Leik lokið: Ár­mann 70 - 106 Grinda­vík | Stór­sigur Grinda­víkur á lánlausum ný­liðum

Kári Mímisson skrifar
_DSF9280
vísir/anton

Þótt þessi lið séu í baráttunni á sitthvorum enda töflunnar þá reiknuðu eflaust einhverjir með jöfnum leik í ljósi skakkafallanna í lið Grindavíkur en gestirnir mættu með aðeins átta leikmenn til leiks í kvöld eftir að veikindi höfðu herjað á liðið að undanförnu.

Jafnræði var með liðunum á upphafsmínútum leiksins en um miðjan fyrsta leikhluta fór þó að skilja á milli þegar Grindavík náði níu stiga forystu á skömmum tíma. Ármenningar héldu sér þó á þessum tímapunkti inni í leiknum og tókst að klóra í bakkann rétt fyrir lok leikhlutans.

Annar leikhluti byrjaði svipað og sá fyrsti endaði. Grindavík með tögl og hagldir á leiknum en Ármann aldrei langt á eftir. Það dró aftur á móti til tíðinda um miðjan annan leikhluta þegar Grindavík tókst gjörsamlega að keyra yfir nýliðana og í raun gerðu út um leikinn. Á fimm mínútna kafla breyttu gestirnir frá Grindavík stöðunni úr 31-38 í 33-60. Dzana Crnac tókst þó að ljúka hálfleiknum á góðu nótunum fyrir heimakonur þegar hún setti niður þriggja stiga körfu rétt áður en flautan gall. Staðan í hálfleik 36-60 fyrir Grindavík.

Dzana skoraði fyrstu körfu seinni hálfleiks en eftir það héldu gestirnir úr Grindavík uppteknum hætti og skoruðu nánast að vild. Munur á liðunum varð mestur 42 stig, 50-92 en skotnýting Grindavíkur var frábær í dag en liðið var með samtals með yfir 61 prósent skotnýtingu og 52 prósent utan af velli. Svo fór að lokum að Grindavík vann öruggan 36 stiga sigur. Lokatölur úr Laugardalshöll, 70-106

Atvik leiksins

Það er einfalt að velja það í dag. Karfan sem Abby Beeman skorar undir lok þriðja leikhluta var rosaleg. Með tvær sekúndur eftir af klukkunni átti Grindavík innkast á sínum vallarhelming. Þórey Tea Þorleifsdóttir fann Abby sem lúðraði boltanum yfir tvo þriðju vallarins og þaðan beint niður. Ég er aftur á móti nokkuð viss um að klukkan fór ekki í gang þegar Grindavík kastaði boltanum í leik. Það breytir því ekki að þetta var ótrúleg karfa sem lýsir leik Grindavíkur í kvöld, það gekk allt upp hjá liðinu.

Stjörnur og skúrkar

Ég verð að hrósa Grindavík í heild sinni en það var alveg sama hver átti í hlut það allir náðu að glansa í kvöld. Ellen Nystrom fór þó fremst meðal jafningja í dag. Hún skoraði 42 stig og tók niður 7 fráköst. Abby Beeman átti einnig stórleik en hún var með 25 stig, gaf 12 stoðsendingar og reif niður 9 fráköst sem gerir það að verkum að hún var aðeins einu frákasti frá því að ná þrefaldri tvennu.

Dómarinn

Þeir voru í appelsínugulu búningunum sínum sem ég er persónulega mjög veikur fyrir. Það voru nokkur atriði í dag eins og öllum leikjum en þeir réðu ekki úrslitunum hér í kvöld.

Stemning og umgjörð

Ármenningar eru auðvitað að gera sitt besta á sínu fyrsta tímabili í deild þeirra bestu en það er auðvitað strembið að spila í Höllinni þar sem erfitt er að manna alla þessa stúku almennilega. Valarþulurinn var aftur á móti flottur og kynnti sínar stúlkur inn með miklum glæsibrag.

„Þurfum við meira framlag frá okkar atvinnumönnum“

Það var þungt yfir Karli Guðlaugssyni, þjálfara Ármanns en lið hans beið afhroðs í kvöld gegn Grindavík.

„Þetta var hrikalega erfiður leikur. Þær Ellen og Abby áttu þvílíkan skotdag og við réðum hreinlega ekki við þær. Það verður bara að viðurkennast að Grindavík var miklu betra liðið hér í kvöld.“ Sagði Karl þegar hann var inntur eftir viðbrögðum við leik kvöldsins.

Karl Guðlaugsson, þjálfari Ármannsvísir/Anton

Jafnvel þó svo að Ármenningar hafi ekki átt sinn besta dag hér í kvöld þá verður þó segjast að liðið sýndi ágætis kafla inn á milli sem því miður fellur í skuggann á slæmu köflum liðsins. Karl segir að liðinu skorti reynslu og kallar eftir meira framlagi og þá sérstaklega hjá erlendu leikmönnum liðsins.

„Okkur skortir reynslu til þess að leika á þessu getustigi. Svo þurfum við kannski meira framlag frá okkar atvinnumönnum heldur en við fengum í dag. Grindavík er með þrjá atvinnumenn sem eru allar framúrskarandi á meðan okkar voru ekki alveg þar. Íslensku stelpurnar voru margar hverjar allt í lagi en í heild sinni þarf allt liðið að stíga upp til þess að við eigum möguleika gegn liðum eins og Grindavík.“

Ármann situr í níunda og næst neðsta sæti deildarinnar en liðið hefur aðeins unnið einn leik það sem af er vetri. Karl segir það vera erfitt að vera fastur í svona taphrinu en tekur þó fram að liðið sé að bæta sig.

„Auðvitað vill maður vera með miklu fleiri sigra. Það er rosalega erfitt að vera í þessum sporum þar sem við erum að tapa og tap hverjum leiknum á fætur öðrum. Ég er ekki sáttur þó svo að við sínum á köflum góðan leik. Mér finnst við vera að bæta okkur þó svo að mér þyki þessi leikur ekki bera þess merki. Það koma leikhlutar þar sem við spilum vel en þeir þurfa að vera miklu fleiri og miklu lengri.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira