur­húsinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Craig Moller hitti úr sex af þeim sjö þriggja stiga skotum sem hann tók gegn Njarðvík.
Craig Moller hitti úr sex af þeim sjö þriggja stiga skotum sem hann tók gegn Njarðvík. vísir/anton

Keflavík er enn ósigrað á heimavelli sínum í vetur eftir sigur á Njarðvík, 93-83, í grannaslag í 11. umferð Bónus deildar karla í kvöld.

Leikurinn var jafn lengst af en Keflvíkingar reyndust sterkari í 4. leikhluta þar sem þeir sýndu þann sterka varnarleik sem þeir hafa gert á heimavelli í vetur.

Brandon Averette meiddist snemma leiks og fáliðaðir Njarðvíkingar gáfu eftir undir lokin. Liðsheild Keflvíkinga var sterk og þeir fengu framlag frá fleirum en Njarðvíkingar í kvöld.

Dominykas Milka var í miklum ham í fyrri hálfleik. Hann skoraði þá 21 stig og tók ellefu fráköst en saman voru þeir Dwayne Lautier með 32 af 44 stigum Njarðvíkur.

Mikill barningur og léleg hittni einkenndi 1. leikhluta en sóknarleikur liðanna lagaðist til muna í 2. leikhluta.

Dwayne var heppinn að sleppa við brottrekstur þegar hann fór með olnbogann í Hilmar Pétursson þegar rúmar tvær mínútur voru liðnar af 2. leikhluta. Keflvíkingar voru með frumkvæðið framan af honum og Mirza Bulic kom þeim í 28-23. Bóas Orri Unnarsson svaraði með þristi og kveikti heldur betur í Njarðvíkingum.

Gestirnir skoruðu tuttugu stig gegn fimm og náðu tíu stiga forskoti, 33-43. Það fuðraði hins vegar upp á síðustu tæpu mínútu fyrri hálfleiks. Heimamenn skoruðu níu stig gegn einu og refsuðu gestunum grimmilega fyrir slaka svæðisvörn. Forysta Njarðvíkur var því aðeins tvö stig í hálfleik, 42-44.

Keflvíkingar skoruðu þrjár þriggja stiga körfur í upphafi seinni hálfleiks og þær voru því orðnar fimm á skömmum tíma. Njarðvíkingar hleyptu Keflvíkingum þó aldrei langt fram úr sér og leikurinn var í járnum.

Tilfinningin var alltaf sú að Keflvíkingar væru með frumkvæðið en ávallt svöruðu Njarðvíkingar. Veigar Páll Alexandersson kláraði 3. leikhlutann með því að setja niður erfitt skot og munurinn fyrir lokaleikhlutann því einungis tvö stig, 63-61.

Darrell Morsell sýndi ekki sparihliðarnar framan af leik en hann var öflugur í upphafi 4. leikhluta. Villurnar hrönnuðust upp og margir voru á hættusvæði, meðal annars Milka, Dwayne, Jaka Brodnik og Mirza sem voru allir með fjórar villur.

Í 4. leikhluta urðu högg Keflvíkinga þyngri og Njarðvíkingar áttu erfiðara með að svara þeim. Craig Moller hélt áfram að setja niður skot og hann kom Keflavík níu stigum yfir, 83-74, þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir.

Snjólfur Marel Stefánsson minnkaði muninn í sjö stig, 83-76, með því að setja niður tvö vítaskot en í kjölfarið fékk Milka sína fimmtu villu.

Julio de Assis, sem átti afleitan leik, skoraði og breytti stöðunni í 86-81 en í næstu sókn setti Moller niður enn einn þristinn, 89-81. Njarðvíkingar höfðu verið ólseigir í leiknum en þetta reyndist náðarhöggið.

Keflavík vann á endanum tíu stiga sigur, 93-83, og er í 4. sæti deildarinnar. Njarðvík, sem hefur tapað þremur leikjum í röð, er í 9. sætinu.

Atvik leiksins

Áðurnefnd þriggja stiga karfa Mollers þegar hann kom Keflavík í 89-81 er 77 sekúndur voru eftir á klukkunni kláraði leikinn. Moller kórónaði þarna stórleik sinn og sá endanlega til þess að Keflvíkingar færu með sigur af hólmi.

Stjörnur og skúrkar

Milka var gríðarlega öflugur í leiknum; skoraði 29 stig og tók nítján fráköst og var með 37 framlagsstig. Dwayne tók bara átta skot en var duglegur að koma sér á vítalínuna og skoraði tólf af nítján skotum sínum af henni. Veigar Páll þurfti að gera mikið og hitti illa (23 prósent) og Julio var úti á þekju allan tímann. Það kæmi á óvart ef hann myndi spila fleiri leiki í búningi Njarðvíkur sem saknar Mario Matasovic sárt.

Moller skoraði 24 stig og tók tólf fráköst hjá Keflavík og hitti úr sex af sjö þriggja stiga skotum sínum. Morsell vann á og skilaði tuttugu stigum, tólf fráköstum og sjö stoðsendingum. Egor Koulechov skoraði nítján stig og Mirza þrettán. Oft hefur farið meira fyrir Hilmari Péturssyni en hann skoraði sjö stig, tók sex fráköst, gaf fimm stoðsendingar og Keflavík vann mínúturnar sem hann var inni á með nítján stigum.

Umgjörð og stemmning

Sláturhúsið var pakkað í kvöld og stemmningin sveik engan. Áhorfendur fengu sannarlega eitthvað fyrir peninginn í kvöld; ágætis leik og mikla spennu.

Dómararnir

Bjarki Þór Davíðsson, Jóhannes Páll Friðbertsson og Sigurbaldur Frímannsson sáu um dómgæsluna í kvöld. Þeir höfðu í nægu að snúast og komust ágætlega frá sínu en hefðu sennilega ekki átt að miskunna sig yfir Dwayne þegar hann gaf Hilmari á kjammann í byrjun 2. leikhluta.

Viðtöl

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira