Upp­gjörið: Valur - ÍR 24-25| ÍR tók toppslaginn með minnsta mun

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Sara Dögg Hjaltadóttir var öflug í liði ÍR.
Sara Dögg Hjaltadóttir var öflug í liði ÍR. vísir/Diego

Það var boðið upp á toppslag í N1 höllinni í kvöld þegar Valur tók á móti ÍR í níundu umferð Olís deild kvenna. Liðin sátu í fyrsta og öðru sæti deildarinnar fyrir slaginn í kvöld. Eftir gríðarlega spennandi leik var þar ÍR sem hafði betur með minnsta mun 24-25 og jafnar þar með Val af stigum á toppi deildarinnar.

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað þar sem gestirnir úr Breiðholti mættu af krafti, settu tóninn og skoruðu fyrsta mark leiksins. ÍR komst í 6-2 en fljótlega komst Valsliðið í takt við leikinn og náði að vinna upp fjögurra marka forskot gestana.

Það var nokkuð jafnt með liðunum eftir því sem leið á en Sif Hallgrímsdóttir í marki ÍR varði oft á tíðum frábærlega í marki gestana og fór inn í hálfleikinn með tæplega 50% vörslu en hún varði níu bolta í fyrri hálfleiknum.

Valur fékk tækifæri til þess að fara marki yfir í hálfleikinn en þær klikkuðu á sirkus og ÍR sótti hratt og náði að fara með eins marks forystu inn í hálfleikinn 11-12.

Eins og við mátti búast var síðari hálfleikurinn gríðarlega jafn og spennandi. ÍR náði góðu áhlaupi og komst í þriggja marka forystu um miðjan síðari hálfleikinn 18-21 en þá tók Valur leikhlé.

Það kom mikill kraftur með Val úr þessu leikhlé og þær náðu að jafna leikinn áður en langt um leið og náðu að komast yfir 22-21. ÍR gafst þó ekki upp og náði vopnum sínum aftur og höfðu á endanum betur 24-25.

Atvik leiksins

Þegar það eru 12 sekúndur eftir af leiknum skorar Valur og Thea Irmani Sturludóttir hleypur í gegnum miðjuteig og truflar hraða miðju ÍR og fær rautt spjald fyrir og vítakast dæmt fyrir ÍR. Sara Dögg Hjaltadóttir skorar út vítinu og það reyndist sigurmark leiksins.

Stjörnur og skúrkar

Sif Hallgrímsdóttir var frábær í marki ÍR og varði 15 bolta (42% varsla). Sara Dögg Hjaltadóttir skoraði þá 11 mörk fyrir ÍR og var ísköld á vítalínunni í lokin.

Hjá Val var Þórey Anna Ásgeirsdóttir markahæst með átta mörk.

Dómararnir

Ómar Ingi Sverrisson og Hörður Kristinn Örvarsson sáu um flatuna hér í kvöld. Eins og gengur og gerist í þessu sporti er maður ekkert endilega sammála öllu en það voru vafasöm atriði og stórir dómar sem féllu.

Stemingin og umgjörð

Það var allt í lagi stemning hér í N1 höllinni. Hefði verið skemmtilegt að sjá fleiri andlit í stúkunni en fullt hrós á þau sem lögðu leið sína á völlinn. Verð að gefa ÍR-ingum líka smá hrós fyrir mætingu en þau voru ekkert mikið færri en Valsarar í stúkunni.

Viðtöl

Grétar Áki Andersen þjálfari ÍR kvenna.ÍR

„Vorum með góða frammistöðu hérna í sextíu mínútur“

„Frábær leikur og vorum bara góðar fannst mér í sextíu mínútur“ sagði Grétar Áki Andersen þjálfari ÍR eftir sigurinn í kvöld.

„Við erum komnar í 6-2 og búum okkur til smá forskot en síðan er þetta bara reynslu mikið og frábært lið Vals sem kemur sér bara strax aftur inn í leikinn sem við bjuggumst alltaf við“

„Þetta verður svo bara hörku leikur og það er bara ógeðslega skemmtilegt að enda þetta svona rétt fyrir landsleikjahlé“

ÍR komst snemma í góða stöðu sem gaf þeim mikið sjálfstraust. 

„Maður fer aldrei rólegur inn í leik á móti Val, ég get bara orðað það þannig en jú það gefur okkur svona ákveðið 'heyrðu þetta er bara til staðar' og eins og við höfðum bara trú á verkefninu allan tímann og við gætum allan tímann veitt þessu liði keppni og gætum unnið þær. Við sýndum það bara“

Sif Hallgrímsdóttir var frábær í markinu hjá ÍR í kvöld og varði oft á tíðum frábærlega. 

„Við sóttum Sif í sumar með þessum vonum. Hún er ung og efnileg og er bara búin að taka þvílíkt mikið af skrefum upp á við hjá okkur og við erum bara ógeðslega ánægð með hana“

Það er margt jákvætt sem hægt er að taka úr þessum leik hjá ÍR í kvöld.

„Varnarleikurinn var frábær í fyrri hálfleik. Sóknarleikurinn byrjaði vel en svo staðnaði hann aðeins en mér fannst við bara góðar. Þetta var jafnt allan tímann. Það býst enginn við því að koma hérna og sprengja Val með 10“

„Við vorum með góða frammistöðu hérna í sextíu mínútur og það er það sem skiptir okkur máli og það er það sem við getum byggt ofan á“ sagði Grétar Áki Andersen.

Anton Rúnarsson er þjálfari Vals kvenna.vísir/Sigurjón

„Alltaf eitthvað sem maður getur tekið út úr svona leik“

„Gríðarlega svekkjandi tap hérna á heimavelli“ sagði Anton Rúnarsson þjálfari Vals eftir tapið í kvöld.

„Mjög svekktur með niðurstöðuna í leiknum og margt sem að við þurfum að fara yfir, klárlega“

Það var áhugaverð vending í lok leiks þar sem Thea Irmani Sturludóttir fær rautt spjald fyrir að hlaupa í gengum miðjuna og trufla hraða miðju ÍR. Gestirnir fengu þá vítakast sem kom þeim yfir og reyndist að lokum vera sigurmark leiksins.

„Ég veit ekki hvað var í gangi hérna síðustu 7-8 mínúturnar. Ég hef ekki séð svona áður í deildinni. Ég veit ekkert hvað var verið að flauta á og maður vissi ekkert hvað var að fara gerast en þetta datt með ÍR í dag og því miður en ég veit ekkert hvað var í gangi þarna“

ÍR hafa verið að spila frábærlega upp á síðkastið.

„Þær eru búnar að spila frábærlega og eru mjög sprækar. Við unnum þær sannfærandi í fyrsta leiknum og vissum að þær eru með hörku lið og munu klárlega bíta frá sér og spila vel.  Við bjuggumst alveg klárlega við hörku leik“

Þrátt fyrir tapið er ýmislegt sem hægt er að taka úr þessum leik.

„Já það er alltaf eitthvað sem að maður getur tekið út úr svona leikjum og það er líka verk að vinna. Við þurfum bara að vinna í allskonar hlutum og eigum leik núna aftur á sunnudaginn og þurfum að fara fókusera á hann núna“ sagði Anton Rúnarsson.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira