Skoðun

Bætt stjórn­sýsla fyrir fram­halds­skólana

Guðmundur Ingi Kristinsson skrifar

Á síðustu sjö vikum hef ég heimsótt alla opinberu framhaldsskólana, 27 um land allt. Í þessum heimsóknum hef ég kynnst og rætt við kennara, nemendur, stjórnendur og starfsfólk sem allt vinnur að því að skapa öflugt og lifandi skólasamfélag. Heimsóknirnar hafa verið bæði lærdómsríkar og hvetjandi og mikils vert að fá tækifæri til að kynnast framhaldsskólasamfélaginu betur.

Sóknaráætlun fyrir framhaldsskólana og nemendur

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er talað um að hefja sókn í menntamálum. Sú sókn snýst ekki um hagræðingu eða sameiningu skóla. Hún snýst um að efla skólastarfið, styrkja fagmennsku og bæta stuðning við framhaldsskólana og nemendur þeirra. Við viljum efla samstarf án þess að skerða sérstöðu hvers skóla.

Til að ná þeim markmiðum hef ég lagt til breytingar á skólakerfinu sem fela í sér að byggja upp svæðisbundnar stjórnsýslu- og þjónustuskrifstofur sem geta stutt við þau fjölmörgu verkefni sem unnin eru innan skólanna og og veitt stuðning við kennara, starfsfólk, stjórnendur og nemendur í daglegu starfi. Þannig aukum við þjónustu og stuðning við skólana, þar á meðal ráðgjöf og sérfræðiaðstoð í flóknum málum, og tryggjum að allir nemendur landsins hafi jafnan aðgang að þjónustu. Að sjálfsögðu munu nemendur fá áfram þá þjónustu sem þeir þurfa í sínum eigin skóla, við ætlum ekki að lengja sporin.

Kerfi þróað í nánu samstarfi við skólasamfélagið

Markmiðið með heimsóknum mínum til framhaldsskólanna er að eiga raunverulegt samtal um mótun og útfærslur hins nýja kerfis. Almennt ríkir víðtæk samstaða um að þörf sé á auknum stuðningi við starfsemi framhaldsskólanna og ekki síst við nemendur þeirra. Margir hafa þó sagt mér að sporin hræði, að ný verkefni hafi áður verið kynnt með góðum hug en skilað óljósum ávinningi fyrir skólana sjálfa. Ég tek slíkum ábendingum alvarlega enda hef ég alltaf lagt áherslu á að hlusta á raddir skólasamfélagsins í þessu breytingaferli og hafa hag nemenda í forgrunni.

Ég hef þegar fengið fjölmargar gagnlegar og uppbyggilegar ábendingar sem lofa góðu um framhaldið. Sem dæmi má nefna að mikil áhersla hefur verið lögð á að skýra ábyrgð og hlutverk skólastjórnenda í nýju skipulagi. Í samtölum hafa góð rök verið færð fyrir því að ekki sé æskilegt að færa daglegar stjórnunarheimildir frá þeim, til dæmis varðandi ráðningar eða fjármál.

Þau rök tel ég traust og hef því ákveðið að daglegur rekstur verði áfram innan skólanna þó að ekki sé loku fyrir skotið að einhverjar breytingar verði með tilkomu stjórnsýslu- og þjónustuskrifstofa. Þá hafa sumir kennarar bent á hugsanlega aukna möguleika á sérhæfingu og starfsþróun í þessu sambandi.

Jafnframt telja flestir jákvætt að færa ákveðna þjónustu og ráðgjöf nær skólunum þannig að hún verði ekki bundin við ráðuneytið sjálft. Þannig megi aðgreina betur stefnumótunar-, eftirlits- og úrskurðarhlutverk ráðuneytisins frá daglegri ráðgjöf og þjónustu við rekstur og stjórnsýslu skólanna.

Sameiginlegt verkefni allra

Við þurfum að tryggja að framhaldsskólarnir hafi aðstöðu, stuðning og svigrúm til að sinna fjölbreyttum hópi nemenda. Ég finn víða mikla eftirvæntingu og þakklæti fyrir að menntamálin séu komin aftur á dagskrá. Í þessum heimsóknum mínum í alla þessa skóla hef ég einnig fengið fjölmargar aðrar ábendingar sem varða skólakerfið sem munu svona sannarlega koma að gagni.

Sóknin í menntamálum er verkefni okkar allra: Kennara, starfsfólks, stjórnenda, nemenda, foreldra og stjórnvalda. Við eigum að hlusta, læra hvert af öðru og byggja áfram á styrkleikum kerfisins. Við ætlum ekki að brjóta niður heldur byggja upp.

Þannig gerum við góða skóla enn betri.

Höfundur er mennta- og barnamálaráðherra.




Skoðun

Sjá meira


×