Handbolti

Varnaræfingar bitnuðu á sóknar­leiknum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnar brúnaþungur á hliðarlínunni, eðlilega.
Arnar brúnaþungur á hliðarlínunni, eðlilega. Vísir/Anton

„Þetta er mjög þungt og svekkjandi,“ segir Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta eftir 24-22 tap fyrir Færeyjum í undankeppni EM 2026 í Úlfarsárdal í kvöld. Ísland var lakari aðilinn á vellinum í kvöld.

„Við vissum alveg að við erum að spila við gott lið og ekkert óeðlilegt miðað við hvar við erum að þetta sé hörkuleikur. En samt, færanýtingin hefði getað verið betri. Við erum í smá brasi varnarlega og sóknarlega maður á mann. Við erum að tapa bardögum auðveldlega báðu megin,“ segir Arnar og er þar engu logið. Ísland varð undir í baráttunni mestallan leikinn.

Töluverðar breytingar hafa orðið á hópi Íslands þar sem reynsluboltar hafa lagt skóna á hilluna. Hann vonast til að leikmenn liðsins læri hratt.

„Það er svekkjandi að tapa þessu og hvernig við gerðum það. En við þurfum að læra hratt og nýta þennan leik til að bæta okkur og skoða hvað má bæta. Hann verður að vera til þess að hjálpa okkur,“ segir Arnar og bætir við:

„Við erum í ákveðnum kynslóðaskiptum. Það eru stelpur að spila stóra rullu í alvöru leikjum í fyrsta skipti og við þurfum að taka aðeins tillit til þess. Við skulum læra af þessu og sjá til þess að leikurinn nýtist vel.“

Ísland skoraði aðeins 22 mörk í leik kvöldsins og tapaði boltanum ítrekað. Arnar einblíndi á varnarleikinn í aðdragandanum sem hann segir bara bitnað á sókninni.

„Sóknarleikurinn var bras. Við vorum bara í brasi mestallan leikinn. Við fáum ekki mörk fyrir utan og það þarf kannski aðeins að hugsa það, það er mitt. Við reyndum að fara mikið maður á mann, sem er svo sem styrkleikinn okkar, en það gekk ekki vel. Þessa tvo daga sem við vorum saman einblíndum við nánast bara á varnarleikinn. En það bitnaði klárlega aðeins á sóknarleiknum í dag. Við eigum bara að vera komin lengra þar,“ segir Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×