Skoðun

Betri mönnun er lykillinn

Skúli Helgason og Sabine Leskopf skrifa

Miklar áskoranir varðandi mönnun hafa mætt leikskólum um land allt undanfarin ár og áratugi.Ljóst er að vanhugsaðar ákvarðanir Alþingis um lengingu kennaranáms árið 2008 höfðu þau óæskilegu en að mörgu leyti fyrirsjáanlegu áhrif að aðsókn ungs fólks í kennaranám hrundi og verulegur skortur á leikskólakennurum fylgdi í kjölfarið sem enn hefur ekki tekist að vinna til baka þrátt fyrir batamerki hin síðari ár. Eitt leyfisbréf þvert á skólastíg hefur einnig haft í för með sér að missa menntaða leikskólakennara til annarra skólastíga. Reykjavíkurborg steig fram fyrir skjöldu árið 2018 með aðgerðum til að bæta starfsaðstæður í leikskólum, sem drógu úr álagi á starfsfólk og börn og önnur sveitarfélög hafa fylgt í kjölfarið með aðgerðum undanfarin misseri til að mæta mönnunarvandanum. Einnig var mikil áhersla lögð á að kynna bæði starfið og námið betur fyrir ungu fólki.

Minnkum óvissu og fáliðun

Nú hefur þverpólitískur stýrihópur á vegum borgarinnar skilað fyrsta hluta tillagna sinna sem hafa það markmið að bæta enn frekar mönnun og starfsaðstæður á leikskólum borgarinnar, minnka fyrirvaralausar fáliðunaraðgerðir og auka þannig fyrirsjáanleika starfseminnar fyrir foreldra, börn og starfsfólk auk þess að hvetja foreldra sem það geta til að stytta dvalartíma í því augnamiði að minnka álag á starfsemina. Þessar tillögur koma til viðbótar jákvæðum áhrifum nýrra kjarasamninga við leikskólakennara í byrjun árs sem borgaryfirvöld studdu með ráðum og dáð, ekki síst núverandi borgarstjóri.

Samvera barna og foreldra er dýrmæt fyrir þroska sérstaklega yngstu barna, hins vegar er mikilvægt að sveitarfélög séu meðvituð um það að aðstæður foreldra og forráðamanna eru mismunandi og svigrúm þeirra sömuleiðis til að minnka við sig vinnu til að auka samveru með börnum sínum. Það hefur því verið leiðarljós stýrihópsins að beita hvötum frekar en boðum og bönnum til að hafa jákvæð áhrif á umgjörð leikskólastarfsins þ.m.t. lengd vistunartímans.

Jákvæðir hvatar og tekjutillit

Markmið tillagnanna sem nú eru kynntar er að standa vörð um faglegt leikskólastarf og tryggja meiri stöðugleika fyrir bæði foreldra, börn og starfsfólk. Þær snúa m.a. að skipulagi leikskóladagsins, dvalartíma barna og gjaldskrá leikskóla. Tillögunum er ætlað að vinna gegn ófyrirséðum fáliðunaraðgerðum vegna mönnunarvanda, sem reynast foreldrum afar íþyngjandi.Aðgerðirnar miða að því að skapa meiri fyrirsjáanleika og draga úr álagi samhliða styttri vistunartíma barna, samhliða því sem staðinn er vörður um faglegt starf leikskóla. Foreldrar hafa áfram val um lengd vistunartíma barna sinna en kynntir eru til sögunnar fjárhagslegir hvatar í formi verulegs afsláttar af leikskólagjöldum ef vistunartíminn er styttur. Sá afsláttur hækkar í hlutfalli við styttri vistunartíma. Þá er sérstakur afsláttur veittur fyrir foreldra sem ekki skrá börn sín í vistun eftir kl. 14 á föstudögum. Markmiðið með þeirri aðgerð er að nýta þann tíma til að mæta skuldbindingum borgarinnar gagnvart styttingu vinnuviku starfsfólks, sem er verkefni sem borgin þróaði með góðum árangri á sínum tíma og hefur síðan verið staðfestur í kjarasamningum fjölmennra stéttarfélaga.

Við jafnaðarfólk í Samfylkingunni höfum lagt sérstaka áherslu á að standa vörð um efnaminni fjölskyldur við útfærslu tillagnanna og birtist það m.a. í sérstöku tekjutilliti sem ætlað er að verja hag þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Þeir munu njóta allt að 80% afsláttar af vistunargjöldum leikskóla ef tillögurnar verða að veruleika, jafnt einstaklingar sem sambúðarfólk en hingað til hafa einungis einstæðir foreldrar notið mestu afsláttarkjara án tillits til tekna, auk forgangshópa námsmanna, öryrkja og starfsfólks leikskóla.

Samráð framundan

Tillögurnar hafa verið kynntar í borgarráði, verða kynntar í skóla- og frístundaráði í næstu viku og fara svo í samráðsgátt borgarinnar, þar sem foreldrar, starfsfólk og önnur áhugasöm eru hvött til að senda inn sín sjónarmið, ábendingar og hugmyndir varðandi tillögurnar og útfærslu þeirra. Samráðsferlið stendur yfir frá 15.-29. október og í kjölfarið verður unnið úr athugasemdum og ábendingum áður en tillögurnar koma til afgreiðslu hjá borginni. Við hvetjum allt áhugafólk um faglegt og gott leikskólastarf til að taka þátt í samráðinu og taka þátt í því með okkur að bæta skipulag og umgjörð leikskólastarfs í borginni.

Við erum sannfærð um að með góðu samstarfi getum við unnið gegn því að börn séu send heim með litlum fyrirvara vegna fáliðunar sem bitnar mest á þeim sem hafa minnsta svigrúm í vinnunni eða baklandi. Fleiri tillögur til að létta álagi á öflugt starfsfólk leikskólanna og bæta starfsaðstæður þeirra munu fylgja fljótlega.

Höfundar eru borgarfulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúar í stýrihópi um breytingar á reglum um leikskólastarf.




Skoðun

Sjá meira


×