Skoðun

Þegar hjálpin verður fjar­læg – upp­lifun mín úr heil­brigðis­kerfinu

Elín A. Eyfjörð Ármannsdóttir skrifar

Heilbrigðiskerfið á að vera skjól þegar fólk stendur á barmi örvæntingar. Staður þar sem einstaklingar fá hjálp, hlýju og skilning þegar þeir ráða ekki lengur við eigin aðstæður. Fyrir mig hefur raunveruleikinn hins vegar oft verið allt annar.

Ég upplifi ítrekað hroka og leiðindi þegar ég leita mér aðstoðar. Samtölin eru stutt og óhnitmiðuð, augnaráðin köld og viðmótið þannig að mér líður eins og ég sé fyrir. Mjög oft hef ég verið send heim á mjög slæmum tímum, jafnvel eftir að ég hef þegar lent í aðstæðum sem sýna svart á hvítu að grípa hefði þurft inn í.

Afleiðingin er sú að ég fer heim án raunverulegrar hjálpar, með meiri skömm, meiri kvíða og dýpri vanmátt. Þá verður tilfinningin sú að ég sé byrði. Byrði fyrir kerfið. Byrði fyrir starfsfólkið. Byrði fyrir samfélagið. Sú tilfinning er sérstaklega þung þegar maður glímir við alvarlegan og fjölþættan geðrænan vanda.

Ég geri mér grein fyrir því að ég hef oft þurft að leita í heilbrigðiskerfið. Það kann að vera of oft í augum sumra. En það er ekki vegna þess að ég vil vera fyrir. Ekki vegna þess að ég vil misnota kerfið. Og alls ekki til að fá athygli. Heldur vegna þess að ég er veik og oft ræð ég einfaldlega ekki við vanda minn ein.

Það sem særir mig mest er tilfinningin um að vera ekki tekin alvarlega fyrr en allt er orðið mjög slæmt og stundum ekki einu sinni þá. Ég upplifi að mér sé mætt sem „flóknu máli“, “manneskju sem hefur mætt of oft” eða „erfiðum sjúklingi“ í stað þess að horft sé á einstaklinginn á bak við einkennin. Á bak við hegðunina er ótti, vanmáttur og hjálparbeiðni.

Þegar fólk er í mikilli geðrænni neyð hverfur oft geta til að orða hlutina rétt, útskýra skipulega og fylgja öllum reglum kerfisins. Þá þarf kerfið að geta mætt fólki þar sem það er statt, ekki bæta á byrðina með kulda eða afskiptaleysi.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að álag í heilbrigðiskerfinu er gríðarlegt. Starfsfólk vinnur við erfiðar aðstæður og með takmörkuð úrræði. En mannleg reisn má aldrei verða eftir. Orð, tónn og raunveruleg hlustun skipta sköpum þegar manneskja er þegar brotin niður af veikindum.

Alvarlegast er þó að þessi upplifun mín hefur smám saman skapað ótta við að leita mér aftur hjálpar. Þegar fólk fer að óttast kerfið sem á að veita því skjól, þá er eitthvað alvarlega rangt.

Ég er ekki að biðja um forréttindi. Ég er að biðja um virðingu. Um að vera mætt sem manneskja. Um að fá hjálp áður en allt fer úr böndunum, ekki aðeins eftir að skaðinn er orðinn.

Höfundur er kennaranemi og einstaklingur sem glímir við geðrænan vanda.




Skoðun

Sjá meira


×