Körfubolti

Leik­maður ÍA búinn á því í upp­hitun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ilija Dokovic átti erfitt með að klára upphitun fyrir leik ÍA og Vals.
Ilija Dokovic átti erfitt með að klára upphitun fyrir leik ÍA og Vals. sýn sport

Serbneski körfuboltamaðurinn Ilija Dokovic, sem er nýgenginn í raðir ÍA, er ekki í sínu besta formi eins og sást bersýnilega í leiknum gegn Val.

Skagamenn töpuðu naumlega fyrir Valsmönnum, 81-83, í 6. umferð Bónus deildarinnar á fimmtudaginn. Þetta var fyrsti leikur ÍA í nýju íþróttahúsi á Jaðarsbökkum.

Dokovic skoraði fimmtán stig í leiknum en var snemma byrjaður að blása, meira að segja áður en leikurinn hófst eins og farið var yfir í Bónus Körfuboltakvöldi.

„Í upphitun er maðurinn gjörsamlega búinn á því,“ sagði Stefán Árni Pálsson í þætti gærkvöldsins.

„Ég sat í stúkunni fyrir aftan bekkinn hjá Skaganum. Ég kann alveg að meta að menn séu með „dad-bod“. Maður er með það sjálfur og það er inn í dag. En þegar þú ert orðinn kófsveittur og farinn að blása fimm mínútur í leik því það eru tvær raðir í upphitun og þú þurfir að stoppa og aðeins að leggjast í gólfið,“ sagði Benedikt Guðmundsson.

Klippa: Bónus Körfuboltakvöld - Skagamaður í slæmu standi

„Hann bað um skiptingu, nokkrum sinnum í leiknum því hann var orðinn þreyttur. Þegar hann kom út af, sérstaklega þegar leið á leikinn, var sjúkraþjálfarinn að nudda á honum lappirnar bara til að reyna að láta hann klára leikinn. Maður sér alveg að það eru gæði þarna en ég skil ekki af hverju standið er svona rosalega slæmt því hann var að spila í fyrra. Að mæta í svona lélegu standi, sem atvinnumaður í körfubolta, er bara óafsakanlegt,“ bætti Benedikt við.

Þeir Teitur Örlygsson ítrekuðu samt að Dokovic væri hæfileikaríkur leikmaður enda á hann leiki með serbneska landsliðinu á ferilskránni.

Í fyrstu tveimur leikjum sínum fyrir ÍA hefur Dokovic skorað 8,5 stig að meðaltali, tekið 3,0 fráköst og gefið 5,0 stoðsendingar.

Umræðuna um Dokovic úr Bónus Körfuboltakvöldi má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×