Uppgjörið: Stjarnan - Valur 90-89 | Stjarnan náði að halda út og er meistari meistaranna Hjörvar Ólafsson skrifar 28. september 2025 21:14 vísir/diego Íslandsmeistarar Stjörnunnar lögðu bikarmeistara Vals að velli þegar liðin mættust í Meistarakeppni KKÍ í körfubolta karla í ÞG Verk-höllinni í Ásgarði í Garðabænum í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 90-89 Stjörnunni í vil eftir æsispennandi leik þar sem úrslitin réðust á lokasekúndunni. Stjarnan fór betur af stað í þessum leik og var með nauma forystu framan af fyrsta leikhluta. Um miðbik fyrsta leikhluta hrökk Valsliðið hins vegar í gang og snéri taflinu sér í vil. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 28-22 fyrir Valsmönnum. Callum Lawson dró vagninn í sóknarleik Vals framan af leiknum. Giannis Agravanis, sem gekk til liðs við Stjörnuna frá Tindastóli í upphafi sumars, fann svo fjölina sína í öðrum leikhluta og setti niður tvö þriggja stiga skot með skömmu millibili. Ægir Þór Steinarsson fór annars fyrir Stjörnuliðinu sem var komið 39-37 yfir þegar annar leikhluti var hálfnaður. Stjarnan var svo áfram hænufeti framar þar til hálfleiksflautan gall en Stjörnumenn voru með tveggja stiga forskot, 52-50, þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. Orri Gunnarsson og Luka Gasic settu fimm stig í röð í seinni hluta þriðja leikhluta og Stjarnan var komin með átta stiga forystu 64-56 en nokkrum andartökum síðar var Callum Lawson búinn að jafna metin í 67-67 með þriggja stiga körfu. Stjarnan átti síðan síðasta áhlaup þriðja leikhluta og staðan var 76-69 fyrir heimamenn fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Callum Lawson var stigahæstur í liði Vals með 26 stig. Vísir/Hulda Margrét Valsmenn harðneituðu aftur á móti að leggja árar í bát og með mikilli baráttu og þriggja stiga skotum Frank Arons Booker náði Valur að koma sér í þá stöðu að eiga boltann þegar 6,3 sekúndur voru eftir og Stjarnan var 90-89 yfir. Frank Aron Booker náði ekki að setja boltann ofan í og Kristófer Acox ekki að blaka boltanum í netið. Þar af leiðandi fór Stjarnan með eins stigs sigur af hólmi og er meistari meistaranna. Stjarnan spilaði á fáum leikmönnum í þessum leik og það komust fimm leikmenn á blað hjá liðinu á móti sjö hjá Val. Þeir sem hófu leikinn á gólfinu hjá Stjörnunni sáu um stigaskorunina í kvöld. Ungir leikmenn Stjörnunnar fengu hins vegar mikilvægar mínútur inni á gólfinu og lögðu sitthvað á borðið þó svo þeir hafi ekki náð að setja stig á töfluna. Stjarnan lék án Pablo Bertone, fyrrverandi leikmanns Vals, í þessum leik en hann var að taka út þriðja leik sinn í fimm leikja banni sem hann fékk þegar hann spilaði fyrir Val á sínum tíma. Bertone verður því áfram á hliðarlínunni þegar Stjarnan mætir KR í fyrstu umferð Bónus-deildarinnar í Vesturbænum fimmtudaginn 2. október. Valur hefur svo leik í deildinni laugardaginn þar á eftir en þá fær Valsliðið Tindastól í heimsókn á Hlíðarenda. Þá voru bæði lið án eins erlends leikmanns hvort um sig en Stjarnan er að bíða eftir leikheimild fyrir kanadískan leikmann og Valur fær serbneskan liðsauka á morgun. Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari StjörnunnarVísir/Anton Brink Baldur Þór: Náðum upp góðum varnarleik í þriðja leikhluta „Það var bara heilmargt jákvætt í leik okkar. Orkan og ákefðin var flott allan leikinn og við náðum upp hörku vörn í þriðja leikhluta og sá kafli skilaði þessum sigri að mínu mati. Kemistrían milli manna var góð og baráttan til fyrirmyndar,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnuar, kátur. „Við vorum með stutta róteringu og ég var ánægður með hvað við náðum að halda uppi góðu tempi í leiknum þrátt fyrir það. Við erum að leitast við að finna réttu blönduna og það er allt á réttri leið að mínu mati. Þessi leikur sýnir að við erum bara á fínum stað með liðið okkar,“ sagði Baldur Þór enn fremur. „Það komu svo ungir leikmenn inn í leikinn og við fengum fínt framlag frá þeim. Líkamstjáningin var flott og mér fannst sjálfstraust í því sem þeir voru að gera. Það kann ég virkilega vel að meta og nú er bara að halda áfram í vinna í því sem þarf að bæta hjá þeim sem go hjá öllu liðinu,“ sagði hann. „Ég hefði að sjálfsögðu viljað sigla þessu heim á meira sannfærandi hátt eftir að hafa byggt upp forskot með með góðri vörn í þriðja leikhluta. Valsliðið er hins vegar hörkugott og Frank Aron Booker setti mikilvæga þrista sem komu þeim inn í leikinn. Sem betur fer dansaði boltann af körfunni undir lokinn og við náðum að vinna,“ sagði Baldur Þór um lokakafla leiksins. Finnur Freyr: Það var svolítið ryð í leikmönnum mínum „Það vantaði svolítið upp á hjá okkur í þessum leik og mér fannst svolítið ryð í leikmönnum á báðum endum vallarins. Þetta er samt ekkert til þess að hafa áhyggjur af. Við fengum hörkulið Stjörnunnar í andlitið á okkur og nú vitum við hvað þarf að bæta til þess að vinna jafn gott lið og Stjarnan er,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, að leik loknum. „Við náðum að leysa varnarleik þeirra vel í upphafi leiks en þeir hertu tökin á okkur eftir því sem leið á leikinn og við vorum í vandræðum með að komast að körfunni. Tengingar milli leikmanna voru ekki nógu sterkar og flæðið í sóknarleiknum ekki nógu gott,“ sagði Finnur Freyr þar að auki. „Holan við sem við grófum okkur í var orðin svolítið djúp en við sýndum karakter að koma til baka og sýndum hvers megnugir við erum undir lok leiksins. Því miður voru körfuboltaguðirnir ekki með okkur þegar þess þurfti í lokasókninni,“ sagði hann. „Við getum týnt til fullt af jákvæðum hlutum sen við getum tekið með okkur inn í komandi æfingaviku og tímann fram að fyrsta deildarleik. Liðið er að komast í fínt líkamlegt form og nú þarf bara að impra á vinnureglum í varnarleiknum og halda áfram að fínpússa sóknarleikinn. Það kemur allt saman, það er ég viss um,“ sagði Finnur um framhaldið . Finnur Freyr Stefánsson fer yfir málinVísir/Hulda Margrét Atvik leiksins Síðustu sekúndur leiksins voru æsispennandi og það var taugatrekkjandi fyrir stuðningsmenn beggja liða að sjá boltann dansa á hring Stjörnunnar en neita að fara ofan í. Valsmenn eiga hrós skilið fyrri að troða sér inn í leikinn með þriggja stiga körfum Franks Arons Booker, fráköstum og að kasta sér á alla lausa bolta. Stjörnur og skúrkar Ægir Þór var stigahæstur á vellinum með 30 stig og gaf auk þess að sjö stoðsendingar. Luka Gasic lítur vel út og Giannis Agravanis virðist kunna vel við sig í Stjörnutreyjunni. Bjarni Guðmann stóð sig vel í varnarleiknum og þá reif hann niður níu fráköst. Frank Aron Booker strengdi líflínu fyrir Val með þriggja stiga körfum sínum. Callum Lawson var svo stöðugur allan leikinn en hann var atkvæðamestur hjá Valsliðinu með 24 stig. Dómarar leiksins Dómarar leiksins, Kristinn Óskarsson, Birgir Örn Hjörvarsson og Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson voru léttir í lundu en fastir fyrir þess þurfti. Leikurinn fékk að flæða án þess að þeir settu sjálfa sig í aðalhlutverki sem er ávallt jákvæð tíðindi. Þeir félagar fá átta í einkunn fyrir sín störf. Stemming og umgjörð Vel mætt í Ásgarð í kvöld og glatt á hjalla. Blaðamenn fengu kaffi, sódavatn og aðrar drykkjarvörur sem þeim girntist hugur. Ekkert upp á umgjörðina að klaga í Garðabænum. Stemmingin varð svo rafmögnuð á lokaandartökum leiksins sem voru ekki fyrir hjartveika. Bónus-deild karla Stjarnan Valur
Íslandsmeistarar Stjörnunnar lögðu bikarmeistara Vals að velli þegar liðin mættust í Meistarakeppni KKÍ í körfubolta karla í ÞG Verk-höllinni í Ásgarði í Garðabænum í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 90-89 Stjörnunni í vil eftir æsispennandi leik þar sem úrslitin réðust á lokasekúndunni. Stjarnan fór betur af stað í þessum leik og var með nauma forystu framan af fyrsta leikhluta. Um miðbik fyrsta leikhluta hrökk Valsliðið hins vegar í gang og snéri taflinu sér í vil. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 28-22 fyrir Valsmönnum. Callum Lawson dró vagninn í sóknarleik Vals framan af leiknum. Giannis Agravanis, sem gekk til liðs við Stjörnuna frá Tindastóli í upphafi sumars, fann svo fjölina sína í öðrum leikhluta og setti niður tvö þriggja stiga skot með skömmu millibili. Ægir Þór Steinarsson fór annars fyrir Stjörnuliðinu sem var komið 39-37 yfir þegar annar leikhluti var hálfnaður. Stjarnan var svo áfram hænufeti framar þar til hálfleiksflautan gall en Stjörnumenn voru með tveggja stiga forskot, 52-50, þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. Orri Gunnarsson og Luka Gasic settu fimm stig í röð í seinni hluta þriðja leikhluta og Stjarnan var komin með átta stiga forystu 64-56 en nokkrum andartökum síðar var Callum Lawson búinn að jafna metin í 67-67 með þriggja stiga körfu. Stjarnan átti síðan síðasta áhlaup þriðja leikhluta og staðan var 76-69 fyrir heimamenn fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Callum Lawson var stigahæstur í liði Vals með 26 stig. Vísir/Hulda Margrét Valsmenn harðneituðu aftur á móti að leggja árar í bát og með mikilli baráttu og þriggja stiga skotum Frank Arons Booker náði Valur að koma sér í þá stöðu að eiga boltann þegar 6,3 sekúndur voru eftir og Stjarnan var 90-89 yfir. Frank Aron Booker náði ekki að setja boltann ofan í og Kristófer Acox ekki að blaka boltanum í netið. Þar af leiðandi fór Stjarnan með eins stigs sigur af hólmi og er meistari meistaranna. Stjarnan spilaði á fáum leikmönnum í þessum leik og það komust fimm leikmenn á blað hjá liðinu á móti sjö hjá Val. Þeir sem hófu leikinn á gólfinu hjá Stjörnunni sáu um stigaskorunina í kvöld. Ungir leikmenn Stjörnunnar fengu hins vegar mikilvægar mínútur inni á gólfinu og lögðu sitthvað á borðið þó svo þeir hafi ekki náð að setja stig á töfluna. Stjarnan lék án Pablo Bertone, fyrrverandi leikmanns Vals, í þessum leik en hann var að taka út þriðja leik sinn í fimm leikja banni sem hann fékk þegar hann spilaði fyrir Val á sínum tíma. Bertone verður því áfram á hliðarlínunni þegar Stjarnan mætir KR í fyrstu umferð Bónus-deildarinnar í Vesturbænum fimmtudaginn 2. október. Valur hefur svo leik í deildinni laugardaginn þar á eftir en þá fær Valsliðið Tindastól í heimsókn á Hlíðarenda. Þá voru bæði lið án eins erlends leikmanns hvort um sig en Stjarnan er að bíða eftir leikheimild fyrir kanadískan leikmann og Valur fær serbneskan liðsauka á morgun. Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari StjörnunnarVísir/Anton Brink Baldur Þór: Náðum upp góðum varnarleik í þriðja leikhluta „Það var bara heilmargt jákvætt í leik okkar. Orkan og ákefðin var flott allan leikinn og við náðum upp hörku vörn í þriðja leikhluta og sá kafli skilaði þessum sigri að mínu mati. Kemistrían milli manna var góð og baráttan til fyrirmyndar,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnuar, kátur. „Við vorum með stutta róteringu og ég var ánægður með hvað við náðum að halda uppi góðu tempi í leiknum þrátt fyrir það. Við erum að leitast við að finna réttu blönduna og það er allt á réttri leið að mínu mati. Þessi leikur sýnir að við erum bara á fínum stað með liðið okkar,“ sagði Baldur Þór enn fremur. „Það komu svo ungir leikmenn inn í leikinn og við fengum fínt framlag frá þeim. Líkamstjáningin var flott og mér fannst sjálfstraust í því sem þeir voru að gera. Það kann ég virkilega vel að meta og nú er bara að halda áfram í vinna í því sem þarf að bæta hjá þeim sem go hjá öllu liðinu,“ sagði hann. „Ég hefði að sjálfsögðu viljað sigla þessu heim á meira sannfærandi hátt eftir að hafa byggt upp forskot með með góðri vörn í þriðja leikhluta. Valsliðið er hins vegar hörkugott og Frank Aron Booker setti mikilvæga þrista sem komu þeim inn í leikinn. Sem betur fer dansaði boltann af körfunni undir lokinn og við náðum að vinna,“ sagði Baldur Þór um lokakafla leiksins. Finnur Freyr: Það var svolítið ryð í leikmönnum mínum „Það vantaði svolítið upp á hjá okkur í þessum leik og mér fannst svolítið ryð í leikmönnum á báðum endum vallarins. Þetta er samt ekkert til þess að hafa áhyggjur af. Við fengum hörkulið Stjörnunnar í andlitið á okkur og nú vitum við hvað þarf að bæta til þess að vinna jafn gott lið og Stjarnan er,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, að leik loknum. „Við náðum að leysa varnarleik þeirra vel í upphafi leiks en þeir hertu tökin á okkur eftir því sem leið á leikinn og við vorum í vandræðum með að komast að körfunni. Tengingar milli leikmanna voru ekki nógu sterkar og flæðið í sóknarleiknum ekki nógu gott,“ sagði Finnur Freyr þar að auki. „Holan við sem við grófum okkur í var orðin svolítið djúp en við sýndum karakter að koma til baka og sýndum hvers megnugir við erum undir lok leiksins. Því miður voru körfuboltaguðirnir ekki með okkur þegar þess þurfti í lokasókninni,“ sagði hann. „Við getum týnt til fullt af jákvæðum hlutum sen við getum tekið með okkur inn í komandi æfingaviku og tímann fram að fyrsta deildarleik. Liðið er að komast í fínt líkamlegt form og nú þarf bara að impra á vinnureglum í varnarleiknum og halda áfram að fínpússa sóknarleikinn. Það kemur allt saman, það er ég viss um,“ sagði Finnur um framhaldið . Finnur Freyr Stefánsson fer yfir málinVísir/Hulda Margrét Atvik leiksins Síðustu sekúndur leiksins voru æsispennandi og það var taugatrekkjandi fyrir stuðningsmenn beggja liða að sjá boltann dansa á hring Stjörnunnar en neita að fara ofan í. Valsmenn eiga hrós skilið fyrri að troða sér inn í leikinn með þriggja stiga körfum Franks Arons Booker, fráköstum og að kasta sér á alla lausa bolta. Stjörnur og skúrkar Ægir Þór var stigahæstur á vellinum með 30 stig og gaf auk þess að sjö stoðsendingar. Luka Gasic lítur vel út og Giannis Agravanis virðist kunna vel við sig í Stjörnutreyjunni. Bjarni Guðmann stóð sig vel í varnarleiknum og þá reif hann niður níu fráköst. Frank Aron Booker strengdi líflínu fyrir Val með þriggja stiga körfum sínum. Callum Lawson var svo stöðugur allan leikinn en hann var atkvæðamestur hjá Valsliðinu með 24 stig. Dómarar leiksins Dómarar leiksins, Kristinn Óskarsson, Birgir Örn Hjörvarsson og Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson voru léttir í lundu en fastir fyrir þess þurfti. Leikurinn fékk að flæða án þess að þeir settu sjálfa sig í aðalhlutverki sem er ávallt jákvæð tíðindi. Þeir félagar fá átta í einkunn fyrir sín störf. Stemming og umgjörð Vel mætt í Ásgarð í kvöld og glatt á hjalla. Blaðamenn fengu kaffi, sódavatn og aðrar drykkjarvörur sem þeim girntist hugur. Ekkert upp á umgjörðina að klaga í Garðabænum. Stemmingin varð svo rafmögnuð á lokaandartökum leiksins sem voru ekki fyrir hjartveika.