Upp­gjörið: Stjarnan - Njarð­vík 64-81 | Reynslan skilaði gestunum sigri

Heiðar Snær Magnússon skrifar
Brittany Dinkins skoraði 26 stig, tók 8 fráköst og gaf 4 stoðsendingar í kvöld.
Brittany Dinkins skoraði 26 stig, tók 8 fráköst og gaf 4 stoðsendingar í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan fékk Njarðvík í heimsókn í ÞG-Verk Höllina í Garðabæ í 1. umferð Bónus deild kvenna í körfubolta, lokatölur 64-81 og gestirnir frá Njarðvík byrja tímabilið því á sigri. 

Leikurinn var hnífjafn til að byrja með og var staðan eftir 1. leikhluta 18-18 en Njarðvík steig svo aðeins á bensíngjöfina og vann 2. leikhluta 24-17 og leiddu með sjö stigum í þegar liðin gengu til búningsherbergja. Stjarnan hélt áfram að hanga í Njarðvík en einstaklingsgæði Njarðvíkurliðins skinu í gegn í seinni hálfleik á meðan Stjarnan voru klaufar varnarlega og brutu óþarflega mikið á Njarðvíkurkonum sem gerði þeim auðvelt fyrir að setja stig á töfluna.

Í seinni hálfleik gekk báðum liðum afleitlega að skora en gerðu það helst af vítalínunni, ákafi Stjörnuliðsins varð þeirra Akkilesarhæll þar liðið fór að lenda í töluverðum villuvandræðum. staðan eftir þriðja leikhluta var 48-59 en Njarðvík gerði svo vel í 4. og síðasta leikhlutanum, héldu áfram að koma sér á vítalínuna og lönduðu að lokum nokkuð öruggum 17 stiga sigri, 64-81.

Atvik leiksins

Atvik leiksins átti sér í rauninni í stað fyrir leik þegar ljóst varð að bandaríski leikmaður Stjörnunnar Shaiquel McGruder var ekki komin meleikheimild í tæka tíð. Hvort vanmat hafi átt sér stað í leikmannahópi Njarðvíkur við þær fréttir eða ekki þá var sóknarleikur Njarðvíkur alls ekki sannfærandi þrátt fyrir að sigurinn hafi verið nokkuð öruggur að lokum

Stjörnur og skúrkar

Í Njarðvíkurliðinu eru mikil einstaklingsgæði og gerðu þau baggamuninn að lokum. Brittany Dinkins skoraði 26 stig og í frábærri skotnýtingu og Dani Rodriguez skoraði 19 stig, tók 13 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Áhyggjuefni fyrir Njarðvíkur liðið er hversu lítið Paulina Hersler komst í takt við leikinn, skotaði hún 7 af 11 stigum sínum f vítalínunni og endaði á því að taka aðeins fjögur skot í leiknum. Sóknarleikur Njarðvíkur liðsins á hálfum velli er klárlega eitthvað sem Einar þjálfari liðsins þarf að hafa áhyggjur af eftir þennan leik. 

Hjá Stjörnunni voru margir jákvæðir punktar, fjórir leikmenn sem skora 10 stig eða meira. Berglind Katla Hlynsdóttir skoraði 15 stig og var stigahæst, 15 ára gömul. Eva Wium spilaði sinn fyrsta leik fyrir eftir að hafa gengið til liðs við Stjörnuna frá Þór Akureyri og skoraði hún 11 stig en skaut frekar illa eins og allt Stjörnuliðið. Helsta vandamál Stjörnunnar í leiknum var hversu mikið þær brutu og hleyptu Njarðvíkurliðinu í auðveld stig af vítalínunni.

Frammistaðan

Oft lítið að marka fyrstu leiki Íslandsmótsins en báðir þjálfarar hins vegar fengu ýmislegt og helling til að maula á. Áhugaverða er að Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Stjörnunnar, getur tekið ýmislegt jákvætt eftir frammistöðu sinna kvenna, gott framlag frá íslenska kjarnanum og helst til það neikvæða sé að þær séu of ákafar og lenda þess vegna í villu vandræðum.

Einar Árni Jóhansson, þjálfari Njarðvíkur, mun á meðan þrátt fyrir sigur þurfa að laga ýmislegt hjá sínu liði og sérstaklega sóknarlega á hálfum velli. Hann hins vegar fékk alvöru frammistöður frá bæði Brittany Dinkins og Dani Rodriguez.

Dómarar leiksins

Þeir Kristinn, Guðmundur og Dominik komust ágætlega frá þessum leik, líklega verið erfiður leikur að dæma þar sem bæði lið og sérstaklega Stjarnan sýndu mikla ákefð varnarlega og þurftu þeir að setja línuna snemma og fylgja henni út leikinn.

Stemmning og umgjörð

Stemmingin í húsinu var ágæt, nokkuð vel mætt Njarðvíkurmegin. Klassísk Sjoppa í horninu en lítið nostrað við undirritaðan.

Viðtöl

Einar Árni, þjálfari Njarðvíkur

„Við vorum öllu skárri í síðari hálfleik en áttum góða kafla í síðari hálfleik. Það sem skóp þennan sigur voru líklega einstaklingsgæði, við vorum í brasi í allan dag að skora á hálfum velli og voru það ákveðin vonbrigði. Við spiluðum fáa leiki á undirbúningstímabilinu en þessi frammistaða var víðs fjarri því sem við höfum og ætlum að standa fyrir og þurfum við að gera miklu betur ef við ætlum okkur eitthvað á Hlíðarenda í næstu umferð.“

Eva Wium, leikmaður Stjörnunar

„Við viljum spila hratt og agressíft en vorum í smá vandræðum að ná stjórn á orkustigin, leikmenn í villuvandræðum þurfa að bakka aðeins en það getur verið erfitt. Annars lýst mér vel á bæði liðið og nýjan þjálfara og elska að vera hérna og get ekki beðið eftir næsta leik.“

Ólafur Jónas, þjálfari Stjörnunnar

„Ég var gríðarlega ánægður með fyrstu þrjá leikhlutana en vorum í vandræðum í frákastabaráttunni. Svo erum við bara að koma okkur í smá vesen með öllum þessum villum því að við viljum spila á mjög háu tempói og það er eitthvað sem við viljum standa fyrir og gera en við þurfum samt að sýna meiri skynsemi þar. Ég ætlaði mér að vinna þennan leik þó að okkur vantaði Kanann minn, ætluðum bara að hlaupa yfir þær sem gekk vel fyrstu þrjá leikhlutana.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira