Upp­gjörið: Stjarnan - Valur 90-89 | Stjarnan náði að halda út og er meistari meistaranna

Hjörvar Ólafsson skrifar
499609861_30154339870817944_554352053420499311_n
vísir/diego

Íslandsmeistarar Stjörnunnar lögðu bikarmeistara Vals að velli þegar liðin mættust í Meistarakeppni KKÍ í körfubolta karla í ÞG Verk-höllinni í Ásgarði í Garðabænum í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu dd-dd Stjörnunni í vild.

Stjarnan fór betur af stað í þessum leik og var með nauma forystu framan af fyrsta leikhluta. Um miðbik fyrsta leikhluta hrökk Valsliðið hins vegar í gang og snér taflinu sér í vil. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 28-22 fyrir Valsmönnum. Callum Lawson dró vagninn í sóknarleik Vals framan af leiknum.

Giannis Agravanis, sem gekk til liðs við Stjörnuna frá Tindastóli í upphafi sumars, fann svo fjölina sína í öðrum leikhluta og setti niður tvö þriggja stiga skot með skömmu millibili.

Ægir Þór Steinarsson fór annars fyrir Stjörnuliðinu sem var komið 39-37 yfir þegar annar leikhluti var hálfnaður. Stjarnan var svo áfram hænufeti framar þar til hálfleiksflautan gall en Stjörnumenn voru með tveggja stiga forskot, 52-50, þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Orri Gunnarsson og Luka Gasic settu fimm stig í röð í seinni hluta þriðja leikhluta og Stjarnan var komin með átta stiga forystu 64-56 en nokkrum andartökum síðar var Callum Lawson búinn að jafna metin í 67-67 með þriggja stiga körfu. Stjarnan átti síðan síðasta áhlaup þriðja leikhluta og staðan var 76-69 fyrir heimamenn fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.

Callum Lawson var stigahæstur í liði Vals með 26 stig. Vísir/Hulda Margrét

Valsmenn neituðu að leggja árar í bát og með mikilli baráttu og þriggja stiga skotum Frank Arons Booker náði Valur að koma sér í þá stöðu að eiga boltann þegar 6,3 sekúndur voru eftir og Stjarnan var 90-89 yfir. 

Frank Aron Booker náði ekki að setja boltann ofan í og Kristófer Acox ekki að blaka boltanum ofan í. Þar af leiðandi fór Stjarnan með eins stigs sigur af hólmi og er meistari meistaranna. 

Stjarnan spilaði á fáum leikmönnum í þessum leik og það komust fimm leikmenn á blað hjá liðinu á móti sjö hjá Val. Ungir leikmenn Stjörnunnar fengu hins vegar mikilvægar mínútur inni á gólfinu án þess að ná að setja stig á töfluna.

Stjarnan lék án Pablo Bertone, fyrrverandi leikmanns Vals, í þessum leik en hann var að taka út þriðja leik sinn í fimm leikja banni sem hann fékk þegar hann spilaði fyrir Val á sínum tíma. Þá voru bæði lið án eins erlends leikmanns en Stjarnan er að bíða eftir leikheimild fyrir kanadískan leikmann og Valur fær serbneskan liðsauka á morgun.

Bertone verður því áfram á hliðarlínunni þegar Stjarnan mætir KR í fyrstu umferð Bónus-deildarinnar í Vesturbænum fimmtudaginn 2. október. Valur hefur svo leik í deildinni laugardaginn þar á eftir en þá fær Valsliðið Tindastól í heimsókn á Hlíðarenda.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira