Erlent

Fleiri en tuttugu látnir eftir jarð­skjálfta á Filipps­eyjum

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Miklar skemmdir eru á byggingum víða um eyjuna.
Miklar skemmdir eru á byggingum víða um eyjuna. Getty

Minnst tuttugu og tveir eru látnir eftir jarðskjálfta sem mældist 6,9 að stærð á Filippseyjum fyrr í dag. Jarðskjálftinn átti upptök sín við norðurenda eyjunnar Cebu, en þar búa 3,2 milljónir manna.

CNN greinir frá því að jarðskjálftinn hafi átt upptök sín um 10 kílómetrum undir sjávarbotni ekki langt undan borginni Bogo á Cebu. Jarðskjálftinn hafi orðið klukkan tíu að kvöldi að staðartíma, og björgunaraðgerðir hafi staðið yfir í nótt.

Richard Gordon, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Filippseyjum, segir að minnst þrettán hafi látist í bænum San Remigio, þegar íþróttavöllur hrundi, þar sem verið var að spila körfubolta.

Miklar skemmdir urðu á þessari kirkjubyggingu.AP

Sjúkraliðar Rauða krossins hafi til þessa hjúkrað minnst sextíu slösuðum.

„Einhverjar kirkjur hrundu að hluta til, og sumir skólar voru rýmdir.“

Margir eftirskjálftar mældust á klukkutímunum eftir skjálftann. Gefin var út flóðbylgjuviðvörun strax eftir skjálftann, sem var felld úr gildi nokkrum klukkutímum seinna.

Samkvæmt umfjöllun Guardian er fjöldi látinna orðinn 22. Þar segir að viðbragðsaðilar séu að störfum í öllum þeim borgum og bæjum sem urðu fyrir áhrifum af skjálftanum.

„Það eru einhverjir ennþá fastir undir byggingum sem hrundu. Við vitum ekki hversu margir eru týndir,“ sagði Wilson Ramos, björgunarmaður við Guardian.

Ónýtur vegur.Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×