Upp­gjörið: Fram - Haukar 27-32 | Haukar sigldu sigrinum í höfn í Úlfarsárdal

Hjörvar Ólafsson skrifar
Mörkunum rigndi inn hjá Skarphéðni Ívari Einarssyni í þessari rimmu. 
Mörkunum rigndi inn hjá Skarphéðni Ívari Einarssyni í þessari rimmu.  Vísir/Anton Brink

Haukar lögðu Fram að velli með fimm marka mun, 27-32 þegar liðin áttust við í fjórðu umferð Olís-deildar karla í handbolta í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal í kvöld.

Liðin voru jöfn að stigum með fjögur stig hvort lið fyrir þennan slag og leikurinn var sömuleiðis jafn á öllum tölum framan af fyrri hálfleik.

Breki Hrafn Árnason kom sterkur inn í markið undir lok fyrri hálfleiks og lagði grunn að því að Frammarar voru með tveggja marka forskot, 14-12, þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Sama spenna hélt áfram í seinni hálfleik og liðin skiptust á að hafa forystuna. Haukar komust svo þremur mörkum yfir, 25-22, þegar rúmlega 10 mínútur voru eftir af leiknum.

Haukar juku forskotið á lokakafla leiksins og fóru að lokum með fimm marka sigur af hólmi. Aron Rafn Eðvarðsson er greinilega óðum að finna sitt fyrra form en góð markvarsla hans skipti sköpum í þessum leik. 

Gunnar Magnússon sýndi mismunandi tilfinniingar á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Gunnar Magnússon: Frábært að sjá Darra aftur á parketinu

„Spilamennskan var köflött hjá okkur en sem betur fer dugði það til sigurs. Við vorum andlausir og flatir í fyrri hálfleik og það hefur loðað við Hauka í svolítinn tíma að það sé einhver doði í mannskapnum á köflum,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, sem var með blendnar tilfinningar þrátt fyrir sigurinn. 

„Það var allt annað að sjá okkur í seinni hálfleik og þar sýndu leikmenn mínir hvað í þeim býr. Það var miklu meiri barátta og liðsheild. Við það fækkuðu brottvísunum þar sem menn voru að rífa aftan í og einbeitingin var miklu meiri,“ sagði Gunnar enn fremur. 

Gunnar fékk nýjan leikmann inn í Haukaliið í þennan leik leik en Darri Aronsson snéri aftur inn á handboltavöllinn eftir langa fjarveru. Gunnar segir að tilkoma hans styrki liðið klárlega til muna.  

„Það er fyrst og fremst bara frábært að sjá Darra aftur inni á vellinum. Hann er búinn að vera hjá okkur í tvo mánuði að byggja sig upp fyrir að spila að nýju. Það var gaman að sjá Darra spila loksins. Hann styrkti varnarleikinn mikið eftir hann kom í hjarta varnarinnar,“ sagði hann. 

„Við erum sáttir við þennan sigur en það er verkefni mitt, leikmannanna og þeim sem koma að klúbbnum að breyta þeim kúltur að við kveikjum bara neista hér og þar. Við þurfum að spila betur og af meiri ákefð í lengri tíma. Við vinnum í því og vonandi tekst að breyta hugarfarinu hjá leikmönnum,“ sagði Gunnar um framhaldið. 

Einar Jónsson: Munurinn á liðunum var bara markvarslan

„Frammistaðan var bara fín þegar á heildina er litið og allt annað að sjá liðið en í leiknum gegn Selfossi til dæmis. Munurinn á liðunum í kvöld var bara markvarslan svo einfalt var það nú. Aron Rafn varði vel á meðan mínir markmenn hittu ekki á góðan leik,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, sáttur en svekktur. 

Arnór Máni Daðason og Breki Hrafn Árnason hafa ekki fundið sig í upphafi þessa tímabils en þeir áttu stóran þátt í því að Fram varð Íslands- og bikarmeistari síðasta vor. Einar segir að svipað hafi verið uppi á tengingnum á sama tíma í fyrra. 

„Arnór Máni og Breki Hrafn voru líka lengi í gang síðasta vetur og áttu kaflaskipta leiki fyrir jól á síðasta ári og svo óx þeim ásmegin eftir áramót. Ég kann svo sem engar skýtingar á því hvers vegna þetta hefur verið svona en vissulega væri ég til í meiri markvörslu í komandi leikjum,“ sagði Einar þar að auki. 

„Við vorum að spila á fáum leikmönnum í leik þar sem var hart barist og tempótið var þokkalega hátt. Auðvitað söknum við Marels og það mun taka einhvern tíma að finna réttu blönduna. Það þurfa fleiri en einn að fylla skarðið sem Marel skilur eftir, það er ljóst,“ sagði hann. 

„Við getum klárlega byggt á því hvernig við spiluðum þennan leik. Hér sýndu menn sitt rétta andlit. Það sem er kannski neikvæðst við leikinn er hvað fílabeinsturninn bauð upp á, en það er svo sem hætt að koma mér á óvart hvað kemur þaðan,“ sagði Einar sem var óánægður með að hafa fengið tvær mínútur fyrir að sparka í boltann eftir að hann fór af velli. Einar viðurkenndi þó að spyrnan hafi verið slök og þar hafi tilfinnanlega skot að hann væri með stífan ökkla. 

Einar Jónsson, þjálfari Fram, gat týnt til ýmislegt jákvætt þrátt fyrir tapið. Vísir/Vilhelm

Atvik leiksins

Haukum hlýnaði um hjartarætur þegar þeir sáu sinn uppalda leikmann, Darra Aronsson, snúa aftur inn á handboltavöllinn eftir um það bil þriggja ára fjarveru vegna þrálátra og erfiðra meiðsla. Gríðarlega gaman að sjá Darra spila handbolta á nýjan leik og geta aftur gert það sem hann augljóslega elskar.  

Stjörnur og skúrkar

Eins og áður segir hrökk Aron Rafn í gang þegar líða tók á leikinn heilt yfir var þetta kvöldið hans Skarphéðins Ívars Einarssonar sem var markahæstur á vellinum með níu mörk. Mörk Skarphéðins Ívars voru í öllum regnbogans og þessi öfluga skytta fann svo sannarlega fjölina sína í kvöld. 

Birkir Snær Steinsson skilaði svo sex mörkum á tölfuna og Freyr Aronsson lagði fimm mörk í púkkinn gamla og góða. Innkoma Darra í vörnina fleytti svo sigrinum endanlega yfir línuna. 

Dánjal Ragnarsson sýndi heilsteyptustu frammistöðuna hjá Fram en hann var atkvæðamestur hjá heimamönnum með sjö mörk en Ívar Logi Styrmisson kom næstur með sex mörk. 

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins, Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson, höfðu í nógu að snúast við að hafa hemil á leikmönnum, sérstaklega í fyrri hálfleik en Haukar voru 12 mínútur út af fyrstu 30 mínútur leiksins og leikmenn Fram í sex mínútur. Flest voru þetta réttlætanlegar brottvísanir fyrir klaufaleg brot, ólöglegar skiptingar og annað.

Það hægðist á tveggja mínútna brottvísunum í seinni hálfleik og þegar upp var staðið voru Haukar 16 mínútur í skammarkróknum og Frammarar í 10 mínútur. Fínasta dómgæsla sem fleytir þeim félögum í sjö í einkunn fyrir sín störf. 

Stemming og umgjörð

Þokkalegasta mæting í Dal draumanna að þessu sinni og stemmingin létt, ljúf og kát heilt yfir. Það er rúmgóð blaðamannaaðstaða í Lambhagahöllinni og sjálfboðaliðar Frammara boðnir og búnir að aðstoða blaðamenn eftir þörfum. Umgjörð við leikinn til háborinna fyrirmyndar. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira