Eru Bændasamtökin á móti valdeflingu bænda? Ólafur Stephensen skrifar 8. október 2025 12:31 Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hefur lagt fram drög að frumvarpi um breytingar á búvörulögum í samráðsgátt stjórnvalda. Þar er undið að hluta til ofan af þeim mjög svo misráðnu breytingum, sem voru gerðar á búvörulögunum í fyrra, þegar frumvarpi þáverandi atvinnuvegaráðherra var gjörbreytt í meðförum þingsins og alltof víðtæk undanþága afurðastöðva frá samkeppnislögum keyrð í gegnum Alþingi á fáeinum dögum, þrátt fyrir andstöðu samtaka fyrirtækja í verzlun, Neytendasamtakanna, verkalýðshreyfingarinnar og Samkeppniseftirlitsins. Með lagasetningunni voru hópi fyrirtækja afhent þau sérréttindi að vera undanþegin lagaákvæðum, sem keppinautar þeirra gætu fengið sex ára fangelsi fyrir að brjóta, án nokkurra raunhæfra möguleika samkeppnisyfirvalda á að grípa inn í. Opnað var fyrir óhefta samruna kjötafurðastöðva, sömuleiðis án inngripa samkeppnisyfirvalda. Lögin settu þannig afar varasamt fordæmi og ógna augljóslega jafnræði á markaði og hagsmunum hins almenna neytanda. Það er rétt að taka fram að Félag atvinnurekenda var ekki haft með í ráðum við samningu frumvarps atvinnuvegaráðherra, en augljóslega hefur verið tekið mark á ýmsum þeim athugasemdum, sem ofangreind breiðfylking gerði við lagabreytingar þáverandi stjórnarmeirihluta. Rétt eins og fyrrverandi stjórnarmeirihluti gekk alltof langt í að veita undanþágur frá samkeppnislögum, ganga talsmenn flokkanna, sem mynduðu síðustu ríkisstjórn, einkennilega langt í fullyrðingum um frumvarpsdrögin. Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kallar þau „árás á íslenskan landbúnað, eina þá stærstu um árabil.“ Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að frumvarpsdrögin séu „grímulaus aðför að landbúnaðinum í landinu“. Sambærilegar undanþágur og í nágrannalöndum Skoðum aðeins hverju frumvarpsdrögin myndu breyta, yrðu þau að lögum, miðað við núgildandi lög. Áðurnefndur Sigurður Ingi Jóhannsson hefur margoft haldið því fram að lagabreytingin í fyrra hafi bara veitt íslenzkum landbúnaði sambærilegar undanþágur frá samkeppnislögum og tíðkist í nágrannalöndunum. Ekki þarf annað en að lesa skýrslu Lagastofnunar Háskóla Íslands um slíkar undanþágur til að sjá að þær fullyrðingar eru hrein ósannindi. Gengið var miklu lengra og ber þá þrennt hæst. Fyrir það fyrsta veitti Alþingi afurðastöðvum víðtæka undanþágu frá samkeppnislögum, óháð eignarhaldi þeirra og stjórn. Í Evrópuréttinum eru undanþágur bundnar við félög í eigu og undir stjórn bænda. Í annan stað var eftirlit samkeppnisyfirvalda með samrunum tekið úr sambandi, sem hvergi annars staðar hefur verið reynt. Afurðastöðvar geta sameinazt eins og þeim sýnist án þess að Samkeppniseftirlitið geti sett þeim samrunum skilyrði í þágu bænda og neytenda, eins og gerðist t.d. þegar Kjarnafæði og Norðlenska sameinuðust. Í þriðja lagi voru ákvæði um eftirlit samkeppnisyfirvalda með óheimilum samningum eða ákvörðunum framleiðenda felld út úr upphaflega frumvarpinu. Með frumvarpsdrögunum, sem atvinnuvegaráðherra hefur nú lagt fram, er lagt til að löggjöfin færist til svipaðs horfs og er í nágrannalöndunum. Staða bænda styrkist Þannig er í fyrsta lagi lagt til að framleiðendafélög hafi áfram undanþágu frá bannákvæðum 10. og 12. greinar samkeppnislaga, en þá eingöngu félög sem eru í eigu eða undir stjórn frumframleiðenda, þ.e. bænda. Gert er ráð fyrir að þótt afurðastöð sé ekki að fullu í eigu bænda, geti hún fallið undir undanþáguna ef bændur hafa virk yfirráð í henni. Í greinargerð frumvarpsins er bent á að þetta geti þýtt að endurskipuleggja þurfi afurðastöðvar til þess að þær uppfylli þau skilyrði sem lögð eru til í frumvarpinu og geti nýtt sér þau tækifæri til hagræðingar sem felast í undanþágunni frá samkeppnislögum. Með þessu myndi staða bænda styrkjast. Það er einnig til þess fallið að styrkja stöðu bænda gagnvart afurðastöðvum að í drögunum er kveðið á um skyldu afurðastöðvar eða framleiðendafélags, sem hefur meira en 40% hlutdeild á tilteknum markaði, til að safna og taka við mjólk og sláturgripum í sauðfjár-, nauta- og hrossarækt af bændum og að þá sé óheimilt að taka hærra gjald af bændum fyrir heimteknar afurðir en sem nemur raunkostnaði. Þannig eflist samningsstaða bænda gagnvart stórum afurðastöðvum og þeir eru í betri stöðu til að taka heim afurðir til frekari verðmætasköpunar, s.s. sölu beint frá býli, eins og bent er á í greinargerðinni. Í þessu ljósi er hörð andstaða Bændasamtaka Íslands við frumvarpsdrögin ekki alveg auðskilin. Hvers vegna leggjast samtök bænda gegn lagabreytingum, sem stuðla að því að valdefla bændur og að þeir endurheimti yfirráð yfir kjötafurðastöðvum? Af hverju finnst samtökunum mikilvægt að standa vörð um hagsmuni stjórnenda afurðastöðva, sem ítrekað hunza sjónarmið bænda sem leggja inn hjá þeim? Er mjólkuriðnaðinum kollvarpað? Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum, sem hefur verið í gildi í rúma tvo áratugi. Hún verður áfram í gildi, enda uppfyllir Auðhumla, félag bænda og móðurfélag Mjólkursamsölunnar, augljóslega skilyrði til þess að teljast framleiðendafélag og hefur tveggja ára svigrúm til að sækja um viðurkenningu sem slíkt. Mjólkuriðnaðurinn fellur því undir sömu undanþáguheimildir og kjötiðnaðurinn, en um leið fellur úr gildi víðtækari undanþága, sem mjólkuriðnaðurinn fékk árið 2004. Undanþágan verður þá fremur í takt við það sem tíðkast í öðrum Evrópuríkjum. Stærsta efnislega breytingin hvað mjólkuriðnaðinn varðar er að hann verður aftur settur undir eftirlit samkeppnisyfirvalda með samrunum og óheimilum samningum eða ákvörðunum framleiðenda. Í ljósi þess að breytingin verður ekki afturvirk, er algjörlega fráleitt að tala eins og ofangreindir talsmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafa gert, að þeirri hagræðingu sé í hættu stefnt, sem reiknað hefur verið út að hafi átt sér stað með sameiningu allra mjólkurstöðva í eina samsteypu. (Í þá útreikninga vantar raunar óhagræði neytenda af takmarkaðri samkeppni á mjólkurmarkaðnum.) Hins vegar verður komið í veg fyrir að MS eða Kaupfélag Skagfirðinga geti gleypt nýjan keppinaut án atbeina samkeppnisyfirvalda, sem verða nú að teljast góð tíðindi. Las stjórn Bændasamtakanna frumvarpsdrögin? Í þessu ljósi vekur fréttatilkynning stjórnar Bændasamtaka Íslands um frumvarpsdrögin líka furðu. Þar eru drögin kölluð „atlaga að íslenskum mjólkuriðnaði“ og sagt að kollvarpa eigi 20 ára gömlu fyrirkomulagi. „Með boðuðum breytingum á að afnema heimild afurðastöðva til að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða,“ segir í tilkynningu stjórnar BÍ. „Þessi verkaskipting milli mjólkursamlaga og annað samstarf um framleiðslu, geymslu og dreifingu er grunnurinn að umræddri hagræðingu. Verði drögin að lögum mun það hafa bein áhrif á alla kúabændur og neytendur enda myndi framleiðslukostnaður aukast. Einna helst myndi það bitna á þeim kúabúum sem eru langt frá mjólkursamlögum og hættan er sú að mjólkurframleiðsl[u] verði sjálfhætt á þeim svæðum, með augljósum samfélagslegum og efnahagslegum afleiðingum fyrir viðkomandi svæði.“ Þessi texti er með miklum ólíkindum. Hann er í fyrsta lagi skrifaður eins og engar sameiningar eða samstarf hafi átt sér stað í mjólkuriðnaðinum, þegar staðreyndin er sú að ein samsteypa Auðhumlu, MS og KS er allsráðandi á mjólkurmarkaðnum, eftir sameiningar í skjóli undanþágunnar frá 2004. Það er ekkert í frumvarpsdrögunum um að hún verði brotin upp aftur og ekkert sem bendir til að það geti orðið. Ekki er minnzt einu orði á ákvæði frumvarpsdraganna eða umfjöllun í greinargerð um að undanþága frá samkeppnislögum sé áfram í boði fyrir mjólkuriðnaðinn vegna stöðu Auðhumlu sem framleiðendafélags, og ekki heldur um skyldu markaðsráðandi afurðastöðva til að safna og taka á móti mjólk. Annaðhvort hefur stjórn Bændasamtakanna ekki lesið frumvarpsdrögin eða hér er skrifað gegn betri vitund. Það er heldur ekkert í frumvarpsdrögunum sem rennir stoðum undir þá túlkun formanns Bændasamtakanna í Bylgjunni í morgun að minni fyrirtæki í mjólkurframleiðslu (t.d. Arna eða Biobú) missi þjónustu Auðhumlu við að afhenda þeim mjólk og ef verði af því geti þau þurft að safna mjólkinni sjálf fyrir vinnslu. Ekkert bendir til þess að þær kvaðir, sem í dag eru á markaðsráðandi fyrirtækjum um að afhenda minni framleiðendum mjólk, breytist neitt þótt frumvarpsdrögin verði að lögum. Hér er bara verið að slá ryki í augu fólks. Hlutverk samkeppnisyfirvalda tryggt Þriðja breytingin, sem frumvarpið felur í sér, er að þrátt fyrir undanþágur sem eiga að greiða fyrir hagræðingu í kjötiðnaðinum, er að tryggt verður að samrunareglum samkeppnisréttarins sé fylgt, eins og í öðrum Evrópuríkjum, og að Samkeppniseftirlitið geti gripið inn í samninga eða ákvarðanir afurðastöðva sem takmarka eða hafa skaðleg áhrif á samkeppni á markaði eða hafa í för með sér hættu á að samkeppni verði útilokuð. Í þessu felst mikilvæg vörn, fyrir keppinauta afurðastöðvanna á kjötmarkaðnum, fyrir neytendur – og fyrir bændur. Höldum okkur við staðreyndirnar Það er eðlilegt að fólk hafi mismunandi skoðanir á efni frumvarpsdraganna. Að mati Félags atvinnurekenda er með þeim dregið úr stærstu göllum þeirrar lagasetningar, sem keyrð var í gegnum þingið í fyrra. FA hefur ekki talið þörf á að setja í búvörulögin undanþágur frá samkeppnislögum til að tryggja hagræðingu í úrvinnslugreinum landbúnaðarins, því að samkeppnislögin sjálf innihalda almenn undanþáguákvæði, sem fyrirtæki í þessum geirum geta nýtt. Félagið telur hins vegar ekki ástæðu til að leggjast gegn því að í íslenzkri löggjöf séu sambærilegar undanþáguheimildir fyrir samstarf bænda, fyrirtækja þeirra og samtaka í þágu hagræðingar og gilda í öðrum Evrópuríkjum. FA vill stuðla að því að styrkja stöðu bænda og er sammála atvinnuvegaráðherranum um að þessi frumvarpsdrög þjóni þeim tilgangi. Frumvarpsdrögin eru komin til samráðs og allir hafa tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri – sem var ekki raunin þegar ákveðið var að drífa misráðnar breytingar í gegnum Alþingi í fyrra. Það væri gott að í umræðum um málið héldi fólk sig við staðreyndir og gengi út frá því sem raunverulega stendur í frumvarpsdrögunum, en afbaki það ekki með hálfsannleik og hræðsluáróðri. Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Búvörusamningar Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur Landbúnaður Mest lesið Opið bréf til Miðflokksmanna Snorri Másson Skoðun Opnum Tröllaskagann Helgi Jóhannsson Skoðun Henti Íslandi undir strætisvagninn Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Landbúnaðarrúnk Hlédís Sveinsdóttir Skoðun Jesús who? Atli Þórðarson Skoðun Er lægsta verðið alltaf hagstæðast? Karen Ósk Nielsen Björnsdóttir Skoðun Eru Bændasamtökin á móti valdeflingu bænda? Ólafur Stephensen Skoðun Sýndu þér umhyggju – Komdu í skimun Ágúst Ingi Ágústsson Skoðun Lesskilningur eða lesblinda??? Jóhannes Jóhannesson Skoðun Forvarnateymi grunnskóla – góð hugmynd sem má ekki sofna Eydís Ásbjörnsdóttir Skoðun Skoðun Skoðun Reykjavíkurmódel á kvennaári Sóley Tómasdóttir skrifar Skoðun Ekki er allt sem sýnist Valerio Gargiulo skrifar Skoðun Sýndu þér umhyggju – Komdu í skimun Ágúst Ingi Ágústsson skrifar Skoðun Eru Bændasamtökin á móti valdeflingu bænda? Ólafur Stephensen skrifar Skoðun Er lægsta verðið alltaf hagstæðast? Karen Ósk Nielsen Björnsdóttir skrifar Skoðun Landbúnaðarrúnk Hlédís Sveinsdóttir skrifar Skoðun Jesús who? Atli Þórðarson skrifar Skoðun Opið bréf til Miðflokksmanna Snorri Másson skrifar Skoðun Lesskilningur eða lesblinda??? Jóhannes Jóhannesson skrifar Skoðun Henti Íslandi undir strætisvagninn Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Forvarnateymi grunnskóla – góð hugmynd sem má ekki sofna Eydís Ásbjörnsdóttir skrifar Skoðun Opnum Tröllaskagann Helgi Jóhannsson skrifar Skoðun Ávinningur af endurhæfingu – aukum lífsgæðin Ólafur H. Jóhannsson skrifar Skoðun Hefur þú heyrt þetta áður? Stefnir Húni Kristjánsson skrifar Skoðun Hringekja verðtryggingar og hárra vaxta Benedikt Gíslason skrifar Skoðun Áfram gakk – með kerfisgalla í bakpokanum Harpa Þorsteinsdóttir skrifar Skoðun Til þeirra sem fagna Doktornum! Kristján Freyr Halldórsson skrifar Skoðun Skuldin við úthverfin Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir skrifar Skoðun Málgögn og gervigreind Steinþór Steingrímsson,Einar Freyr Sigurðsson,Helga Hilmisdóttir skrifar Skoðun Réttlæti hins sterka. Gildra dómarans Jörgen Ingimar Hansson skrifar Skoðun Einelti er dauðans alvara Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar Skoðun Hafa íslenskir neytendur sama rétt og evrópskir? Ásthildur Lóa Þórsdóttir,Ragnar Þór Ingólfsson skrifar Skoðun Sótt að réttindum kvenna — núna Svandís Svavarsdóttir skrifar Skoðun Afnám tilfærslu milli skattþrepa Breki Pálsson skrifar Skoðun Þegar heilinn sveltur: Tími til að endurhugsa stefnu í geðheilbrigðismálum Vigdís M. Jónsdóttir skrifar Skoðun Opið bréf til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Bogi Ragnarsson skrifar Skoðun Íslenska þjóð, þú ert núna að gleyma Sighvatur Björgvinsson skrifar Skoðun Tölum íslensku um bíðandi börn: Uppgjöf, svarthol og lögbrot Vigdís Gunnarsdóttir skrifar Skoðun Fjórði hver vinnur í verslun og þjónustu Benedikt S. Benediktsson skrifar Skoðun Engin eftirspurn eftir Viðreisnar- og Samfylkingarmódelinu Andri Steinn Hilmarsson skrifar Sjá meira
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hefur lagt fram drög að frumvarpi um breytingar á búvörulögum í samráðsgátt stjórnvalda. Þar er undið að hluta til ofan af þeim mjög svo misráðnu breytingum, sem voru gerðar á búvörulögunum í fyrra, þegar frumvarpi þáverandi atvinnuvegaráðherra var gjörbreytt í meðförum þingsins og alltof víðtæk undanþága afurðastöðva frá samkeppnislögum keyrð í gegnum Alþingi á fáeinum dögum, þrátt fyrir andstöðu samtaka fyrirtækja í verzlun, Neytendasamtakanna, verkalýðshreyfingarinnar og Samkeppniseftirlitsins. Með lagasetningunni voru hópi fyrirtækja afhent þau sérréttindi að vera undanþegin lagaákvæðum, sem keppinautar þeirra gætu fengið sex ára fangelsi fyrir að brjóta, án nokkurra raunhæfra möguleika samkeppnisyfirvalda á að grípa inn í. Opnað var fyrir óhefta samruna kjötafurðastöðva, sömuleiðis án inngripa samkeppnisyfirvalda. Lögin settu þannig afar varasamt fordæmi og ógna augljóslega jafnræði á markaði og hagsmunum hins almenna neytanda. Það er rétt að taka fram að Félag atvinnurekenda var ekki haft með í ráðum við samningu frumvarps atvinnuvegaráðherra, en augljóslega hefur verið tekið mark á ýmsum þeim athugasemdum, sem ofangreind breiðfylking gerði við lagabreytingar þáverandi stjórnarmeirihluta. Rétt eins og fyrrverandi stjórnarmeirihluti gekk alltof langt í að veita undanþágur frá samkeppnislögum, ganga talsmenn flokkanna, sem mynduðu síðustu ríkisstjórn, einkennilega langt í fullyrðingum um frumvarpsdrögin. Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kallar þau „árás á íslenskan landbúnað, eina þá stærstu um árabil.“ Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að frumvarpsdrögin séu „grímulaus aðför að landbúnaðinum í landinu“. Sambærilegar undanþágur og í nágrannalöndum Skoðum aðeins hverju frumvarpsdrögin myndu breyta, yrðu þau að lögum, miðað við núgildandi lög. Áðurnefndur Sigurður Ingi Jóhannsson hefur margoft haldið því fram að lagabreytingin í fyrra hafi bara veitt íslenzkum landbúnaði sambærilegar undanþágur frá samkeppnislögum og tíðkist í nágrannalöndunum. Ekki þarf annað en að lesa skýrslu Lagastofnunar Háskóla Íslands um slíkar undanþágur til að sjá að þær fullyrðingar eru hrein ósannindi. Gengið var miklu lengra og ber þá þrennt hæst. Fyrir það fyrsta veitti Alþingi afurðastöðvum víðtæka undanþágu frá samkeppnislögum, óháð eignarhaldi þeirra og stjórn. Í Evrópuréttinum eru undanþágur bundnar við félög í eigu og undir stjórn bænda. Í annan stað var eftirlit samkeppnisyfirvalda með samrunum tekið úr sambandi, sem hvergi annars staðar hefur verið reynt. Afurðastöðvar geta sameinazt eins og þeim sýnist án þess að Samkeppniseftirlitið geti sett þeim samrunum skilyrði í þágu bænda og neytenda, eins og gerðist t.d. þegar Kjarnafæði og Norðlenska sameinuðust. Í þriðja lagi voru ákvæði um eftirlit samkeppnisyfirvalda með óheimilum samningum eða ákvörðunum framleiðenda felld út úr upphaflega frumvarpinu. Með frumvarpsdrögunum, sem atvinnuvegaráðherra hefur nú lagt fram, er lagt til að löggjöfin færist til svipaðs horfs og er í nágrannalöndunum. Staða bænda styrkist Þannig er í fyrsta lagi lagt til að framleiðendafélög hafi áfram undanþágu frá bannákvæðum 10. og 12. greinar samkeppnislaga, en þá eingöngu félög sem eru í eigu eða undir stjórn frumframleiðenda, þ.e. bænda. Gert er ráð fyrir að þótt afurðastöð sé ekki að fullu í eigu bænda, geti hún fallið undir undanþáguna ef bændur hafa virk yfirráð í henni. Í greinargerð frumvarpsins er bent á að þetta geti þýtt að endurskipuleggja þurfi afurðastöðvar til þess að þær uppfylli þau skilyrði sem lögð eru til í frumvarpinu og geti nýtt sér þau tækifæri til hagræðingar sem felast í undanþágunni frá samkeppnislögum. Með þessu myndi staða bænda styrkjast. Það er einnig til þess fallið að styrkja stöðu bænda gagnvart afurðastöðvum að í drögunum er kveðið á um skyldu afurðastöðvar eða framleiðendafélags, sem hefur meira en 40% hlutdeild á tilteknum markaði, til að safna og taka við mjólk og sláturgripum í sauðfjár-, nauta- og hrossarækt af bændum og að þá sé óheimilt að taka hærra gjald af bændum fyrir heimteknar afurðir en sem nemur raunkostnaði. Þannig eflist samningsstaða bænda gagnvart stórum afurðastöðvum og þeir eru í betri stöðu til að taka heim afurðir til frekari verðmætasköpunar, s.s. sölu beint frá býli, eins og bent er á í greinargerðinni. Í þessu ljósi er hörð andstaða Bændasamtaka Íslands við frumvarpsdrögin ekki alveg auðskilin. Hvers vegna leggjast samtök bænda gegn lagabreytingum, sem stuðla að því að valdefla bændur og að þeir endurheimti yfirráð yfir kjötafurðastöðvum? Af hverju finnst samtökunum mikilvægt að standa vörð um hagsmuni stjórnenda afurðastöðva, sem ítrekað hunza sjónarmið bænda sem leggja inn hjá þeim? Er mjólkuriðnaðinum kollvarpað? Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum, sem hefur verið í gildi í rúma tvo áratugi. Hún verður áfram í gildi, enda uppfyllir Auðhumla, félag bænda og móðurfélag Mjólkursamsölunnar, augljóslega skilyrði til þess að teljast framleiðendafélag og hefur tveggja ára svigrúm til að sækja um viðurkenningu sem slíkt. Mjólkuriðnaðurinn fellur því undir sömu undanþáguheimildir og kjötiðnaðurinn, en um leið fellur úr gildi víðtækari undanþága, sem mjólkuriðnaðurinn fékk árið 2004. Undanþágan verður þá fremur í takt við það sem tíðkast í öðrum Evrópuríkjum. Stærsta efnislega breytingin hvað mjólkuriðnaðinn varðar er að hann verður aftur settur undir eftirlit samkeppnisyfirvalda með samrunum og óheimilum samningum eða ákvörðunum framleiðenda. Í ljósi þess að breytingin verður ekki afturvirk, er algjörlega fráleitt að tala eins og ofangreindir talsmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafa gert, að þeirri hagræðingu sé í hættu stefnt, sem reiknað hefur verið út að hafi átt sér stað með sameiningu allra mjólkurstöðva í eina samsteypu. (Í þá útreikninga vantar raunar óhagræði neytenda af takmarkaðri samkeppni á mjólkurmarkaðnum.) Hins vegar verður komið í veg fyrir að MS eða Kaupfélag Skagfirðinga geti gleypt nýjan keppinaut án atbeina samkeppnisyfirvalda, sem verða nú að teljast góð tíðindi. Las stjórn Bændasamtakanna frumvarpsdrögin? Í þessu ljósi vekur fréttatilkynning stjórnar Bændasamtaka Íslands um frumvarpsdrögin líka furðu. Þar eru drögin kölluð „atlaga að íslenskum mjólkuriðnaði“ og sagt að kollvarpa eigi 20 ára gömlu fyrirkomulagi. „Með boðuðum breytingum á að afnema heimild afurðastöðva til að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða,“ segir í tilkynningu stjórnar BÍ. „Þessi verkaskipting milli mjólkursamlaga og annað samstarf um framleiðslu, geymslu og dreifingu er grunnurinn að umræddri hagræðingu. Verði drögin að lögum mun það hafa bein áhrif á alla kúabændur og neytendur enda myndi framleiðslukostnaður aukast. Einna helst myndi það bitna á þeim kúabúum sem eru langt frá mjólkursamlögum og hættan er sú að mjólkurframleiðsl[u] verði sjálfhætt á þeim svæðum, með augljósum samfélagslegum og efnahagslegum afleiðingum fyrir viðkomandi svæði.“ Þessi texti er með miklum ólíkindum. Hann er í fyrsta lagi skrifaður eins og engar sameiningar eða samstarf hafi átt sér stað í mjólkuriðnaðinum, þegar staðreyndin er sú að ein samsteypa Auðhumlu, MS og KS er allsráðandi á mjólkurmarkaðnum, eftir sameiningar í skjóli undanþágunnar frá 2004. Það er ekkert í frumvarpsdrögunum um að hún verði brotin upp aftur og ekkert sem bendir til að það geti orðið. Ekki er minnzt einu orði á ákvæði frumvarpsdraganna eða umfjöllun í greinargerð um að undanþága frá samkeppnislögum sé áfram í boði fyrir mjólkuriðnaðinn vegna stöðu Auðhumlu sem framleiðendafélags, og ekki heldur um skyldu markaðsráðandi afurðastöðva til að safna og taka á móti mjólk. Annaðhvort hefur stjórn Bændasamtakanna ekki lesið frumvarpsdrögin eða hér er skrifað gegn betri vitund. Það er heldur ekkert í frumvarpsdrögunum sem rennir stoðum undir þá túlkun formanns Bændasamtakanna í Bylgjunni í morgun að minni fyrirtæki í mjólkurframleiðslu (t.d. Arna eða Biobú) missi þjónustu Auðhumlu við að afhenda þeim mjólk og ef verði af því geti þau þurft að safna mjólkinni sjálf fyrir vinnslu. Ekkert bendir til þess að þær kvaðir, sem í dag eru á markaðsráðandi fyrirtækjum um að afhenda minni framleiðendum mjólk, breytist neitt þótt frumvarpsdrögin verði að lögum. Hér er bara verið að slá ryki í augu fólks. Hlutverk samkeppnisyfirvalda tryggt Þriðja breytingin, sem frumvarpið felur í sér, er að þrátt fyrir undanþágur sem eiga að greiða fyrir hagræðingu í kjötiðnaðinum, er að tryggt verður að samrunareglum samkeppnisréttarins sé fylgt, eins og í öðrum Evrópuríkjum, og að Samkeppniseftirlitið geti gripið inn í samninga eða ákvarðanir afurðastöðva sem takmarka eða hafa skaðleg áhrif á samkeppni á markaði eða hafa í för með sér hættu á að samkeppni verði útilokuð. Í þessu felst mikilvæg vörn, fyrir keppinauta afurðastöðvanna á kjötmarkaðnum, fyrir neytendur – og fyrir bændur. Höldum okkur við staðreyndirnar Það er eðlilegt að fólk hafi mismunandi skoðanir á efni frumvarpsdraganna. Að mati Félags atvinnurekenda er með þeim dregið úr stærstu göllum þeirrar lagasetningar, sem keyrð var í gegnum þingið í fyrra. FA hefur ekki talið þörf á að setja í búvörulögin undanþágur frá samkeppnislögum til að tryggja hagræðingu í úrvinnslugreinum landbúnaðarins, því að samkeppnislögin sjálf innihalda almenn undanþáguákvæði, sem fyrirtæki í þessum geirum geta nýtt. Félagið telur hins vegar ekki ástæðu til að leggjast gegn því að í íslenzkri löggjöf séu sambærilegar undanþáguheimildir fyrir samstarf bænda, fyrirtækja þeirra og samtaka í þágu hagræðingar og gilda í öðrum Evrópuríkjum. FA vill stuðla að því að styrkja stöðu bænda og er sammála atvinnuvegaráðherranum um að þessi frumvarpsdrög þjóni þeim tilgangi. Frumvarpsdrögin eru komin til samráðs og allir hafa tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri – sem var ekki raunin þegar ákveðið var að drífa misráðnar breytingar í gegnum Alþingi í fyrra. Það væri gott að í umræðum um málið héldi fólk sig við staðreyndir og gengi út frá því sem raunverulega stendur í frumvarpsdrögunum, en afbaki það ekki með hálfsannleik og hræðsluáróðri. Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Skoðun Málgögn og gervigreind Steinþór Steingrímsson,Einar Freyr Sigurðsson,Helga Hilmisdóttir skrifar
Skoðun Hafa íslenskir neytendur sama rétt og evrópskir? Ásthildur Lóa Þórsdóttir,Ragnar Þór Ingólfsson skrifar
Skoðun Þegar heilinn sveltur: Tími til að endurhugsa stefnu í geðheilbrigðismálum Vigdís M. Jónsdóttir skrifar
Skoðun Engin eftirspurn eftir Viðreisnar- og Samfylkingarmódelinu Andri Steinn Hilmarsson skrifar